Hæsti hiti ársins?

Eins og  nimbus fjallar um í bloggi sínu í dag  (10. júlí) komst hiti enn hærra á landinu heldur en í gær. Met dagsins var 26,1 stig og mældist á Egilsstaðaflugvelli. Fjölmargar aðrar stöðvar náðu hæstu gildum ársins í dag allt frá Vestfjörðum norðanverðum og austur á firði. Suðvestanlands var allt í hófi.

Í viðhenginu má finna lista um hitabetrunga dagsins og þar fyrir neðan endurnýjaðan árslista. En nú er spurningin hvort stigin 26,1 á Egilsstöðum verða hæsti hiti ársins 2013? Síðustu 139 árin hefur hæsti hiti ársins verið hærri en þetta í 37% tilvika - síðast í fyrra þegar 28,0 stig mældust á Eskifirði 9. ágúst. Árið í ár hefur þannig nú þegar náð býsna langt.

Þegar athugað er hvenær ársins hæsti hiti þess er skráður kemur í ljós að í 49% tilvika er það fyrir 11. júlí og í 78% tilvika er það fyrir 26. júlí. Meðalhiti er hæstur á landinu í síðustu viku júlímánaðar, en hæstu hámörk ársins lenda samt fyrr á sumrinu frekar en síðar. Sumarmiðja árshámarka er í kringum 11. júlí - en meðalhitans hálfum mánuði síðar.

Nú er spáð kólnandi veðri - vonandi verður reyndin ekki eins slæm og spárnar. Þær hafa reyndar heldur linast á kuldanum frá því sem þær gáfu til kynna í gær.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn er Stórhöfði á botninum, aðeins Þverfjall aðeins lægri í hámarkshita ársins. Skjótt skipast stundum veður í lofti þannig að kannsti á veðrið eftir að skána eitthvað, en fram að þessu hefur veðrið verið ömulegt. Úrkoma talsvert yfir meðallagi ( í maí 120,0 mm, í júní 107,8 og það sem af er júlí 103,1 mm.) hiti oft 8 - 9 stig og bleyta. Eitt gott er þó að segja um þetta sumar að til þessa hefur ekki komið saltstormur sem gróður hér fer ósjaldan afar illa í. Versta sumarveður hér er austan stormur og sólskin Hæsti árshiti 1983 var 12,3 stig og 12,6 stig 1955. Lægra verður varla komist.        Kv.     Oskar J. Sigurðsson

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 11:00

2 identicon

ömurlegt er afstætt. Mér og fleirum finnst rigningin mjög góð.

Óðinn (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 18:03

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ömurlegt er ekki svo afstætt hjá föður mínum Óðinn. Það er sennilega hægt að sjá það ef það væri t.d. lagt saman úrkomuna á Stórhöfða. Þ.a.s. maí og júní, eða maí, júní og júlí, og bera saman við önnur ár á Stórhöfða. Hef á tilfinningunni að þeir reikningar komi úrkomunni á Stórhöfða hátt á topplistann þar í bæ. Svo gruna ég líka að hitinn færi í sömu farveg í svoleiðis útreikningum sem lægsti samanlegi hiti þessa 2 eða 3 mánuða.

Pálmi Freyr Óskarsson, 11.7.2013 kl. 22:03

4 identicon

Veðrið hér í sumar myndi teljast ágætis haustveður, en hitinn nú í sumar hefur varla farið sjaldan farið yfir 11 stig og oftast verið kringum 9 stig.

Þetta getur því varla talist gott sumarveður, þ.e. svalt, sólarlítið og vætusamt, nema að menn séu að miða við sumarið á Svalbarða.

Sennilega á ársisn 2013 að verða minnst sem; "The Year Without a Summer" eins og varð hér á norðurslóðum árið 1816- (sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/The_year_without_a_summer).

Margt styður þetta, m.a. langvarandi svalar s/v-áttir sem kælt hafa landið s/v-lands, auk þess að ágúst er úrkomumesti sumarmánuðurinn og ólíklegt að sá mánuður bregði út af vananum, en þar að auki er sól lágt á himni, eða álíka lágt í apríl.
Það veðurmunstur sem hófst hér sumardaginn fyrsta hefur fest sig í sessi og fer að verða eitt lengsta tímabil með sama veðurkerfi sem ríkt hefur hér. 

Meira að segja júli, sem venjulega er bestur og telst vera "sumarmánuðurinn" ætlar að verða svalari, sólarminni og vætusamari en nýliðinn júní, og þá er fokið í flest skjól.

Það er því útséð um betra sumarveður nú í ár, þó svo að það gætu komið 1-2 sæmilegir dagar það sem eftir lifir sumri.

Betri færi því að núverand veðurmunstur ríkti því allan næsta vetur og langt fram á vor, því losnum við við norðanáttina með tilheyrandi kuldum, en þá fáum þess í stað áframhaldani s/v-lægar áttir með rigningu í staðinn fyrir snjó.

Björn J. (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 00:14

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Óskar, við vonumst enn eftir hærri hita á Stórhöfða. Pálmi, úrkomusumma mánaðanna sem þú nefnir er ekki met - eða ekki ennþá. Þessi júlíþriðjungur sem búinn er er að vísu ofarlega á listum, ég get gáð að því. Tvo daga í júlí nú vantar þó í skeyti og get ég því ekki fylgst með reglulega með summunni eins og ég annars geri. Björn, sumarið 1816 vantaði ekki hér á landi. Brandsstaðaannáll gefur því meira að segja allgóða einkunn. Svo hittist á að kaldast var að tiltölu þar sem veðurathuganir voru hvað þéttastar - kannski að blaðamannaáhrifin alræmdu séu hér á ferð? Þurfum við að grípa til leiðréttinga?  

Trausti Jónsson, 12.7.2013 kl. 00:37

6 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ég sagði ofarlega á lista Trausti, ekki met.

Pálmi Freyr Óskarsson, 12.7.2013 kl. 00:52

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú eru jafnvel farnar á renna tvær grímur á mig með þetta sumar en ég hef hingað til tekið því af nokkurri léttúð. Og fyrir veðurfíkla er það alltaf huggun harmi gegn þó slæmt sé á þeirrra svæði að vita af veðurblíðu ananrs staðar á landinu eins og var í júní en þessi júlí er ansi blendin alls staðar þrátt fyrir þessi tveggja daga hlýindi sums staðar sem voru að líða. Mér sýnist úrkoman í júni á Stórhöfða hafa verið mjög nærri meðallagi en nú þegar í júlí sé hún komin upp fyrir meðaltal alls mánaðarins! Og svo er ég sammála því að ömurlegt veðurfar sé ekki svo afstætt án þess að ég fari nánar út í það. En það er alltaf einhver viðmiðun.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2013 kl. 02:26

8 identicon

Trausti.  Úrkomutölurnar sem þig vantar eru líklega frá 5. og 7. júlí og þær eru 5,4 og 1,4 mm. Einnig féll skeyti út 4.júlí en kom inn þegar skeytið var sent í annað sinn. Það er óútskýrt hvers vegna skeytin glatast stundum í kerfi Veðurstofu Íslands. Rigning er góð í hófi og þó hiti sé í meðallagi virkar kalt þegar litlu hlýrra er að degi en nóttu. Að lokum, í júlí 1955 var mánaðarúkoman á Stórhöfða 287,7 mm úrkomudagar 26 og þokudagar 14. Skýjahulan í mánuðinum þeim var 7,2 áttundu hlutar. Ekki hafði þá orðið svo mikil úrkoma á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum frá upphafi mælinga um 1880.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 11:14

9 identicon

Síðasta hlýskeið var 1975-2005. Við erum einfaldlega að sigla inn í nýtt kuldaskeið eins og Páll Bergþórsson hefur verið að tala um.

Þetta kuldaskeið sem við erum að sigla inn í mun ljúka um 2030-2035, þá kemur nýtt hlýskeið. Það hlýskeið verður væntanlega enn hlýrra að það fyrra vegna gróðurhúsaáhrifa.

Maður þarf ekki annað en að skoða 1910-1940, 1940-1975 og 1975-2005 til að sjá hvað er í gangi.

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 15:20

10 identicon

Nánar um þetta hjá Páli, http://www.visir.is/hlyindaskeid-er-vid-ad-na-hamarki-sinu/article/2013703019923

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 15:22

11 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka áhugann Hermundur. Á árunum 1965 til 1995 gengu þrjú kuldaskeið yfir Ísland og Grænland. Því síðasta var því ekki lokið fyrr en 1995 - ef við setjum byrjun nýja hlýskeiðsins þá (ekki óeðlilegt) og ef það stendur í 30 ár - eru enn 12 ár eftir. Það fyrra stóð reyndar í hartnær 40 ár (skiptist reyndar í nokkur styttri). Kuldaskeiðs væri þá ekki að vænta fyrr en um 2025 til 2035 eða hvað? Hlýindaskeið 19. aldar stóð í  um 30 ár - en þá var mun meiri hafís í norðurhöfum heldur en síðar og köld ár stungu sér inn í hlýskeiðið sem varla gerðist á meðan á 20. aldarhlýskeiðinu stóð. Síðan komu mörg kuldaskeið í röð þar til aftur hlýnaði að ráði. En við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega - veðrið á ábyggilega eftir að halda áfram óvæntum uppákomum rétt eins og hingað til.

Trausti Jónsson, 13.7.2013 kl. 00:42

12 identicon

Það er athyglisvert hvað Trausti veit venju fremur lítið um framtíðina í orði kveðnu. Á vef Veðurstofu Íslands (vedur.is > Loftslag > Líklegar breytingar á Íslandi) má finna framtíðarveðurspá Trausta Jónssonar et al:

"Líklegast er að hlýnun við Ísland á næstu áratugum verði rúmlega 0,2 °C á áratug og um miðja öldina hafi hlýnað um 1°C, miðað við núverandi meðalhita (mynd 5). Eins og gefur að skilja eru nokkur óvissumörk á þessu mati, en líklegast verður hlýnunin á bilinu 0 til 2 °C."(sic)

En, svo að maður vitni nú beint í meistarann: "Hungurdiskar fjalla venjulega ekki að ráði um spár meir en 2 til 3 daga fram í tímann" . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 10:52

13 identicon

Það sem gerist á þessum kulda og hlýskeiðum á víxl er að kaldur sjór með lítið seltumagn stígur til yfirborðs og nýtt kuldaskeið hefst í N-Atlantshafi. Hlýskeið hefst svo að nýju þegar að yfirborð sjávar hlýnar aftur og seltustig hækkar.

Nánar um upwelling: http://en.wikipedia.org/wiki/Upwelling

Lækkandi sjárvarhiti og minnkandi seltumagn í Færeyjum http://kvotinn.is/lelegur-seidabuskapur-vid-faereyjar/

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 14.7.2013 kl. 17:11

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað sem veldur eru gloppur á vef Veðurstsofunnar um daglega úrkomu á mönnuðum úrkomustöðum svo miklar að mörgum  þeirra, jafnvel flestum.  er ómögulegt að fylgjast með framvindunni. Þegar svo alhliða mannaðar stöðvar eru lagðar niður, en á þeim eru nær aldrei gloppur, en úrkomumælingum er haldið áfram koma upplýsingar um úrkomu bara stundum. Ný og sláandi dæmi um þetta eru t.d. Lambavatn og Hæll. Mér finnst að úrkomutölur eigi að birtast daglega á vefnum frá öllum stöðvum sem athuga og líka þegar engin úrkoma mælist.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.7.2013 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 748
  • Sl. sólarhring: 828
  • Sl. viku: 2543
  • Frá upphafi: 2413563

Annað

  • Innlit í dag: 700
  • Innlit sl. viku: 2300
  • Gestir í dag: 685
  • IP-tölur í dag: 667

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband