Úrkomulítill sunnudagur?

Nei, hér er ekki verið að spá þurrki - á hungurdiskum eru ekki gerðar spár - en hins vegar fjallað um þær. En reiknimiðstöðvar eru með einhverjar hugmyndir um úrkomulítinn sunnudag á rigningasvæðunum - en þá rigni aftur á mót eystra. Úrkomusvæðið sem veldur þeirri úrkomu er ekki stórt um sig en tengist litlu lægðarkerfi sem rífur sig út úr þrumugarði sem nú er yfir Bretlandseyjum. 

Fyrsta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu síðdegis á sunnudag, 20. júlí.

w-blogg190714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Úrkomukvarðinn batnar sé myndin stækkuð - hann sýnir 3 klst uppsafnaða úrkomu, þ.e. úrkomu sem reiknast að falli milli kl. 15 og 18. Nú ber svo við að allt vestanvert landið er sýnt (nánast - ekki alveg) úrkomulaust. En sama spáruna gerir samt ráð fyrir sólarlausu - eða sólarlitlu veðri. Loftið yfir landinu er nefnilega sérlega rakaþrungið.  En íbúar á rigningasvæðunum þakka hverja þurra stund - og meira að segja er líklegt þessi verði nokkuð hlý. Fylgist með spám Veðurstofunnar.

Úrkomusvæðið fyrir austan er býsna öflugt. Það er eins og áður sagði hluti af þrumugarði sem nú (seint á föstudagskvöld) er yfir Bretlandseyjum. Þar sem kerfið er lítið og hér er um tveggja daga spá að ræða er talsverðrar óvissu að vænta um þróun þess. 

Þarna ryðst mjög hlýtt og rakt loft fram með látum í 1 til 10 kílómetra hæð - lætur kaldan sjóinn ekkert trufla sig (sé rétt reiknað). Við sjáum vel á þykktarkortinu sem gildir á sama tíma hversu hlýtt loftið er.

w-blogg190714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjá má að hitinn í 850 hPa er allt að 15 stig. Það er meira en mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli (en trúlega hefur jafnhlýtt loft sloppið á milli mælinga á leið sinni yfir landið eða í námunda við það). Þykktin er líka mjög mikil, virðist vera í kringum 5630 metrar þar sem mest er (hefur mælst mest 5660 yfir Keflavík). Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs.

Allt hlýjasta loftið er á leið til norðurs alllangt fyrir austan land - en það fer eftir því hversu nálægt það fer hvort við heyrum eitthvað af þrumum austanlands þegar það æðir hjá. En þótt við njótum ekki þess hlýjasta eru þykktartölurnar yfir landinu samt býsna háar - vel yfir 5500 metrum. Njóti sólar fer hiti yfir 20 stig að deginum við þessi skilyrði þar sem vindur stendur af landi. En sólskin telst happdrættisvinningur eins og staðan er í dag. 

Nú kemur að erfiða kaflanum - sleppið honum bara - það er skaðlaust. 

Ekki er nóg með að loftið sé hlýtt - heldur er það líka þrungið raka og geymir þar með mikinn dulvarma. Síðasta kortið sýnir þetta.

w-blogg190714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum hér sjávarmálsþrýstinginn (heildregnar gráar línur) og jafngildismættishita (úff) í 850 hPa - í Kelvinstigum sem litafleti (kvarðinn batnar við stækkun). Jafngildismættishitinn sýnir hver hiti lofts yrði sé allur dulvarmi er losaður og að auki sé loftið dregið niður undir sjávarmál (1000 hPa þrýstings). Talan sem stendur inni í dökka svæðinu fyrir austan land (þar sem við sáum 15 stigin á fyrra korti) er 331,8 K = 58,6°C. 

En þetta er bara tala - mælistika á varma sem gerir okkur mögulegt að bera saman varma í þurru og röku lofti - á einskonar jafnréttisgrundvelli. Það mælast samt „aðeins“ +15 stig á mæli í hlýja loftinu - dulvarminn getur ekki losnað nema þar sem uppstreymi ríkir - en hann hitar um síðir efri hluta veðrahvolfsins en ekki þann neðri.  

En það gæti verið þess virði að fylgjast með þessum hlýja hnút - ef eitthvað verður úr honum á annað borð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 111
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 1537
  • Frá upphafi: 2407542

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 1363
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband