Hlýindatoppnum er að ljúka - kuldinn samt í biðstöðu?

Óvenjuleg hlýindi gengu yfir landið í dag (mánudag) og standa þau fram eftir þriðjudegi um landið austanvert og því ekki útséð með áframhaldandi met. Því met féllu, m.a. hefur hiti aldrei áður orðið jafnhár í febrúar í Reykjavík. Kemur það met ofan í janúarmetið á sama stað. Merk tíðindi.

Nýtt dægurmet fyrir landið var einnig sett í dag (15,3°C á Seyðisfirði) - en talsvert vantaði upp á að landsmet febrúarmánaðar (18,1 stig) væri slegið. Það er líka óvenjulegt að hvergi var frost á veðurstöð á landinu í dag - ekki einu sinni á Gagnheiði eða Brúarjökli.

Á aðfaranótt miðvikudags er gert ráð fyrir kólnandi veðri. Þá gæti sést í föl í éljum. En það er eins og kuldinn sé ekki alveg tilbúinn. Ástæðan sést ef til vill á kortinu.

w-blogg260213a

Kortið á við 500 hPa-flötinn, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, en þykktin sýnd með rauðum strikalínum, báðar línugerðir merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin núna um miðnættið (mánudagskvöld) er um 5460 metrar yfir miðju landi, en er á miðvikudag (ef trúa má spánni) komin niður í 5270 metra, það hefur kólnað um nærri tíu stig.

Þykktar- og hæðarlínur liggja mikið til samsíða á svæðinu 60° til 70°N - ekki alveg - en nærri því. Meðan svo er breytist þykktin og þar með hiti ekki mikið. Suður af Grænlandi er hins vegar mikið af mjög hlýju lofti í framrás til norðurs (rauðu örvarnar). Þegar hlýja loftið kemur norður á 60°N sveigir mest af því til austnorðausturs (þá samsíða jafnhæðarlínum) en aðstreymið er svo mikið að við Ísland hlýnar. Á föstudag (1. mars) á þykktin að vera 5370 metrar yfir miðju landi (yfir 5400 suðaustanlands). Það hlýnar því aftur - til hálfs.

Það er ekki fyrr en á sunnudag sem útlit er fyrir að kalda loftið nái raunverulegum undirtökum. Um það eru reiknimiðstöðvar reyndar sammála í dag, en það eru sex dagar fram að því og margar spár hafa brugðist á styttri tíma.

En við sjáum líka á kortinu að bæði jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru mjög þéttar og mega ekki mikið hnikast til. Þeir sem hafa fylgst reglulega með pistlum hungurdiska vita að háloftastrengurinn nær sér ekki niður svo lengi sem jafnþykktar- og jafnhæðarlínur standast nákvæmlega á, þegar bratti sviðanna er sá sami - alveg sama hversu mikill hann er. Þegar það jafnvægi riðlast í bröttu sviði er illt í efni.

Reynslureglur um samband hita og þykktar ofmeta oftast hitann þegar þykktarbrattinn er mikill. Kalda loftið í neðstu lögum nær þá gjarnan sunnar heldur en þykktin ofan við segir til um. Líklegt er að slíkt eigi við um næstu daga - norðurströndin getur lent inni í frostinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12
  • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.3.): 61
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1829
  • Frá upphafi: 2454387

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 1673
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband