Í skotlínunni

Eftir nokkra (til þess að gera) rólega daga lendum við aftur í skotlínu kuldapollsins Stóra-Bola og er ekkert lát að sjá á því skytteríi. Þótt ekki fylgi kuldi verður samt mjög hryssingslegt veður og jafnvel verra en það - og samgöngur á heiða- og fjallvegum munu nær óhjákvæmilega raskast verulega suma dagana. En eins og venjulega látum við Veðurstofuna um að fylgjast með því. 

Þótt hér að ofan sé talað um til þess að gera rólegt veður var það nú samt ekki raunin á norðausturhorninu í dag þar sem norðvestanáttin var býsna stríð. 

Á morgun (miðvikudaginn 4. mars) er spáð landsynningsstormi eða roki vestanlands og illu víða annars staðar - svo á útsynningurinn að fylgja í kjölfarið með éljum sínum.

Við lítum hins vegar á háloftastöðuna á norðurhveli síðdegis á fimmtudag 5. mars.  

w-blogg040315a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þegar kortið gildir er Ísland í útsynningi og hiti við sjávarsíðuna verður væntanlega rétt neðan frostmarks - inni í daufbláum litum. 

Föstudagslægðina má sjá illvíga rétt suður af Grænlandi. Hún er í norðausturendanum á ofsafengnum vindstreng sem nær allt vestur til Klettafjalla. Í honum liggja jafnhæðarlínur í þéttu knippi og jafnþykktarlínur sömuleiðis. Falli þykkt og hæð alveg saman jafnast vindur við sjávarmál út - en undir svona mikilli brekku má lítið út af bera til að háloftaröstin fari ekki að teygja hes sitt í átt til jarðar.

Þetta er ekki vænleg staða fyrir okkur. Þótt skothríð Stóra-Bola geigi alloft er alltaf jafn óþægilegt að sitja fyrir miðinu miðju. 

En ein lægð í einu takk - sú næsta á morgun - hún verður afgreidd fyrst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð lýsing og vel skiljanleg

Guðmundur H. Einarsson (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 490
  • Sl. sólarhring: 577
  • Sl. viku: 3652
  • Frá upphafi: 2428374

Annað

  • Innlit í dag: 435
  • Innlit sl. viku: 3279
  • Gestir í dag: 417
  • IP-tölur í dag: 401

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband