Fárviðri vestur af Skotlandi

Í kvöld (fimmtudaginn 8. janúar) er sérlega kröpp lægð á leið til austnorðausturs vestur af Skotlandi. Á myndinni hér að neðan er hún sennilega upp á sitt besta, þurra loftið að ofan um það bil að hringa lægðarmiðjuna.

w-blogg090115a

Lægðin dýpkaði gríðarlega á stuttum tíma nú síðdegis, evrópureiknimiðstöðin giskaði á 15 hPa milli kl. 12 og 18. Illa horfir um stund fyrir íbúum Norður-Skotlands, Orkneyja og Hjaltlandseyja, en fárviðrið á að verða furðuskammlíft - heimskautaröstin sem fóstraði lægðina mun kremja hana á örskotsstund aftur. Þannig að það allra versta gæti verið afstaðið þegar lægðin strýkst við Skotland og dottið niður í venjulegt hvassviðri eða storm þegar til Noregs og Norðursjávar er komið.

En þeim sem eitthvað eiga undir veðri á þessum slóðum er samt ómótt því spár eru bara spár og illt að fullyrða um réttmæti þeirra fyrr en reynslan hefur sýnt svart á hvítu hvað úr verður. Veðurstofur á svæðinu hafa allan vara á. 

Önnur lægð fylgir síðan í kjölfarið. Hún á þó að fara aðeins norðar en sú fyrri og ekki ná sér alveg eins vel á strik. Við sjáum hana á kortinu hér að neðan.

w-blogg090115b

Við höfum nokkrum sinnum litið á svona kort áður (en fæstir muna það). Mikið litafyllerí virðist á ferðinni - en allt er nú samt á sínum stað. Kortið sýnir það svæði á Atlantshafi sem við oftast horfum á, Ísland er rétt ofan við miðja mynd í dökkbrúnu klessunni miðri.

Ofan í litunum má greina venjulegt sjávarmálsþrýstikort, en af litununum má greina afstöðu veðrahvarfanna og raka í lægri lögum veðrahvolfsins (höfum ekki áhyggjur af því) - en lægðin nýja er hér vestan Skotlands - nærri því á sama stað og fyrri lægð var nú síðdegis. Við sjáum vel hlýjan geira hannar sem rauðlitað svæði suður og suðaustur af lægðarmiðjunni. 

Norðan við lægðina er lína þar sem snögglega skiptir á milli lita - þar er brot í veðrahvörfunum, þau liggja þar nánast lóðrétt - eða að þau ganga inn undir sig sjálf. Þar er nægur máttur til að hleypa skyndidýpkun í lægðina - ef hún kemst þangað.

Stefnumót lægðarinnar í dag, hlýja loftsins og veðrahvarfabrotsins gekk sérlega vel upp - ofurdýpkun varð staðreynd - enn sjá má leifar hennar við Vestur-Noreg á kortinu - jú, talsverður vindur í Danmörku og við strönd Noregs - en gengur fljótt hjá og hjaðnar.

Lægðinni á kortinu á að takast að ná brotinu - þá fer loftþrýstingur í lægðarmiðjunni að hrapa. Hér er hún 980 hPa djúp - en reiknimiðstöðin segir hana komna niður í 945 hPa innan við sólarhring síðar - þá úti af Firðafylki í Noregi - norska veðurstofan er óróleg, við látum hana segja beint frá á nýnorsku:

Fortsatt auka overvaking - met.no

„Fredag kan det verte vestleg full storm på 25 m/s i Hordaland, Rogaland og i Vest-Agder, med vindkast på 30 til 35 m/s. Laurdag er det venta vestleg sterk storm 30 m/s, kan hende orkan 33 m/s, med vindkast på 35 til 45 m/s på Vestlandet og i Vest-Agder. Både fredag og laurdag er det venta høge bølger inn mot kysten. Laurdag og natt til søndag er det fare for ekstremt høg vasstand“.

Ísland situr í rólegri háloftalægð meðan á þessu stendur - brúni liturinn táknar mjög óstöðugt loft - en að vetrarlagi er lítið tilefni til uppstreymis yfir landi. Talsverðir éljagarðar geta þó borist inn á land standi vindur af hafi og sömuleiðis geta myndast smálægðir sem bera með sér strekkingsvind og snjókomu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 75
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 2842
  • Frá upphafi: 2427394

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2545
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband