Verður hæðin vestan Bretlands þrálát?

Undanfarna daga hefur mikil hæð setið vestur af Bretlandseyjum og hún beinir til okkar mjög hlýju lofti. Í dag (föstudag 6. febrúar) tókst köldu lofti að brjótast austur um Ísland með nokkrum látum - en varð strax að láta undan síga. Næsta atlaga kalda loftsins verður að sögn ákveðnari - en þó er langt í frá útséð með það. 

Á morgun, laugardag 7. febrúar, verður hæðin hvað öflugust - miðjuþrýstingur fer þá upp fyrir 1045 hPa - ekkert met en samt með mesta móti. Hæðin er hlý - og slíkar hæðir ná allt upp í veðrahvörf og belgja þau upp á við og ryðja heimskautaröstinni úr sinni hefðbundnustu stöðu. Minni bylgjur úr vestri ganga að hæðinni með afli og hnika henni til. 

w-blogg070215a

Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar sýna styrk og stefnu - en þar sem vindhraðinn er mestur eru markaðir litir. Mesti vindhraðinn er yfir Vestur-Grænlandi (fjólublár blettur) - yfir 90 m/s - munar um það sem meðvind á flugleiðum. 

Ísland er hér vel inni í hlýja loftinu sunnan rastarinnar - en lægðardragið sem er yfir Nýfundnalandi sækir að og mun reyna að hnika hæðinni til. Það tekst að nokkru þannig að um hádegi á mánudag hefur hún hörfað - en meginskotvindur rastarinnar verður rétt hjá Íslandi.

w-blogg070215b

Við verðum á hlýju hliðinni - en samt - kalt loft getur nefnilega gengið langt inn undir röst í þessari stöðu. Sé þykktin tekin sem vísir um hita á mánudag - ætti að vera frostlaust (og vel rúmlega það) um allt land nema á Vestfjörðum. Þó á frostið að vera -10 stig í 850 hPa-fletinum yfir Faxaflóa - jú, það getur verið frostlaust við yfirborð undir svo köldu lofti - en því fylgir samt oftast frost. 

Þarna stendur greinilega allt í járnum - sömuleiðis á þriðjudag - hvassviðri eða hægur - snjór eða regn?

Eftir þessa tvo erfiðu daga (þriðjudag og miðvikudag) segjast reiknimiðstöðvar nú sammála um kaldan miðvikudag - jafnvel mjög kaldan. Framhaldið? Um það er skemmtilegt ósamkomulag reiknimiðstöðva - þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi). Við skulum líta á það okkur til upplyftingar - en takið ekki mark á því.

Fyrst er útgáfa Evrópureiknimiðstöðvarinnar:

w-blogg070215c

Hún sýnir krappa háloftalægð fyrir suðvestan land (í 500 hPa-fletinum). Suðvestanátt er yfir Íslandi - en hæðin hefur algjörlega vikið. Þessi staða er óvenjuleg og þrungin möguleikum. 

Bandaríska veðurstofan er með allt aðra spá:

w-blogg070215d

Hér er þykktin í lit - en jafnhæðarlínur sýndar heildregnar eins og á efra kortinu. Hér er allt einfalt - hlýindin taka sig strax upp aftur - enginn möguleiki á öðru. Miklu algengari og þar með líklegri staða. 

En kanadíska veðurstofan er mun nær evrópureiknimiðstöðinni - en þó alls ekki eins. Japanir og bretar fara bil beggja - sé það hægt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér sýnst nú allt benda til snjókomu strax eftir helgi og fram eftir vikunni. Svo spáir bæði íslenska og norska veðurstofan. Hæðin mun þannig láta undan síga og það kólnar vel. Ekkert hitamet í febrúar í kortunum!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 11:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Meðalhitamet í þessum febrúar er harla ólíklegt - en hiti á Akureyri er þó 3 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990 og rúmlega tveimur stigum ofan meðallags síðustu tíu ára það sem af er mánaðar - og evrópureiknimiðstöðin spáir að hiti næstu tíu daga verði í meðallagi.

Trausti Jónsson, 7.2.2015 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 793
  • Sl. sólarhring: 830
  • Sl. viku: 3916
  • Frá upphafi: 2430444

Annað

  • Innlit í dag: 710
  • Innlit sl. viku: 3303
  • Gestir í dag: 671
  • IP-tölur í dag: 635

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband