Tvær mestu febrúarfyrirstöðurnar

Febrúar er ákaflega fjölbreyttur mánuður - í ökkla eða eyra. Við lítum hér snögglega á efri endann - mestu fyrirstöðurnar. Í titlinum eru þær tvær - í tímalengd - náðu yfir mestallan mánuðinn. Veðurfar var alveg út úr kortinu í febrúar 1932. Hlýindin þau afbrigðilegustu í nokkrum vetrarmánuði hér á landi. Í næstu sætum koma svo mars 1929, desember 1933, janúar 1847 og mars 1964. Þrír afbrigðilegustu vetrarhlýindamánuðirnir komu allir á inni á fimm ára tímabili. Nýhlýindaskeiðið sem við upplifum á enn eftir að toppa þennan árangur gamla tímans.

En fyrsta kortið sýnir hæðarvik í 500 hPa þennan ágæta mánuð með augum amerísku endurgreiningarinnar.

w-blogg140213aa

Risahlýindavik er yfir landinu. Harla mikil norðanáttarauki í Skandinavíu.

Ámóta atburður gerðist síðan aftur í febrúar 1965 - en ekki alveg eins hlýr.

w-blogg140213ab

Hér er hæðin aðeins vestar en 1932. Elsta kynslóð veðurnörda man vel þennan mánuð. Hann var mjög hlýr - með tveimur ofsaveðrum þó. Nákvæmlega þarna byrjuðu hafísárin svonefndu hér á landi - en í baksýnisspeglinum má þó sjá nokkurn aðdraganda. Í veðrinu er yfirleitt skýrari sýn í baksýnisspeglinum heldur en þangað sem leiðin liggur. Í þessu afbrigðilega mynstri náði hafísinn að breiðast út fyrir norðan land - með töluverðri nýmyndun auk stíflunnar á Grænlandssundi.

Ís kom líka vorið 1932 - en miklu minni - minna var þá fyrir af honum heldur en 1965.

Þessar fyrirstöður entust í margar vikur - en stöku sinnum birtast þær án þess að setjast að til langframa. Ef við lítum á einstaka daga finnur endurgreiningin ákaflega afbrigðilegan dag í febrúar 1890.

w-blogg140213a

Þetta kort sýnir ekki vik heldur hæð 500 hPa-flatarins þennan ákveðna dag. Miðjuhæðin er 5840 metrar. Ansi gott þykir að ná 5700 metrum og gerist ekki nema stöku sinnum hér við land að vetrarlagi eða á fimm til tíu ára fresti í febrúar.

Loftþrýstingur var mjög hár og hefur aðeins tvisvar mælst jafnhár eða meiri í febrúar hér á landi. Taflan sýnir þetta - ekki er marktækur munur á efstu gildunum:

ármándagurhámark (hPa)Staður
18922141051,8Stykkishólmur, Akureyri
19622261051,7Akureyri, Dalatangi (25.)
18902261051,6Akureyri 
18892251050,4Akureyri
20062241050,0Skjaldþingsstaðir og Dalatangi
19652211048,6Vopnafjörður
19322101047,4Seyðisfjörður
1895251047,0Akureyri
19442251046,3Akureyri
19882281046,3Bergstaðir 

Mánuðirnir tveir, 1932 og 1965 eru efstir á lista yfir þrýstihæstu febrúarmánuðina:

árfebrúarlandið (hPa)
193221027,0
196521026,9
194721025,5
198621023,6
189521021,9

Síðan kemur febrúar 1947 í þriðja sæti - en hann var einnig afskaplega afbrigðilegur. Frægur í Evrópu fyrir snjó og kulda í skorti eftirstríðsáranna - við lá að allt færi á höfuðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég snerti aldrei blindtengla af þessu tagi.

Trausti Jónsson, 15.2.2013 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 265
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 2982
  • Frá upphafi: 2427312

Annað

  • Innlit í dag: 241
  • Innlit sl. viku: 2678
  • Gestir í dag: 221
  • IP-tölur í dag: 218

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband