Óvenju rakur júnímánuður

Júnímánuður var rakur á landinu - hér er ekki verið að tala um rigninguna og heldur ekki rakastig - heldur daggarmark og rakaþrýsting sem mæla hversu mikil vatnsgufa er í lofti. Meðalrakaþrýstingur og daggarmark hafa ekki mælst hærri í júní en í þeim nýliðna. 

Almennt er mikil fylgni á milli daggarmarks og hita - það þarf því ekki að koma svo á óvart að daggarmark hafi verið hátt í hlýindunum í júní. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að það skyldi vera mun hærra en áður hefur verið á þeim tíma sem auðaðgengilegar mælingar ná til.

Hér horfum við aðeins á myndir sem byggjast á mælingum í Reykjavík, en ástandið var svipað fyrir norðan. Meðaldaggarmark (og rakaþrýstingur) var þar líka hærra en verið hefur á tímabilinu. Raunar er það svo að í júní er mun meiri fylgni á milli daggarmarks í Reykjavík og á Akureyri [r=0,84] heldur en hitans á sömu stöðum [r=0,49]. Daggarmarkið merkir loftið betur heldur en hitinn og er tregara til breytinga. [r er fylgnistuðull - því nær sem hann er 1,0 því meiri er fylgnin]

Daggarmarki verður ekki breytt nema með rakaíbætingu (uppgufun frá vatnsfleti eða úrkomu - sem hækkar daggarmarkið) eða þéttingu raka (sem lækkar það). Daggarmark getur aldrei orðið hærra heldur en hitinn. Séu hiti og daggarmark jöfn er loftið mettað.

w-blogg180714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn sýnir daggarmark (°C) en sá lárétti tímann, frá 1949 til 2014. Daggarmarkið í júní 2014 er um 0,7 stigum hærra en það sem hæst hefur áður orðið. Næsthæst var það 2010 - en júní það ár var sá hlýjasti á öllu tímabilinu. Lægst var meðaldaggarmarkið í hinum kalda júní 1952 og síðan í júní 2011 sem var sérlega kaldur fyrir norðan. 

Þar sem daggarmarkið er eins og áður sagði alltaf lægra en hitinn eða jafnt honum getur það ekki orðið methátt nema í mjög hlýjum mánuðum. Öðru gegnir um rakastig - rakastig getur verið mjög hátt þótt mjög kalt sé í veðri og lágt í hlýju. Rakastigið mælir ekki magn raka í lofti - heldur eingöngu þurrk - hversu líklegt vatn í fljótandi formi er til þess að gufa upp. Það „sýnir“ mun á hita og daggarmarki [daggarmarksbælingu]. 

Sérstaða nýliðins júnímánaðar kemur vel fram á síðara línuriti dagsins.

w-blogg180714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá meðalhita (láréttur ás) og meðaldaggarmark (lóðréttur) í júní í Reykjavík (tímabilið 1949 til 2014). Þarna er júní 2014 langt ofan við alla aðra á daggarmarkskvarðanum - en meðalhitinn í júní 2010 er hæstur. Sé farið í smáatriði myndarinnar (hún skánar við stækkun) má taka eftir að ártölin sem byrja á 20 raða sér flest hver lengst til hægri í punktadreifinni. 

Júní 2011 og 1952 eru langt neðan dreifarinnar, 2011 er þó langt í frá í hópi þeirra köldustu í Reykjavík. Það var bara svona óskaplega þurrt. Júní 1952 er nær köldustu árunum - en er mun þurrari en þau öll. Uppruni loftsins í þessum tveimur þurru júnímánuðum virðist hafa verið annar en gengur og gerist.  

Meðaldaggarmark í Reykjavík, það sem af er júlí (til og með 19.), er ekki nálægt meti - það hefur ekki verið nógu hlýtt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband