Einu sinni á dag er ekki nóg

Veðri er þannig háttað þessa dagana að það er alls ekki nóg að „taka veðrið“ aðeins einu sinni á dag. Þeir sem eitthvað eiga undir því þurfa að fylgjast með í hvert skipti sem spá er endurnýjuð - nú - eða alveg ný gefin út. Ástæðan fellst ekki aðeins í örum breytingum á spánum (þær eru ekki endilega svo miklar) - heldur fremur að erfitt er fyrir notendur spánna að halda þræði - því mörgum vindáttum, síbreytilegum vindhraða, úrkomu margra gerða og hita ýmist ofan eða neðan frostmarks er troðið inn á sama sólarhringinn. 

Nú (seint á miðvikudagskvöldi 11. mars) stefna tvær lægðir til landsins - báðar varasamar - en hvor þeirra á sinn hátt. Við skulum reyna að gera lítillega grein fyrir þeim.

Sú fyrri hefur nú þegar hjúpað landið blikukápu og seint í nótt fer loftvog að hríðfalla. Sé spáin rétt stefnir lægðin yfir landið austanvert annað kvöld (fimmtudag 12. mars). Kortið hér að neðan sýnir sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar og vind í 100 metra hæð kl. 18. 

w-blogg120315a

Ísland er ofarlega á myndinni. Lægðarmiðjan er rétt suður af landinu - en vindur virðist hægur um mestallt land. Á undan henni er hins vegar nokkuð snörp austanátt. Snjóar eða rignir í henni? Líklega rignir um síðir á láglendi - en látum Veðurstofuna um að greina þar á milli. 

Þegar lægðin er komin norðar snýst vindur til vestnorðvestanáttar - hún gæti orðið hvöss um tíma - og ábyggilega verður hríð á heiðum - og trúlega snjóar líka á láglendi. Þetta stendur hins vegar ekki mjög lengi því næsta lægð nálgast. Hún er stærri og er á kortinu 949 hPa í miðju - verður að sögn ekki dýpri. En hvessa á af hennar völdum upp úr hádegi á föstudag. Nokkuð víst er talið að þar fari rigning á láglendi.

Svo verður ágreiningur hjá reiknimiðstöðvum. Þær eru reyndar sammála um að snörp lægðarbylgja komi strax á eftir - en hversu fljótt og hversu djúp hún verður vitum við ekki. Kortið hér að neðan sýnir útgáfu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg120315b

Kortið gildir kl. 24 á föstudagskvöld - sé þessi útgáfa rétt er mesta sunnanhvassviðrið komið austur á land - en vindur hefur lítillega gengið niður vestanlands. Lægðin litla er syðst á kortinu og hreyfist mjög hratt til norðnorðausturs - aðrar reiknimiðstöðvar sem litið var á (breska veðurstofan, hirlam-líkanið danska og bandaríska veðurstofan) eru allar með bylgjuna fyrr á ferðinni - eru með lægðina litlu á þessum stað um 6 klukkustundum áður (kl.18) en kortið sýnir. 

Rétt er að „taka veðrið“ oft á dag um þessar mundir - engin grið gefin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 490
  • Sl. sólarhring: 577
  • Sl. viku: 3652
  • Frá upphafi: 2428374

Annað

  • Innlit í dag: 435
  • Innlit sl. viku: 3279
  • Gestir í dag: 417
  • IP-tölur í dag: 401

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband