Sama áfram?

Miklir umhleypingar hafa verið ríkjandi í vetur og ekki er tilefni til að ætla að þeim sé lokið. Eftir 2 til 3 daga hlé heldur lægðaumferðin áfram. Það verður þó að segjast eins og er að þessi leiðindatíð hefur þrátt fyrir allt ekki reynst sérlega illkynjuð. En ekki er allt búið - langt er enn til sumars.  

En gangurinn er býsna mikill, lægðir bæði djúpar og tíðar. Reiknimiðstöðvar eru í stórum dráttum sammála um tvær þær næstu. Þær eiga að plaga okkur á miðvikudag og síðan á föstudag eða laugardag. 

Við lítum hins vegar á meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga, spáin nær frá hádegi þess 1. og til hádegis 10. mars. 

w-blogg020315a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en jafnþykktarlínur eru strikaðar. Litirnir sýna þykktarvikin og þar með vik hita í neðri hluta veðrahvolfs frá meðaltalinu 1981 til 2010. 

Gríðarlega mikil neikvæð vik sitja yfir Labrador og teygja sig þaðan til austurs langt út á Atlantshaf og ná reyndar alveg til okkar. Vikið yfir Íslandi er í kringum -50 metrar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verður um -2,5 stigum undir meðallagi þessa tíu daga. Það er þó þannig að vegna uppruna loftsins - það er orðið mjög óstöðugt þegar til Íslands er komið - er líklegt að vikin í neðstu lögum verði ívið minni en þetta - en hiti samt lítillega undir meðallagi tímabilið í heild.

Það munu skiptast á snögg landsynningsveður - oftast með rigningu og skammvinnum hlýindum og svo útsynningur - býsna harður suma dagana með snjógangi og almennum leiðindum. Svo gætu fáeinir hægir norðanáttardagar skotist inn á milli. 

Sem sagt - sama áfram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá viðbót.

Á meðan við upplifum kaldan og snjóþungan vetur, þá upplifa íbúar Evrópu mjög mildan vetur.
T.d er búið að vera íslenskt vorveður á Bretlandseyjum í allan vetur, ísbúar Skandinavíu upplifa sömuleiðis mildan vetur, og mjög hlýtt hefur verið í t.d. Finnlandi og Rússlandi, langt yfir meðaltali.  
Allt kemur þetta í kjölfar tveggja mjög hlýrra sumra á þessum slóðum.

Við þurfum reyndar ekkki að fara lengra en til frænda vorra í Færeyjum, en þar hefur veturinn verið askaplega mildur.

Sennilega höfum við á Íslandi upplifað eitt versta vetrarveðrið í ár.

Við hljótum því að eiga inni mikið og langvarandi gott veðurfar næstu misserin.

Halldór M. Hallgrímsson (IP-tala skráð) 2.3.2015 kl. 18:35

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já Halldór.erum alltaf að safna inneign í veðri,er ekki hafið fullt af bönkum?Eins og sá eini sem ég man nafnið á;Selvogsbanki.

Helga Kristjánsdóttir, 3.3.2015 kl. 00:54

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Við erum búin að eyða svo miklu af blíðviðrisreikningnum undanfarinn áratug að reikningurinn hlýtur að hafa tæmst. En blíðan skilar sér um síðir.

Trausti Jónsson, 3.3.2015 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 115
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 2036
  • Frá upphafi: 2412700

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 1783
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband