Austanáttarsyrpan mikla

Það er engin endanleg regla til um það hvernig reikna beri meðalvindátt daga, mánaða eða ára. Aðferðin sem ritstjórinn beitir er sennilega sú algengasta. Þá er vindur einstakra athugana þáttaður í tvo hornrétta þætti, í dag notum við austan- og norðanþætti. Hrein norðanátt á engan austanþátt, hrein austanátt engan norðanþátt auk þess sem sunnanátt telst neikvæð norðanátt og vestanátt neikvæð austanátt. Ritstjórinn verður að játa að hann gerir sitt á hvað að telja austan- eða vestanátt jákvæða - en þykist aldrei ruglast í ríminu (sem er kannski ekki alveg satt).

Eftir að þáttunin hefur átt sér stað er auðvelt að reikna meðaltöl - og jafnvel breyta yfir í hefðbundna veðurvindáttagráðustefnu.

Ritstjórinn reiknaði þannig vigurvindátt fyrir alla daga frá 1. janúar 1949 með því að nota athuganir mannaðra skeytastöðva. Eitthvað suð er óhjákvæmilegt í svona reikningum, t.d. vegna breytinga á veðurstöðvakerfinu. Að þessu loknu var austanáttarsyrpa skilgreind sem tímabil þar sem meðalaustanþáttur vindsins var samfellt jákvæður. Síðan var tekið saman yfirlit um lengd syrpanna.

Þetta með að austanþátturinn skuli vera samfelldur alla daga er nokkuð grimm krafa - eins og við sjáum hér á eftir - en hér dugar ekkert nema miskunnarleysi - rétt eins og í bikarkeppnum í boltaíþróttum - ef vestanandvari kemur einn dag - þá er búið að tapa. 

Austanáttin í vetur skiptist þannig í tvær syrpur - aðskildar af einum aumingjalegum vestanáttardegi, 23. janúar. Fyrri syrpan varð 34 daga löng, byrjaði 20. desember. Sú síðari er enn að safna stigum - orðin 36 daga löng og virðist eiga að minnsta kosti 3 daga í viðbót í hendi.

Þá er að leita að einhverju ámóta í þáttasafninu. Dagsetningin er sett á fyrsta vestanáttardaginn eftir að syrpunni lauk.

röðármándagurlengd
119661661
2195912450
3197732049
419783346
519663944
62000122840
7195883138
81981101337
9199811937
10196032036
11196151136
12196552835
131960121134
142009121534
15198521633

Við sjáum að yfirstandandi syrpa er þegar búin að ná 10. til 13. sæti og vinnur sig trúlega upp í að minnsta kosti 6. sætið. Það er ansi hátt og ef við sleppum spillideginum er austanáttin nú búin að standa nokkurn veginn samfellt í 71 dag. Það er hærri tala en er á listanum. Ef við skoðum hann nánar sjáum við þó að tvö ártöl eiga tvær syrpur. Það fyrra, 1960, er þó ekki keppinautur núlíðandi syrpu því önnur syrpan það ár endar í mars - en hin í desember. Þær eru því ótengdar.

Tvær syrpur eru merktar árinu 1966. Sú fyrri var 61 dagur að lengd - en endaði 6. janúar. Við fornnördin munum þetta tíðarfar vel. Síðari syrpan stóð í 44 daga - endaði 9. mars. Náði sum sé öllum febrúar eins og nú. Syrpuslitið í janúar var meira afgerandi 1966 heldur en nú. Enn minni úrkoma var í Reykjavík í febrúar 1966 heldur en nú.

Þurru kaflarnir 1959 og 1977 voru einnig mjög minnisstæðir. Það má benda á eina sumarsyrpu í listanum  - endaði 31. ágúst 1958. Einhverjir muna sjálfsagt eftir því sumri.

En forvitni ritstjórans nær lengra aftur og því leitaði hann líka að austanáttarsyrpum þrýstivinds í amerísku endurgreiningunni sem hungurdiskar vitna oft í. Svæðið sem notað er nær einnig til umhverfis landsins - því má ekki búast við sömu niðurstöðu. Auk þess er að meðaltali horn á milli þrýstivinds og vinda á veðurstöðvum - við sleppum því hér en tökum e.t.v. tillit til þess ef við lítum aftur í þessa átt.

Yfirstandandi austanáttarsyrpur skila sér í talningu (reyndar með hjálp evrópureiknimiðstöðvarinnar) en þar er spillidagurinn 24. janúar en ekki sá 23. og fyrri syrpan byrjar 19. desember en ekki þann 20.

Hvað um það, hér er syrpulisti sem nær allt aftur til 1874.

röðármándagurlengd(dagar)
1194733161
21968112959
3193161958
4200212458
519663853
6198611552
720011952
8189053050
9195912450
10200141350
11191231249
12187632548
13190311347
14197722446
1519783346

Hér eru mörg sömu tímabilin og í fyrri töflunni - en 1966 syrpa komin í 5. sæti. Á toppnum er syrpa sem lauk með 30. mars 1947 (daginn eftir að Heklugosið hófst). Febrúar og mars 1947 voru vægast sagt óvenjulegir - hungursneyð var þá sums staðar í Evrópu í einum versta vetri 20. aldar þar um slóðir.

Svo dúkkar upp nóvember 1968 - við athugun kemur í ljós að þar fer dæmi um langa syrpu á veðurstöðvunum með tveimur aðskildum spillidögum sem klippa hana í þrjá hluta. - Hún nær því ekki inn á fyrri listann. Syrpan sem endar í júní 1931 er eðlilega ekki á þeim fyrri - en maí var einhver þurrasti mánuður sem vitað er um víða um land. Þá mældist úrkoma í Reykjavík 0,3 mm og engin á Akureyri.

Það er eins með syrpuna í fjórða sæti og þeirri 1968 að hún er á stöðvunum klippt í þrjá hluta. Látum þetta duga um austanáttarsyrpur í bili. Yfirstandandi syrpa stenst greinilega samanburð við þær frægustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband