Hlýindi með austanátt

Austanáttin sem fjallað var um í pistli gærdagsins færir okkur hlýtt loft - sumir segðu mjög hlýtt. Ekki veitir af að gefa mánaðarmeðalhitanum smábúst (eins og það víst heitir nú á dögum). Það sem af er mánuði er meðalhiti á landinu þó yfir hita sömu daga 1961 til 1990 - en lítillega undir meðalhita síðustu tíu ára. 

Við lítum á hefðbundið norðurhvelskort. Þar er margt að sjá að vanda. Í vestri vekja mikil hlýindi yfir Alaska athygli og gríðarleg fyrirstöðuhæð sem þeim fylgir. Sumir segja að hún sé afleiðing af ofurlægðinni sem var þar á ferð fyrir nokkrum dögum, við Aljúteyjar.

w-blogg111114a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn og má af þeim einnig ráða vindstefnu. Þykktin er sýnd með lit - kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli gulra og grænna lita eru við 5460 metra. Þar fyrir ofan má tala um sumarhlýindi í háloftum (sem þó ekki nýtur ætíð við jörð). Svo hlýtt er á kortinu yfir Alaska - menn búast jafnvel við hláku þar í innsveitum. 

En þessi hlýindi ryðja burt köldu lofti sem árstímans vegna „ætti“ þar að vera. Kalda loftið hefur hér hörfað til suðurs alveg suður á landsvæði Bandaríkjanna og þar er mikið kuldakast yfirvofandi víða austan Klettafjalla. Því mun að sögn reiknimiðstöðva fylgja snjókoma. Ef við teljum bláu litina má sjá að sá dekksti er sá fimmti í röðinni, og markar svæði þar sem þykktin er minni en 5040 metrar. Það þykir mjög kalt hér á landi - en er samt ekki eins kalt og sama þykkt veldur þarna á sléttunum vestra því enginn er þar hlýr sjór til að berjast gegn kuldanum. Nú - og svo nefna reiknimiðstöðvar jafnvel enn kaldara loft á svipuðum slóðum í næstu viku - en nóg um það. Fréttir munu væntanlega fyllast af frestun gróðurhúsaáhrifa eins og venjulega þegar kólnar í henni Ameríku. 

Eystra - yfir Evrópu er allt annað uppi á teningnum (nema rétt nyrst í Noregi og Finnlandi). Á kortinu er sérlega hlýtt loft yfir Þýskalandi og hlýr hæðarhryggur teygir sig í átt til Íslands (rauða strikalínan). Við borð liggur að guli liturinn nái til okkar - en þó sennilega ekki alveg. 

Undanfarna daga hefur verið mikil óvissa uppi með þennan hrygg - best er að hann haldist svipaður að styrkleika á svipuðum stað og á kortinu - hörfi hann til austurs lendum við í umhleypingasömum lægðagangi - en nái hann að búa til fyrirstöðuhæð er meiri óvissa uppi. Stöku spá hefur gert ráð fyrir því að fyrirstöðuhæð myndist við Ísland - sem út af fyrir sig er ágætt - en hefur þá áhættu í för með sér að hörfi hún til vesturs fáum við yfir okkur helkulda úr norðri - það hefur verið nefnt en er einmitt í dag ekki talið líklegt (enginn veit um líkurnar á morgun).

En lítum að lokum á kort sem sýnir sjávarmálsþrýsting og mættishita við landið á sama tíma - kl. 18 á miðvikudag 12. nóvember. 

w-blogg111114b

Hér má sjá austanstrekkingsvind. Hæstur er mættishitinn yfir landinu norðvestanverðu og má þar sjá töluna 17,2 stig (kortið batnar við stækkun). Mættishiti sýnir hversu hlýtt loft sem dregið er niður til 1000 hPa þrýstings úr 850 hPa yrði eftir niðurdráttinn. Hann segir til um allra mestu hámarkshitavæntingar - en þær rætast nær aldrei - vegna íblöndunar kaldara lofts sem liggur undir. - En vel má vera að tveggja stafa hitatölur sjáist samt einshvers staðar á landinu á miðvikudag og fimmtudag og þá helst þar sem vindur stendur af háum fjöllum. 

En landshitameta er þó ekki að vænta - hitametið þann 12. nóvember er nefnilega 22,7 stig - sett á Dalatanga 1999. Í Reykjavík er það 11,7 (líka frá 1999) og 14,6 á Akureyri (líka 1999). Þótt ekki sé líklegt að Reykjavíkur- og Akureyrarmetunum verði hnikað eru þau þó bæði lægri en mættishitinn á kortinu. Nei - við skulum ekki einu sinni láta okkur dreyma - vonbrigðin verða þá engin. Við getum þó fylgst með og íþróttalega sinnaðir mega velta vöngum yfir því hver hámarkshitinn verður og hvaða stöð hirðir hann að þessu sinni. En hlýindin standa í nokkra daga.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 151
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 2413
  • Frá upphafi: 2410402

Annað

  • Innlit í dag: 122
  • Innlit sl. viku: 2153
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband