Spillibloti

Það er kallað spillibloti þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær allur að bráðna. Var það eitthvert óvinsælasta veðurlag á Íslandi á fyrri tíð - og er svo enn. Blotar geta að vísu fest mjöll þannig að síður skefur. Nú á tímum hefur það þann kost að ekki þarf að skafa sama snjóinn hvað eftir annað af vegum. En þar með eru kostirnir upptaldir - hálkan ræður ríkjum í öllu sínu veldi. Í desember þarf bloti að vara lengur þannig að gagn verði að heldur en þegar komið er fram í mars þegar sólin er farin að hjálpa verulega til. Í skammdeginu er enga hjálp að hafa.

Nú stefnir í spilliblota. Lægð kemur sunnan úr hafi og fer yfir landið eða rétt vestan við það á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags. Hlýtt loft fylgir lægðinni. Mættishiti í 850 hPa fer upp í um 16 stig yfir Norðurlandi (sé að marka spár) og þykkt í um 5360 metra. Hvort tveggja lofar hláku - en bráðnandi snjór og hraðferð hlýja loftsins koma í veg fyrir að eitthvað gagn sé að. Nægir aðeins í spilliblota og eftirfylgjandi klakamyndun. Verði okkur að góðu.

Sjálfsagt verður hríð sums staðar á undan og eftir lægðinni - en rétt er að sækja visku um það til Veðurstofunnar. Sérstaklega þurfa ferðalangar sem ætla sér yfir heiðar eða milli landshluta á slíku að halda - en líka við dreifbýlismenn höfuðborgarsvæðisins.

Við kíkjum á sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti á þriðjudagskvöld.

w-blogg171213a 

Lægðin er hér 947 hPa í miðju sem er skammt vestur af landinu. Spurning hvað þrýstingurinn fer neðarlega á veðurstöðvum. Tala á bilinu 945 til 950 sést um það bil tvisvar á áratug í desember síðast í fyrra. En á tímabilinu frá 1874 til okkar daga hefur það gerst 13 sinnum að þrýstingur á veðurstöð hefur farið niður fyrir 945 hPa hér á landi í þeim mánuði. Hefði athuganatíðni og þéttni verið jafnmikil allan tímann og nú er myndi tilvikunum sennilega fjölga eitthvað. Undir 945 hPa í desember er því það sem búast má við einu sinni á áratug eða svo.

Undir 940 er beinlínis orðið mjög sjaldgæft - hefur aðeins gerst fjórum sinnum á umræddu tímabili. Metið er hins vegar talsvert neðar, 919,7 hPa.

Næstu lægð má líka sjá á kortinu. Hún verður langt suður í hafi annað kvöld og rétt að taka á sig mynd. Við giskum á 987 hPa í miðju þegar kortið gildir. Sólarhring síðar á hún að vera komin niður í 951 hPa, hefur dýpkað um 36 hPa á einum sólarhring. Reiknimiðstöðin vill reyndar gera enn betur því 12 tímum síðar á hún að vera komin niður í 941 hPa - þá plagandi okkur úr austri - búin að taka sveig til norðurs vestur af Skotlandi og Færeyjum.

Evrópureiknimiðstöðin hefur verið sérlega hlynnt ofurdjúpum lægðum í yfirstandandi (kanadíska) kuldakasti á Atlantshafi. Tvö skemmtileg dæmi má sjá í viðhenginu - bæði úr tölvuleik reiknimiðstöðvarinnar - og bæði fallin úr gildi - munið það.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar eldri kunningjakona afa og ömmu var spurð hver þessi "Hann" væri sem alltaf var að fara að rigna, gera norðan átt o.sv.frv., þá svaraði hún því til að það væri "Úturinn".

Það má þá kanski segja að þessa dagana sé  Úturinn að skjóta úr einskonar veðurfallbyssu, litlum kröppum lægðum í áttina til okkar frá suðurodda Grænlands.  Það sé svo hársbreiddum háð hvort hér geri annálsverð arfa- bandvitlaus veður eða ekki?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.12.2013 kl. 08:37

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst svona bloti engu spilla. Betra er að hann rjúfi aðeins kuldann heldur en að hann geri það ekki. Að kuldinn sé bara einráður.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.12.2013 kl. 10:45

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti, og fyrirgefðu að þetta er dálítið óviðkomandi pistlinum...

Ég rakst á þennan sænska greinarstúf áðan þar sem fjallað er um hvernig mæligögn frá Íslandi hafa verið hnoðuð og teygð af þekktri erlendri loftslagsrannsóknarstofnun.  Ég þykist vita að þú þekkir það mál.

Stockholms Initivatiet - Klimatupplysningen

Att "svalka" Island

http://www.klimatupplysningen.se/2013/12/17/att-svalka-island/

( Hér er búið að snara þessu úr sænsku yfir á ensku).

Ole Humlum hefur fjallað um þetta mál á vefsíðu sinni, og væri fróðlegt að lesa einhvern tíman um þína skoðun á málinu.

Ágúst H Bjarnason, 17.12.2013 kl. 20:00

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Ágúst. Ég kannast við þetta mál en nenni ekki að fara í einhverja krossferð vegna þess. Ég setti þó upp sérstaka bloggsíðu á ensku þar sem óbeint er um þetta fjallað í nokkrum pistlum. Mér sýndist þegar ég leit á þetta lauslega að mismunur á hita norðanlands og sunnan á hafísárunum hafi ekki þótt trúlegur og því hafi hitinn á Suður- og Vesturlandi verið lækkaður sem því nemur. Akureyrarröðin sem þeir hafa byggt á var af einhverjum ástæðum verið talin trúverðugri heldur en hinar. Annars hef ég engar sérstakar áhyggur af þessu.

Trausti Jónsson, 18.12.2013 kl. 01:11

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég skil þig vel Trausti að nenna ekki að eyða miklu púðri í þetta mál. Enska bloggsíðan þín er þó gott innlegg, en það hlýtur að vekja spurningar hvers vegna GISS er að standa í þessu.

Takk fyrir áhugaverða pistla.

Ágúst H Bjarnason, 18.12.2013 kl. 06:44

6 identicon

Á sænsku síðunni kemur fram, og byggt á gögnum Veðurstofunnar, að sama hitastig var hér á landi árið 1950 og það var aldamótaárið 2000.

Það er nú öll hlýnunin hér á landi á þessu tímabili!

Eftir 2000 hefur hlýnað hér en það er öfugt við þróunina hnattrænt því þar hefur samasem ekkert hlýnað frá 1998.

Við virðumst þannig vera áratug á eftir "hnettinum" eða jafnvel meira ...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 18.12.2013 kl. 08:07

7 identicon

Spillingarblotinn í gögnum NASA og GISS er samur við sig ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.12.2013 kl. 23:01

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst og Hilmar: Þið eruð svolítið fyrirsjáanlegir - þ.e. þegar auðsýnt er að það er ekki að kólna eins og þið hafið haldið fram (Ágúst frá árinu 1998 og Hilmar í rúmt ár eða svo) þá er næst að gera hitagögnin ótrúverðug. Þið gleymið því að jöklar og hafís eru að bráðna, snjóhula að minnka, lífverur að færa sig nær pólunum o.sv.frv. (sjá t.d. Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg) .. auk þess sem það þarf ekki hitamælingar til að sjá fyrir hvað verður, samanber yfirlýsingar Geological Society of London (sjá á loftslag.is Aukið við yfirlýsingu).

Höskuldur Búi Jónsson, 19.12.2013 kl. 08:33

9 identicon

Það er í sönnum jólaanda sem ég leyfi Höskuldi Búa Jónssyni að vera jafn ófyrirsjáanlegur og "sönnunargögnin" hans á gæluvef Veðurstofunnar, loftslag.is.

Jólaandinn svífur reyndar líka í þeirri vinsamlegu ábendingu minni að nú eru fimm ár liðin frá því að Al Gore birti "sönnunargögn" um að allar líkur væru á því að Norðurpóllinn yrði íslaus á sumarmánuðum 2013(!):

> http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=MsioIw4bvzI

Sumir reiða ekki "sönnunargögnin" í þverpokum :D

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.12.2013 kl. 14:00

10 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar, þú ert ekki vanur að vísa í vísindamenn þannig að tilvísun í Al Gore er dæmigerð hjá þér.

Segðu mér Hilmar. Ef hafísinn hverfur ekki að sumri fyrr en segjum 2020 en ekki 2014-2016 eins og eitt líkan af fjölmörgum í greininni sem Gore vísar í - er þá ekki að hlýna? Er að kólna ef ísinn hverfur 2017 en ekki 2016?  Útskýrðu hvernig þú finnur það út ;o)

Höskuldur Búi Jónsson, 19.12.2013 kl. 14:37

11 identicon

Þú flækist ekki í rökfræðinni HB :) Sannir "vísindamenn" fabrikkera auðvitað svörin áður en þeir spyrja spurninga!

Segðu mér HB: Ef hafísmagn eykst í norðurhöfum, segjum um 60%, í ár og hafísmagn er að sama skapi í sögulegu hámarki í suðurhöfum (ath. frá því að mælingarnar þínar góðu hófust) - er þá ekki að kólna?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.12.2013 kl. 14:59

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég er ekki mikið fyrir það að draga línu milli tveggja ára og álykta um það eins og þú gerir og því myndi ég svara þessu neitandi  :)

En ef þú telur að það sé að kólna af því að hafís eykst milli ára  - þá hlýtur þú að telja í lok árs, að það sé að hlýna hnattrænt, ef þetta ár verður hlýrra en í fyrra - ekki satt

Höskuldur Búi Jónsson, 19.12.2013 kl. 15:18

13 identicon

Ég er nú bara að vísa í staðreyndir en ekki upplogin IPCC-líkön sem hafa reynst haldlaus í 99% tilfella :)

Reyndar tel ég það vera ábyrga vísindalega afstöðu að byggja á raunverulegum mæligögnum (ekki fixuðum NASA - GISS tilbúningi) í stað þess að eltast við illa þokkuð Hansen-líkön.

Talandi um raunveruleg mæligögn - staðan á dagsmeðalhitanum í höfuðborginni í desember er núna -1,4°C, en meðalhiti 1961-90 er -0,2°C(!) Þarna virðist a.m.k. smá kólnun í gangi :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.12.2013 kl. 16:35

14 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Fyrst þú telur að lækkun í hitastigi hálfs mánaðar í RVK miðað við meðaltal sé kólnun - þá hlýtur þú að telja hnattrænan hita vera að aukast ef hnattrænn hiti verður hærri í ár en síðasta ár, ég býst því við yfirlýsingu frá þér þar um fljótlega  eftir áramót

Höskuldur Búi Jónsson, 19.12.2013 kl. 16:48

15 identicon

HB - í fullri alvöru - eru lækkun hitastigs ekki ígildi kólnunar? Hver kenndi þér eðlisfræði í HÍ? :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.12.2013 kl. 17:20

16 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hélt við værum að tala um loftslagsbreytingar en ekki tímabundnar sveiflur...

En ég hlakka til að fá yfirlýsingu þína um hnattræna hlýnun í byrjun næsta árs ;) 

Höskuldur Búi Jónsson, 19.12.2013 kl. 23:47

17 identicon

Eigum við bara ekki að taka smá forskot á sæluna núna HB? Það vill svo til að breska veðurstofan (MetOffice) er nýbúin að birta afar athyglisverða samantekt um þetta efni:

> http://www.metoffice.gov.uk/news/releases/archive/2013/global-temperature-2014

Þessi gagnmerka samantekt tekur af öll tvímæli um að árin 2012 og 2013 lenda í 9. og 10. sæti á lista yfir heitustu ár frá upphafi mælinga:

Rank

Year

WMO Global Temperature Anomaly

1 2010 0.56

2 2005 0.55

3 1998 0.52

4 2003 0.51

5 2002 0.50

6 2007 0.50

7 2006 0.49

8 2009 0.49

9 2013 (Jan-Oct) 0.49

10 2012 0.47

Samkvæmt þessum niðurstöðum konunglegu bresku veðurstofunnar er a.m.k. ekki að hlýna í heiminum í augnablikinu - þó svo að íslenska veðurstofan sjái óðahlýnun í hverju horni ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.12.2013 kl. 15:01

18 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Bíddu við - 2013 ætlar að verða hlýrra en 2012 - auk þess sem 2012 og 2013 eru heitari en 2011...  Hvað þýðir það Hilmar?

En ég mæli með að þú lesir tengilinn sem þú varst að vísa í - þar kemur fram að líklegt gildi fyrir hita á næsta ári (2014) er 0,57 frá meðaltali - sem þýðir að miklar líkur eru á að næsta ár verði það heitasta frá upphafi mælinga. Mun það nægja til að þú hættir að bulla um kólnun jarðar?

Höskuldur Búi Jónsson, 20.12.2013 kl. 15:24

19 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

P.S. Ég er bara að fíflast í Hilmari, ég er það vísindalega sinnaður að ég tel ekki að eitt eða tvö ár séu afgerandi til eða frá.

Höskuldur Búi Jónsson, 20.12.2013 kl. 15:49

20 identicon

Þetta þýði einfaldlega áframhaldandi hlýnunarstopp - enn eitt árið HB :)

Gaman að sjá að þú hefur gefið þér tíma til að lesa grein MetOffice. Hvað spá stofnunarinnar um horfur 2014 áhrærir vil ég vinsamlegast benda á að þeir góðu menn hafa áður þurft að eta ofan í sig óðahlýnunarspádómana - "don't count the chicken before they hatch" er jafn góður vísdómur fyrir bókstafstrúarmenn í GB og á Íslandi.

Við skulum bara leyfa árinu 2014 að líða áður en að við tökum "vísindamanninn" á niðurstöðurnar :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.12.2013 kl. 15:54

21 identicon

ps. Gaman að vísindafíflum :D

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 20.12.2013 kl. 15:55

22 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vandamálið við vísindaafneitara eins og Hilmar er að það er ekki hægt að ræða við þá um mælingar og vísindalegar aðferðir - þar sem þeir munu alltaf snúa málunum þannig í huga sér þannig að það passi við heimsmynd þeirra. Góða hlið vísindaafneitara eins og Hilmars er að þeirra nálgun er svo langt frá öllum raunveruleika að það er auðvelt fyrir flesta að sjá í gegnum bullið. Þannig að ég segi bara áfram Hilmar - bullaðu eins og þú vilt - það getur ekki sakað...

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.12.2013 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 190
  • Sl. viku: 2451
  • Frá upphafi: 2434561

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2178
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband