Stefnumót á föstudag

Flest illviðri verða til við stefnumót lofts eða veðurkerfa af mismunandi uppruna. Svo er einnig með illviðrið sem virðist vera í pípunum þegar þetta er skrifað (þriðjudagskvöldið 27. ágúst). Ólíkt því sem gerist í nútímamannheimum geta veðurkerfin ekki notað símann til að ná sambandi ef stefnumótið misferst. Ef þannig fer er það bara búið - eitthvað allt annað verður úr en það sem einhvern tíma stóð til.

Sjálfsagt má lengi telja þá aðila (þau kerfi) sem taka þátt í myndun illviðrisins og greinendur (veðurfræðingar) ekkert endilega sammála um mikilvægi þeirra. En hér verður minnst á sex - það er býsnastór hópur. Reiknimiðstöðvar þurfa að henda reiður á öllu og spá fyrir um ferðir þátttakenda. Til upptalningarinnar er valið spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á fimmtudag. Tíminn er valinn vegna þess að þá eru kerfin öll komin vel inn á Atlantshafskortið og ekki mjög langt á milli þeirra.

Stefnumótið sjálft á að sögn að verða um hádegi á föstudag. Þá mætast fjögur kerfi af sex, það fimmta bætist við á aðfaranótt laugardags en það sjötta virðist nú ætla að missa af mótinu - við skulum bara segja eins og er - til allrar hamingju. En lítum á myndina:

w-blogg280813a

Eins og nefnt var að ofan gildir kortið á hádegi fimmtudaginn 29. ágúst - sólarhring fyrir stefnumótið. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar. Sjá má að þær afmarka þrjár lægðir sem merktar eru með tölustöfunum 1, 2 og 3. Þeir sem sjá vel geta með því að stækka kortið séð daufgerðar strikaðar og fjólubláar jafnþykktarlínur. Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu í 700 hPa-fletinum en hann er í tæplega 3 km hæð frá jörð. Litafletir sýna þykktarbreytingu síðustu 6 klukkustundir. Svæði þar sem þykktin hefur hríðfallið eru blá, en gulir litir afmarka þykktarris.

Öll kerfin stefna í átt til landsins. Lægð eitt er komin langt suðvestan úr hafi og inniheldur mikið af röku lofti, þrungnu dulvarma sem bíður eftir því að losna og belgja út efri hluta veðrahvolfsins. Það greiðir enn frekar fyrir uppstreymi, meiri dulvarmalosun og þrýstifalli við sjávarmál.

Lægð tvö hefur orðið til við jaðar mikillar kuldaframrásar - þetta eru aðalkuldaskil stefnumótsins. Þar sem þau ryðjast fram lyftist loft við skilin - en lág veðrahvörf fylgja í kjölfarið. Þegar þessum lágu veðrahvörfum „slær saman“ við rakalosun lægðar eitt - verður til aukaþrýstifall og stefnumótalægðin dýpkar mjög mikið á stuttum tíma.

Langalgengast er að lægðir eins og þessar tvær farist á mis á hraðferð sinni til norðausturs. Í þessu tilviki á lægð þrjú að koma í veg fyrir það. Hún er hringrásarmest þessara lægða, margar heilar jafnþrýstilínur eru í kringum lægðarmiðjuna. Hringrásin nær að grípa minni lægðirnar og síðan halar hún þær inn í sameiginlegt hringrásarból, jafnframt því að hreyfast til suðausturs. Gerist þetta á samtímis stefnumóti hinna lægðanna bætir enn í kraft stefnumótalægðarinnar.

Hér má taka fram að stundum ná stærri lægðirnar í stöðu sem þessari ekki að sameinast þeim fyrri. Þá gerist það gjarnan að úr verður stór og flatbotna lægð með illviðri úti við jaðrana en besta veðri næst flókinni lægðasamsuðunni. Gerist þetta nú verður ekkert að marki úr illviðri stefnumótsins og öll þessi lýsing hér þar með komin í einhvern þokukenndan kannskiheim.

En þetta voru fyrstu þrjú kerfin eða þættirnir af sex. Númer fjögur er kalda loftið við Grænlandsstrendur - það bíður sífellt tækifæra til að herja á okkur. Það lætur sig varla vanta að þessu sinni - en sést varla á þessu korti. Við gætum litið nánar á það síðar.

Númer fimm er hlýr háloftahryggur sem fylgir í kjölfar lægðar tvö. Hryggurinn þrengir að lægðakerfinu og ýtir því til austurs. Ef hann mætir ekki verður veðrið norðaustlægara og trúlega vægara en ella. „Kerfi“ númer sex missir af stefnumótinu. Það er veðrahvarfahes eða fingur sem fer beint austur til Bretlandseyja - eða svo er nú að sjá.

Í gær (þriðjudagskvöld) virtist hins vegar sem fingurinn næði að læsast í bakhlutann á lægð tvö og dýpka hana umtalsvert. Ólíklegt er að spár fari að hringla með þetta enn á ný - en það er svosem aldrei að vita. Örlagastund stefnumóts fingurs og lægðar tvö er klukkan 6 á föstudagsmorgni. Nái hann taki dýpkar lægðin sennilega um 6 til 8 hPa - og munar um minna.

Lesendur eru eins og venjulega beðnir um að varast að láta þvöglusímalanda ritstjórans yfirgnæfa rödd alvöruspárinnar - þeirrar sem Veðurstofan gefur út. Hún byggir á nýjustu og bestu upplýsingum á hverjum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og blessaður.

Fróðlegt hjá þér að vanda og ávalt fylgist ég méð því sem frá þér kemur. Finnst því dapurlegt að sá suma hreyta í þig og Veðurstofuna ónotum. Sem betur fer höfum við flestir bændur brugðist við og náð að koma sauðfé nær byggð eða til byggða. Þökk sé veðufræðingum fyrir þeirra ábendingar. Nú er bara og bíða og vona að veðrið verði heldur skárra en verstu spár segja.

Með bestu kveðju. 

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 28.8.2013 kl. 21:24

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka vinsamleg orð Gunnar - þau koma sér vel.

Trausti Jónsson, 29.8.2013 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband