Hitafar á Kjalarnesi í dag (þriðjudag 17. febrúar)

Í dag var einkennilegt hitafar á Kjalarnesi í nágrenni Reykjavíkur. En lítum fyrst á spákort harmonie-líkansins um hita á landinu um miðnæturbil nú í kvöld (þriðjudag 17. febrúar).

w-blogg180215b

Ekki þarf að horfa lengi á þessa mynd til að sjá að ýmislegt einkennilegt er á seyði. Sjá má bletti víðsvegar um hálendið þar sem líkanið segir að frostlaust sé - jafnvel þótt yfirleitt sé töluvert frost. Meðfram norðvesturbrún Vatnajökuls er svæði þar sem hiti fer upp í 3,3 stig - og frostleysurönd er meðfram norðurbrún Dyngjujökuls. Sömuleiðis er ámóta blettur við norðvestanverðan Hofsjökul. 

Um Suðurlandsundirlendið liggja skörp hitaskil á milli upp- og lágsveita. Þetta er nú hálfótrúlegt allt saman - en samt gæti verið eitthvað til í þessu. Kl. 23 var hitinn við Hágöngur -0,2 stig, en -7,3 í Veiðivatnahrauni á sama tíma. 

Hér tekst á hlýtt loft í nokkur hundruð metra hæð yfir landinu og kalt loft sem annað hvort þarf að ryðja burt - eða blanda saman við hlýja loftið. Þegar svona stendur á - og hvessir er hlýja loftið líklegast til að láta vita af sér hlémegin fjalla.

Og þannig stóð á á Kjalarnesi í dag (þriðjudag 17. febrúar). Myndin sýnir hita á þremur stöðvum frá því kl. 15 til kl. 22.

w-blogg180215

Blái ferillinn sýnir hita á Skrauthólum, sá rauði við Blikdalsá skammt sunnan við Hvalfjarðargöng og sá græni á við stöðina nærri Móum (hún heitir yfirleitt Kjalarnes).

Frost er á öllum stöðvunum fram til kl. 18:30 - þá fer hiti upp fyrir frostmark við Blikdalsá - og í frostmark við Skrauthóla skömmu síðar. Ekki hlánaði á Kjalarnesi fyrr en klukkan að verða tíu í kvöld. 

Eins og sjá má fór hitinn í rúm 9 stig við Blikdalsá um kl. 20 - á sama tíma var frost við Móa. Mesti samtímamunur ver 9,8 stig. Hvasst var á báðum stöðvum - sem gerir stöðuna enn sérkennilegri. Stöðin við Móa var í vindstreng sem lá í kalda loftinu - nokkuð aðþrengdu við suðurhlíðar Esju - í hríðarbyl. Ritstjórinn sá vart út úr augum þegar hann ók heimreið sína nærri Úlfarsá um svipað leyti. 

Vindurinn við Blikdalsá virðist hafa komið beint niður Blikdalinn án þess að blandast svo mjög til hliðanna. Þar hefur loftið hlýnað um ein 8 stig á leið ofan af Esju. Ekki svo löngu síðar hefur loftið í kring farið að blandast upp í hlýja loftið - þá kólnaði um 2 til 3 stig við Blikdalsá - en fór að hlýna á Skrauthólum og loksins við Móa líka. 

Harmonie-líkanið er að sýna eitthvað þessu líkt - hvort það hittir í á nákvæmlega réttum stöðum á réttum tíma er svo annað mál. En það er mjög í minni frá unglingsárum ritstjórans að meðan ófærð og hríð ríkti í austanátt í Reykjavík gat verið rigning og hláka í Borgarnesi - og stöku sinnum öfugt væri áttin aðeins norðlægari. 

Þetta veður á Kjalarnesi nú í kvöld var vafalítið hættulegt umferð. Að aka inn og út úr hríðarveðri og hláku sitt á hvað skapar alls konar hættu sem tengist skyndilegri hálku eða ísingu á vegi - nú eða á bílnum og framrúðunum. Skafrenningurinn sést þó, en ísingin miklu síður og hún getur þar að auki verið óvænt og sýnst óskiljanleg. Vonandi hafa engir lent illa í því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessu líklega alveg óskylt, þá datt ég niður á ferðasögu frá 1748 (yfir Atlandshaf) þar sem lýst er upplifunum skipverja af veðurlagi, hvernig þeir lásu í skýin vindinn og ölduna.  Ekki svo vitlausir á þessum tíma. http://content.wisconsinhistory.org/cdm/ref/collection/aj/id/14606

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.2.2015 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 43
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 2412628

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1717
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband