Óvenjuhlý norðanátt

Nú nálgast óvenjudjúp lægð landið úr suðaustri og á undan henni fer hvöss norðlæg átt. Lægðin sem fór rétt vestan við land síðastliðna nótt skilaði lægst 945,1 hPa á veðurstöð. Það var á Tálknafirði kl. 4. Það verður gaman að sjá hversu neðarlega nýju lægðinni tekst að koma loftvoginni.

Lægðin nýja hefur valdið talsverðu tjóni á Bretlandseyjum í dag, rafmagnsleysi, trjáfalli og umferðartruflunum. Gera verður ráð fyrir vondu veðri víða á landinu á morgun (fimmtudag) af hennar völdum. Hátt gæti orðið í sjó norðan- og norðaustanlands. Sömuleiðis verður talsverð eða mikil úrkoma. En þetta norðanskot er óvenju hlýtt.

Við lítum fyrst á hita í 500 hPa-fletinum og hæð hans á morgun kl. 15 (fimmtudaginn 19. desember).

w-blogg191213a

Hér er lægðin fyrir austan land, hæð flatarins í henni miðri er rétt ofan við 4600 metra - og sjávarmálsþrýstingur í kringum 945 hPa. Lægðinni fylgir mjög hlýtt loft sem komið er sunnan úr höfum og hér er það komið norður fyrir lægðina. Það er ekki alveg venjulegt að það skuli vera nærri því 20 stigum kaldara fyrir sunnan land heldur en norðan við það.

Atlantshafið er mikill varmageymir og kalda loftið sem kemur frá Kanada hlýnar um síðir við margra daga dvöl yfir hlýjum sjó. En hlýjasta loftið flýtur auðvitað ofan á kaldara lofti í neðsta hluta veðrahvolfs við Ísland. Þó er þessu hlýja lofti að takast að hreinsa það kalda burt af hafsvæðinu norðan við land. Það má sjá af næsta korti. Þaö sýnir hæð 925 hPa-flatarins og hitann í honum á sama tíma og á kortinu að ofan - kl. 15 á fimmtudag.

w-blogg191213b 

Hér er 925 hPa flöturinn lægstur um 140 metra ofan sjávarmáls. Þar er loftið hlýjast, 5 stig. Við sjáum að kalda loftið að norðan verður að láta sér örmjóan streng til suðurs frá Norðaustur-Grænlandi. Grænland hindrar mesta kuldann á kortinu (fjólublái liturinn) í að komast til austurs.

Þetta þýðir að norðaustan- og norðanáttin við Norðurland verður með allra hlýjasta móti og einfaldalega spurning hvort úrkoma muni falla sem regn á láglendi. Við tökum ekki afstöðu hér - látum vakt Veðurstofunnar um að ráða fram úr því.

Í svona hlýju lofti er mættishiti í 850 hPa auðvitað hár - það er sá hiti sem loft í 850 hPa-fletinum fengi ef það væri rifið niður til sjávarmáls án blöndunar við það loft sem fyrir er.

Kortið hér að neðan sýnir mættishitann í litum en jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar.

w-blogg191213c 

Mættishiti er yfir 10 stigum yfir Norðausturlandi og á stóru svæði fyrir norðan og norðaustan land. Hæstur er hann við Jan Mayen, 15,7 stig og nær einnig nærri 15 stigum yfir Suðausturlandi. Mættishiti hærri en 10 stig er ekki óalgengur hér við land í desember en óvenjulegt er að sjá hann í norðanátt yfir Norðausturlandi.

Þegar lesið er úr þessu korti verður að hafa í huga að mættishitinn miðar við 1000 hPa - en hér er þrýstingur við sjávarmál mun lægri. Ef við tökum línuna sem liggur yfir Langanes sem dæmi, 948 hPa við sjávarmál. Þar væri 1000 hPa-flötinn að finna 400 metra undir sjávarmáli. Miðað við sjávarmál er mættishitinn því ofmetinn um um það bil 4 stig. Munurinn er minni vestanlands - um 300 metrar eða 3 stig

Því miður á þetta hlýjasta loft að fara til vesturs um Norðurland og fyrir norðan land, en á ekki að ná til vestari hluta Suðurlands - sé að marka spár. Það væri út af fyrir sig mjög athyglisvert að fá 7 stiga hita á Suðurlandi í norðanátt, sem gæti hins vegar gerst í skjóli Vatnajökuls - hinn „upprunanlegi“ hnjúkaþeyr.

En lægðir halda áfram að vera gríðardjúpar á Atlantshafi - en virðast fara hjá. Til þess að gera hlýtt loft fylgir þó föstudags/laugardagslægðinni. Svo tekst kannski um síðir að hreinsa hlýja loftið frá Norðaustur-Grænlandi. Evrópureiknimiðstöðin segir kalda loftið ná undirtökum að nýju á aðfangadag. Þótt þessi norðanátt sé hlý er samt varasamt að tala um hlýindi í venjulegri merkingu. - Aðeins óvenjuhlýja norðanátt.

[Athugasemd 21.12. Vegna mistaka í vinnslu datt ein málsgrein burt úr upphaflega textanum (átti að límast úr eldri texta ritstjórans). Prófarkalesari hungurdiska fékk að sjálfsögðu áfall - en ritstjórinn ákvað að reka hann ekki og vonar að langt verði í ámóta slys. Lesendur eru beðnir velvirðingar].


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1001
  • Sl. sólarhring: 1107
  • Sl. viku: 3391
  • Frá upphafi: 2426423

Annað

  • Innlit í dag: 893
  • Innlit sl. viku: 3049
  • Gestir í dag: 869
  • IP-tölur í dag: 803

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband