Líka í heiðhvolfinu

Veðurfar er um þessar mundir ekki aðeins stórgert í veðrahvolfinu heldur uppi í heiðhvolfi líka. Lægðin mikla sem ríkir þar á þessum tíma árs leikur öll á reiðiskjálfi ef svo má segja - ástæðan er sú að öldugangurinn í veðrahvolfinu togar í. Ekki hefur þó enn komið til þess að lægðin hafi alveg dottið í sundur eins og stundum gerist. Rétt er að taka fram að ástand þetta er alls ekki einstakt heldur fremur hluti af hefðbundinni - en misjafnri - flugeldasýningu vetrarins.

Textinn hér að neðan er trúlega inni á nördasvæðinu - frekar en á áhugasviði hins almenna lesanda - en ritstjóri hungurdiska er ekki háður auglýsingatekjum eins og margir aðrir kollegar hans og getur því leyft sér að vera með leiðinlegt efni að vild (jæja - er það bara svona).

Við lítum fyrst á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 30 hPa-flatarins auk vinds og hita í fletinum. Flöturinn er nú í um 23 km hæð yfir sjávarmáli. Kortið er litabólgið þannig að örstutta stund tekur að átta sig á því - en reynum það.

w-blogg080115a

Kortið sýnir Norður-Atlantshaf - sama svæði og við oftast skoðum. Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en Spánn neðst til vinstri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - og hæðin tilfærð í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum - á miðju kortinu eru víða tveir fánar á örvunum - hver fáni er táknar 25 m/s.

Litirnir sýna hita í fletinum. Þar er alls staðar frost - á hvítu blettunum sem sprengja litakvarðann er það minna en -30 stig. Það telst mjög hlýtt í 23 km hæð hlýtt er umhverfis á stóru svæði.

Á kortum sem sýna hitafar í veðrahvolfinu er ástæða vetrarhlýinda annað hvort sú að loft frá suðlægari slóðum streymi inn á svæðið - eða að niðurstreymi sé mikið. Í 23 km hæð er ekki um það að ræða að -30 stiga hlýtt loft komi að sunnan - þessi hlýindi eru einfaldlega þau mestu á öllu norðurhveli um þessar mundir. Þá hlýtur ástæðan að vera mikið niðurstreymi - mættishiti vex (nær) alltaf upp á við - að draga loft niður í flöt að ofan hækkar hita í honum. 

Þar sem hitinn er mestur er því nær örugglega mikið niðurstreymi - hvers vegna? Ástæðan ætti að sjást vel á næsta korti - það er nærri því það sama og við litum á í fyrradag, 300 hPa kort sem sýnir heimskautaröstina í miklum ham suður í hafi. 

w-blogg080115b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - hér erum við í um 9 km hæð. Vindörvar hefðbundnar, en litafletirnir sýna vindhraða. Fallegan kjarna (skotvind) í heimskautaröstinni norðan í breiðum bylgjuhrygg sem hreyfist allhratt austur (þó miklu hægar en vindurinn). Austurhreyfing hryggjar og rastar dregur niður loft á eftir sér og ef við berum saman myndirnar sést að hitahámarkið í 30 hPa er einmitt norðvestur af þeim stað þar sem 300 hPa vindurinn er mestur. Vonandi átta lesendur sig á þessu.

En það er nokkuð langt frá 9 km upp í 23 km og þar á milli eigum við kort af 100 hPa-fletinum - en sleppum því hér. Þar má líka sjá hitahámark - en er nærri beint yfir rastarkjarnanum en ekki til hliðar við hann. Við látum ástæður þess liggja á milli hluta hér.

En þessi mikli niðurdráttur á lofti norðvestan við röstina aflagar allt þrýstisvið 30 hPa flatarins - heiðhvolfslægin er því langt frá hefðbundinni hringlögun sinni. Þetta sést vel á kortinu að neðan - en það er úr líkani bandarísku veðurstofunnar og gildir á sama tíma og kortin að ofan - athugið að litakvarðinn er hér allt annar en á hinu 30 hPa-kortinu.

w-blogg080115c

Hitahámarkið í bandaríska líkaninu er svipað og hjá evrópureiknimiðstöðinni. Hringrásin er mjög úr lagi gengin. Við vitum ekki hvort hún brotnar alveg niður á næstunni - því er ekki spáð. Ástæða kulda í heiðhvolfinu á þessum tíma árs er fyrst og fremst neikvæður geislunarbúskapur. Sólin sem venjulega hitar ósonsameindir (sem síðan rekast á aðrar) sést nema rétt norður fyrir heimskautsbaug og þar er stöðugt varmatap (sem blöndun að sunnan vinnur eitthvað á móti. 

Um jólaleytið fór hiti í 30 hPa-fletinum niður fyrir -84 stig í lægðinni miðri - en lægsta tala á þessu korti er um -78 (á að giska). Lægðin er líka þó nokkuð grynnri en var þá. Eins og áður er getið er þessi heiðhvolfsóróleiki orðin til vegna mikils öldugangs í veðrahvolfinu - en ekki öfugt. Brotni heiðhvolfslægðin hins vegar niður - vilja áhrif af því smám saman skila sér niður í veðrahvolf - en við erum ekkert að velta okkur upp úr því í bili - höfum reyndar gert það áður eins og (mjög) þrautseigir geta staðfest með lestri á gömlum hungurdiskapistlum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 428
  • Sl. sólarhring: 458
  • Sl. viku: 2726
  • Frá upphafi: 2414390

Annað

  • Innlit í dag: 397
  • Innlit sl. viku: 2512
  • Gestir í dag: 382
  • IP-tölur í dag: 371

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband