Fjórða hlýjasta sumarið á landinu?

Sumarið er reyndar ekki búið, ágúst er nýliðinn og Veðurstofan telur septembermánuð ætíð til sumarsins. Það er þó tæplega hinn almenni skilningur. Þegar ritstjórinn var í æsku byrjuðu skólar á landsbyggðinni aldrei fyrr en 1. október. Þá stóð sumarið alltaf fram til þess tíma, nú byrja skólar um 20. ágúst - ætli sumrinu þá lokið? Kannski kemur að því að skólahald verður allt árið - hvað verður um sumarið þá?

Ritstjóranum er svo sem nákvæmlega sama um hvort september er með í sumrinu eða ekki. Í þau tæplega 60 sumur sem enn hanga í minningu hans hélt sumarið oft áfram linnulaust allan september - en stundum hefur haustið skollið á miklu fyrr - á kuldaskeiðinu 1961 til 1995 var það oftar svo að skítkast haustsins byrjaði fyrr.

En ákafi nútímamannsins er nú orðin slíkur að alltaf verður að fá að kíkja í pakkann strax. Hvernig stendur sumarið 2014 sig í samanburði við fyrri sumur? Hungurdiskar munu á næstunni reikna út sumarvísitöluna eins og í fyrra - en þó ekki fyrr en eftir nokkra daga.

Hér lítum við eingöngu á hitann á landinu í heild. Veðurstofan hefur nú birt yfirlit um stöðu sumarsins á nokkrum veðurstöðvum. Þann pistil má finna grafinn aftan við tíðarfarsyfirlit ágústmánaðar á vef Veðurstofunnar. Lesendum er bent á hann. En þar kemur í ljós að tímabilið júní til ágúst 2014 var óvenjuhlýtt í langtímasamhengi.

Við norður- og austurströndina var þetta hlýjasta eða næsthlýjasta „sumar“ frá upphafi mælinga. Það staðfesta bæði Grímsey (hlýjast) og Teigarhorn (næsthlýjast) en á báðum stöðvum hefur hiti verið mældur í rúmlega 140 ár. Inn til landsins, t.d. á Akureyri var árangurinn litlu síðri og syðra, í Reykjavík, var hitinn á tímabilinu sá níundi hæsti frá upphafi samfelldra mælinga 1871.

En hvað þá með landið í heild? Ritstjórinn hefur soðið saman línurit sem sýnir landsmeðalhita sumarsins - í stuttu merkingunni - allt frá upphafi mælinga. Reyndar er lítið að marka það fyrr en kemur fram yfir 1870 - en tíminn þar á undan fær að fylgja með til gamans.

w-blogg020914

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn sýnir landsmeðalhita í júní til ágúst en sá lárétti tímann. Það er einn höfuðgalli við reikninga á landsmeðalhita að alltaf er verið að breyta honum - öll tímaröðin - allt til upphafs - vill hnikast til þegar einhverjar breytingar verða á stöðvakerfinu. Þetta á reyndar líka við um þær tilraunir til reikninga á heimsmeðalhita sem alltaf er verið að færa okkur á fati - þær raðir geta aldrei orðið óbreytanlegar og það þýðir lítið að gera kröfu um slíkt. Lands- nú eða heimshiti - ársins 1915 (t.d.) verður aldrei föst stærð. 

Hvað um það. Á myndinni eru aðeins þrjú sumur hlýrri en sumarið 2014. Það eru 1933, 2003 og 1880. Hitinn 1880 og nú - er reyndar nærri því sá sami - en þar sem um keppni er að ræða notum við ofurnákvæmni tveggja aukastafa - þótt ekkert vit sé í því. 

Á myndinni má einnig sjá 10- og 30-ára keðjumeðaltöl - þau enda 2014. Síðasta tala tíu-ára meðaltalsins nær því yfir 2005 til 2014, en síðasta tala 30-ára meðaltalsins sýnir meðalhita sumranna 1985 til 2014. Hæst varð 10-ára meðaltalið á árunum 2003 til 2012, en 30-ára meðaltalið hefur aldrei verið hærra heldur en einmitt nú. 

Ath: Tvær meinlegar innsláttarvillur hafa verið leiðréttar frá upphaflegri birtingu. Leki [afrita-líma] varð á milli tveggja pistla um hitafar - eftir smáhremmingar ritstjórans í ritli bloggsins. Lesendur eru beðnir velvirðingar á mistökunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta hlýja og góða sumar hefur samt þurft að þola meiri mannorðsmeiðingar en nokkurt sumar sem hangir í minu minni. "Skítasumar", "ekkert sumar", "það haustaði óvenju snemma í vor", "það er búið að vera haust síðan í júní". Þetta er meðal ógrynni dæma um aðför að mannorði og heiðri þessa sumars sem ég hef fundið á netinu. En fyrir mína parta er sumar líka í september. Og það ætti að hamra á því kvölds og morgna. Ekki síst fyrtr þá sem fóru að finna "lyktina af haustinu" strax í lok júlí!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2014 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 117
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 2038
  • Frá upphafi: 2412702

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 1785
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband