Fara næstu lægðir fyrir sunnan land?

Sem stendur gera reiknimiðstöðvar ráð fyrir því að tvær næstu stóru lægðir fari til austurs fyrir sunnan land (á sunnudag og svo miðvikudag í næstu viku). Þetta er tilbreyting frá því sem verið hefur að undanförnu - ef rétt reynist. Það þýðir að norðlægar áttir með frosti gætu orðið ágengar. - En allt er þetta samt sýnd veiði en ekki gefin.

Morgundagurinn (fimmtudagur 19. febrúar) er líka merktur norðanátt - þegar lægðin sem olli hlýjunni í dag fer austur fyrir. 

Á föstudag er sagt að ástandið verði eins og kortið hér fyrir neðan sýnir.

w-blogg190215a

Norðanátt um land allt - e.t.v. strekkingur sums staðar með hefðbundnu veðri - éljum um landið norðanvert en bjartviðri syðra. Það er nokkuð kalt, það er -15 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem liggur þvert um landið frá vestri til austurs - og ekki svo mjög langt í -20 stiga línuna. 

Smálægðin vestan til á Grænlandshafi sýnir ákveðinn veikleika í norðanáttarupplegginu. Lægðakerfið mikla við Nýfundnaland á svo að nálgast, dýpka töluvert og fara síðan til austurs fyrir sunnan land á sunnudag. Ætli við verðum ekki að trúa því. 

En þetta er ekki norðanátt sem grundvallast á fyrirstöðu í háloftunum - vestanáttin heldur sínu striki efst í veðrahvolfinu og bíður færis. Kuldinn við Norðaustur-Grænland er nú meiri en verið hefur um nokkurt skeið og hann bíður líka færis.

Tíu daga veðurspá evrópureiknimiðstöðvarinnar segir að hiti verði að meðaltali um -5 stigum undir meðallagi til mánaðamóta. En það er stöðugt verið að spá kuldum sem ekki skila sér þegar á hólminn er komið - ætli það gerist nú rétt einu sinni? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er eðlilegt að lifa í voninni, það vonast t.d. flestir eftir betri tíð með blómum í haga, en vonin verður að vera raunsæ. Svo verða menn auðvitað einnig að vera með eðlileg viðmið.

Mörgum manninum hættir t.d. til að líta á kulda sem eitthvað neikvætt, jafnvel á vetrum þegar það er eðlilegt að sé kalt, en hlýindi sem jákvætt þrátt fyrir að því fylgi leiðinlegar aukaverkanir eins og rok, slabb, bleyta og önnur leiðindi!

Mér sýnist þetta hrjá veðurfræðinga alveg sérstaklega. Þeir gleðjast ógurlega þegar von er á lægðum sem fara réttum megin við landið með tilheyrandi hlýindum. En sé von á kuldatíð, þó svo að henni fylgi stillur, sólskin og þar af leiðandi þurrviðri, þá leggjast þeir á bæn og biðja um það fyrrnefnda.

Svo er oft með Trausta Jónsson - og kemur vel fram í þessum skrifum hans hér að ofan. Allar spár, skammtíma- sem langtímaspár, benda til eindreginnar norðanáttar með tilheyrandi kuldatíð og það alveg út þennan mánuð (sem er stuttur sem betur fer).

En Trausti lifir í voninni. Ekki er víst að spárnar rætist. Kuldaspáin gæti ræst en það er sýnd veiði en ekki gefin. Smálægð ein á Grænlandshafinu gæti bjargað okkur frá þessum ósköpum, jafnvel lægðakerfið við Nýfundnaland (já, þá gætu komið aftur þessar dásamlegu umhleypingar sem við höfum notið undanfarið),

Eða er ekki "stöðugt verið að spá kuldum sem ekki skila sér þegar á hólminn er komið"?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 19.2.2015 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband