Af sjávarhitavikum í N-Atlantshafi í miðjum september

Við lítum nú á vik sjávarhita frá meðallagi í Norður-Atlantshafi - eins og þau eru í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar í dag - miðvikudaginn 16. september.

w-blogg170915a

Grænir og bláir litir sýna neikvæð vik, en gulir og brúnir jákvæð. Neikvæðu vikin sem mynduðust þarsíðasta vetur - og sá næstliðni hélt við - eru enn áberandi og verða það líklega áfram.

Fremur hlýtt er í norðurhöfum - enda hafa verið mikil hlýindi þar í sumar á veðurstöðvunum á Jan Mayen, Bjarnarey og á Svalbarða. En kortið sýnir aðeins yfirborðshitavik en ekki hvernig háttar til í þeim sjó sem mun blandast upp í illviðrum hausts og vetrar. Almennt má segja að sjávarhitavik séu mun þrálátari heldur en hitavik í lofti - en við getum þó ekkert um það sagt af þessu korti einu hvort um þrálát eða skammvinn vik er hér að ræða. 

Vikin eru mjög óregluleg í kringum Grænland og á hafísslóðum og rétt að taka slíku með varúð - meðaltölin sem byggt er á í kringum ísinn eru ekki mjög áreiðanleg. Við sjáum þó kaldan blett við sunnanverða Austfirði - hann er trúlega raunverulegur, meðalhiti fyrrihluta septembermánaðar er undir meðallagi síðustu tíu ára í Seley. Þetta er eina [1] veðurstöð landsins þar sem hiti er undir meðallagi - reyndar í því á Vattarnesi.  Trúlega er það sunnanáttin að undanförnu sem veldur - hún dregur yfirborðssjóinn við Austfirði til austurs og kaldari sjór að neðan leitar upp í staðinn. - Þetta er alla vega einfalda skýringin - hvort aðrar koma til greina veit ritstjórinn ekki. 

Hann veit heldur ekki um ástæður hinna gríðarmiklu jákvæðu vika suður af Nýfundnalandi, en þau ná reyndar suður með austurströnd Bandaríkjanna - einhver sagði að hægt hefði á Golfstraumnum á þessum slóðum og hann breitt úr sér - rétt að ritstjórinn haldi froðu sinni vel í skefjum hvað það varðar. - En stöku félagar hans í bandarískri veðurfræðingastétt hafa lýst áhyggjum af hlýindum þessum - og telja þeir að þau gefi bandarískum austurstrandarillviðrum meiri vaxtarmöguleika nú í haust og framan af vetri en góðu hófi gegnir. - Fleira kemur þó við sögu þeirra veðra - og þar með fátt fast í hendi. 

[1] Samkvæmt töflu er hitinn raunar undir meðallagi á Ölkelduhálsi líka - en það þarfnast nánari staðfestingar - gæti verið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 50
  • Sl. sólarhring: 321
  • Sl. viku: 1623
  • Frá upphafi: 2466183

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1487
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband