Austanáttarmet í febrúar

Í janúar var metaustanátt í háloftunum yfir landinu - langtum meiri heldur en áður hefur þekkst. Febrúar endurtekur leikinn. Ritstjóranum fannst austanáttin í febrúar 1977 vera mikil - enda hefur hún setið í efsta sæti febrúarmánaða frá upphafi háloftaathugana um 1950. En febrúar í ár endaði langt fyrir ofan - ótrúlega langt, rétt eins og í janúar.

Við sjávarmál hefur austanáttin heldur aldrei verið meiri á sama tímabili - en þar er stutt í febrúaraustanáttina 1966. Bolli Pálmason kortagerðarmeistari Veðurstofunnar hefur búið til þrýstivikakort fyrir febrúar.

w-blogg020314a

Heildregnu línurnar sýna meðalloftþrýsting, en litirnir þrýstivikin. Það er, rétt eins og í janúar, mest vestur af Bretlandseyjum þar sem þrýstingurinn í febrúar var 27,5 hPa undir meðallagi. Í janúar var mesta vikið rétt tæp 20 hPa - og þótti mikið.

Síðara kortið sýnir þykktarvikin í febrúar - vik hita í neðri hluta veðrahvolfs frá meðallagi.

w-blogg020314b 

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Þar má sjá sama lægðardrag fyrir sunnan land og var í janúar. Vindur blæs nokkurn veginn samsíða jafnhæðarlínunum og af kortinu má ráða að austanátt hefur verið ríkjandi í mánuðinum - en venjulega er ríkjandi vindur af vestsuðvestri.

Jafnþykktarlínur eru strikaðar. Þær skera jafnhæðarlínurnar við Ísland. Vindurinn leitast við að hækka þykktina yfir mestöllu landinu, ber að hlýtt loft úr austsuðaustri og austri.

Myndin sýnir kuldastrokuna vestan frá Labrador mjög vel, kalt loft var allan mánuðinn á leið til austurs til Bretlandseyja. Í fjólubláa blettinum er þykktarvikið stærra en 100 metrar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur verið um 5 stigum undir meðaltali í mánuðinum. Svona hefur ástandið verið síðan 20. desember. Allur þessi vindur og kuldi hefur nú kælt yfirborð sjávar þannig að risastórt neikvætt sjávarhitavik nær um Atlantshafið þvert á þessum slóðum.

Kalda loftið í vestri og suðri hefur á liðnum tveimur mánuðum rétt náð til Íslands þrisvar-fjórum sinnum. Spár í dag (laugardaginn 1. mars) eru nú helst á því að vestankuldinn muni um miðja vikuna loks komast alla leið norður fyrir land. Þá gæti skipt um veðurlag. Hvort hér verður aðeins um fáeina undantekningadaga að ræða eða varanlegri breytingu verður bara að sýna sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hver er meðaltalsvindhraði og meðaltalsloftþrýstingur á Vestmannaeyjastöðvunum í febrúar 2014?

Pálmi Freyr Óskarsson, 2.3.2014 kl. 01:36

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Pálmi. Þetta er svona, vindur í m/s en þrýstingur í hPa 

stöð    ár      mán     mvind     mþrýst    nafn
6012    2014    2       6.9     984.2   Surtsey
6015    2014    2       5.4     984.7   Vestmannaeyjabær
6017    2014    2       11.1    983.7   Stórhöfði

Trausti Jónsson, 2.3.2014 kl. 01:48

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Takk fyrir þessar upplýsingar Trausti. Væri samt betra ef þessar upplýsingar komi bara sjálfvirkt á vef Veðurstofurnar.

Merkilegar lágar tölur frá Vestmannaeyjarstöðvunum sé ég í fljótu bragði. Enn þó ekki nein met á Stórhöfða. Enn grunar samt um met í Surtsey og Vestmannaeyjabæ, þar sem þær eru ungar í árum.

Pálmi Freyr Óskarsson, 2.3.2014 kl. 02:32

4 identicon

Þakka þér fyrir fróðlega samantekt Trausti. Það er sannarlega kuldatíð í kortunum. Er kalda alþjóðlega vorið hugsanlega að minna á sig?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.3.2014 kl. 12:13

5 identicon

nú hafa komið kaldir marsmánuðir og kaldir straumar yfir norður ameríku hvað skildi þurfa að koma til að sá kuldi komi herna yfir er framtíðar spár þanig að að það sé líklegt. skilst að framtíðarspá n.a.s.a sé þannig að sumarið verði svipað og í fyrra er það rétt þurfum við að farra í regngallan aftur í sumar her á suðurlandi veðurfarið er svipað og í fyrra nema það vantar rignínguna.kanski heldur kaldara.

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 2.3.2014 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 121
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1086
  • Frá upphafi: 2420970

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 960
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband