Tæplega óvenjulegt

Fyrri hluti október er búinn að vera þurr víðast hvar á landinu og sérstaklega þó á Vesturlandi. Úrkoman í Stykkishólmi er innan við 10% af því sem er að meðaltali fyrri hluta mánaðarins og innan við þriðjungur í Reykjavík. Það fer að verða athyglisvert að fylgjast með framhaldinu - hvert úthaldið verður. Úrkoman er þó ólík hitanum að því leyti að einn úrkomudagur getur rétt mánaðarsummuna af - en meðalhiti mánaðar getur aldrei ráðist af einum degi.

Hitinn er það sem af er lítillega ofan við meðaltalið 1961 til 1990 en ívið undir meðallagi síðustu 10 ára. Á Vestfjörðum hefur hins vegar verið hlýrra en að meðaltali síðustu árin.

Loftþrýstingur hefur verið hár, í Reykjavík nærri 10 hPa yfir meðallagi síðustu 10 ára. Talsvert vantar hins vegar upp á metin þar. Loftþrýstingur í næstu viku verður að sögn reiknimiðstöðva heldur lægri en í þeirri sem er að líða þannig að litlar líkur eru á háþrýstimetum.

Fyrir sunnan land er ákveðin austanátt í norðurjaðri mikils lægðasvæðis. Það virðist ekki breytast mikið næstu daga. Fyrir norðvestan land skiptast á hæg norðaustanátt og hálfgerð áttleysa. Á morgun (fimmtudag) hefur norðaustanáttin þó vinninginn. Kortið að neðan gildir kl. 18 og sýnir þrýsting, úrkomu, vind og líka hita í 850 hPa (strikalínur).

w-blogg171013a

Þessi staða er mjög algeng, loft kemur úr austri meðfram Norðurlandi og líka meðfram suðurströndinni - en skjól er vestan við land. Þar geta þá myndast lítil úrkomusvæði - í flóknu samstreymi. Vindar hærra uppi ráða miklu um þróun þessara úrkomusvæða og geta þau orðið mjög öflug ýti háloftavindarnir undir þróun þeirra.

Á kortinu sýnir evrópureiknimiðstöðin lítið úrkomusvæði við Snæfellsnes - spurning hvort það sýnir sig í raunheimum.

Harmonie-líkanið sýnir úrkomuna líka - og gildir kortið hér að neðan líka kl.18.

w-blogg171013b

Hér er sunnanátt úti af Faxaflóa en áttleysa á Breiðafirði og norður með Vestfjörðum vestanverðum. Enn minna úrkomusvæði er úti af Mýrdal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 1617
  • Frá upphafi: 2457366

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband