Fremur mildar austan- og norðaustanáttir

Eftir sunnanhlýindin í vikunni sem leið hefur vindur aftur snúist til austurs og norðausturs. Kalt loft er þó ekki nærri og virðist ekki vera á leið hingað næstu vikuna - séu spár reiknimiðstöðva réttar.

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar næstu 10 daga að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg140915a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna mikið lægðardrag í háloftum fyrir sunnan land allt frá Baffinslandi í vestri og austur til Bretlands og Danmerkur, en hæðarhrygg fyrir norðaustan land. Að meðaltali er því gert ráð fyrir því að suðaustanátt ríki í háloftum yfir Íslandi næstu tíu daga. 

Strikalínur sýna þykktina, en litirnir þykktarvikin, það er hversu mikið þykktin víkur frá meðallagi septembermánaðar áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hún er hér í sumarstöðu, það er 5460 metra jafnþykktarlínan sem liggur þvert yfir landið frá norðri til suðurs.

Gríðarlegum hlýindum er spáð við Norður-Noreg, mesta þykktarvikið er um 110 metrar sem þýðir að hiti er þar um 5 stigum yfir meðallagi - það er mikið yfir 10 daga tímabil. Þykktarvikið yfir Íslandi er um 50 metrar og hiti í neðri hluta veðrahvolfs því um 2,5 stigum yfir meðallagi. Venjulega eru hitavik minni niðri í mannheimum heldur en þau í veðrahvolfinu - en 1 til 2 stiga jákvæð vik eru alltaf vel þegin. 

Stærstu neikvæðu vikin eru eins og oft áður í sumar vestur af Bretlandseyjum, hiti 2 til 3 stig undir meðallagi. En sjórinn hitar þar baki brotnu og loftið mjög óstöðugt - þarna er illviðratíð um þessar mundir - og jafnvel skaðaveður bæði í upphafi vikunnar og svo aftur um hana miðja.

En þetta er bara spá - og einstakir dagar geta einnig vikið mjög frá meðaltali sem þessu. Við höfum slíkt í huga - eins og venjulega.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 67
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 1640
  • Frá upphafi: 2466200

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 1504
  • Gestir í dag: 62
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband