Af (vondu) jólaveðri

Spá Veðurstofunnar um veðrið á aðfangadag er ekki sérlega aðlaðandi: "Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma eða él, en þurrt að mestu á S- og SV-landi. Frost 0 til 5 stig". [Af vef Veðurstofunnar - spáin uppfærist vonandi að baki tenglinum]. Við skulum af þessu tilefni smjatta aðeins á veðurkortum sem gilda kl. 6 á aðfangadagsmorgni.

Fyrsta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa - í útgáfu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg211213a 

Mest áberandi á þessu korti er lægðin hrikadjúpa norðvestur af Skotlandi. Það er nú nærri því á mörkunum að maður trúi miðjuþrýstingnum, 928 hPa. Oftast líða mörg ár á milli þess að lægðir dýpri en 930 hPa birtist á Norður-Atlantshafi, en það eru samt ekki nema um 11 mánuðir síðan það gerðist síðast. Um það var fjallað á hungurdiskum 26. janúar 2013.

Það er auðvitað stjörnuvitlaust veður sunnan við lægðarmiðjuna og eins er býsna öflugur vindstrengur milli lægðarinnar og Íslands. Hann þokast vestur eða norðvestur þegar kortið gildir. Yfir miðju Íslandi er hins vegar ívið lengra á milli jafnþrýstilína - en þær þéttast aftur þegar haldið er til norðvesturs og eru mjög þéttar við Vestfirði. En hér má vel ímynda sér að lægðin djúpa sé ekki alveg ein um að búa til vindstrenginn sem liggur frá Svalbarða suðvestur til Suður-Grænlands. Hann þokast til suðurs til móts við lægðarvindstrenginn.

Það sem hér fer á eftir er ætlað kortanördunum. Aðrir fá varla mikið út úr því - takk fyrir komuna.

Þegar staðan er skoðuð með stækkunargleri kemur í ljós að laumulegt háloftalægðardrag er við Norðaustur-Grænland. Til að sjá það betur lítum við fyrst á kort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á sunnudagsmorgni 22. desember.

w-blogg211213b 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna vindátt og vindhraða en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hér er mikil háloftalægð yfir Íslandi og þykktin meira að segja yfir meðallagi árstímans. Við sjáum í kuldapollinn mikla við Labrador (fjólublái liturinn) og fyrir sunnan hann rennur enn svellkalt heimskautaloftið til austurs um Atlantshaf og gefur fóður í lægðina miklu sem hér er að myndast rétt utan við kortið. Við beinum sjónum okkar hins vegar til norðausturs.

Þar er dálítil hæð á sveimi - leifar af hlýrri framrás úr suðri. Austan við hæðina er kalt lægðardrag. Þetta kalda loft mun nú leita til suðvesturs í átt til Grænlandsstrandar - nokkurn veginn eins og bláa örin sýnir. Á sams konar háloftakorti sem gildir kl. 6 á aðfangadagsmorgni (eins og fyrsta kortið) sést vel hvernig dálítill kuldapollur og smá háloftalægð eru sest við strönd Norðaustur-Grænlands norður af Íslandi. Hæðin litla er enn á svipuðum stað.

w-blogg211213c 

Hér er lægðin stóra norðvestur af Skotlandi. Þótt kalda loftið við Grænland sé ekki sérlega kalt má sjá að jafnþykktarlínurnar (litirnir) eru mjög þéttar. Það eru fimm bláir litir frá mörkum þess græna inn að miðju kuldapollsins litla. Hver litur sýnir 60 metra bil, fimm gefa þá 300 metra. Það eru 38 hPa (300 deilt með 8). Við samanburð á fyrsta kortinu og þessu má sjá að þykktarsviðið er brattast einmitt þar sem vindstrengurinn frá Svalbarða til Íslands er öflugastur. Það er kuldapollurinn sem býr hann til.

En verður lægðin svona öflug? Verður kuldapollurinn svona ágengur? Það kemur víst í ljós um jólin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 886
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband