Norðurhvelsstaðan (auk klípu af nördmeti)

Fyrst lítum við á hefðbundinn hátt á stöðuna á norðurhveli á fimmtudaginn (14. febrúar) en síðan eru nokkur korn fyrir veðurnördin.

w-blogg130213

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, N-Ameríka til vinstri en mestöll Asía til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í veðrahvolfi miðju. Litafletir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli bláu og grænu litanna eru sett við 528 dekametra (1 dam = 10 metrar). Þau liggja einmitt yfir Ísland á myndinni - frá suðvestri til norðausturs.

Þau svæði þar sem þykktin er minni en 4920 metrar eru lituð fjólublá. Þar eru höfuðstöðvar kuldans hverju sinni. Þær eru tvískiptar eins og oftast á þessum árstíma, önnur miðjan er yfir kanadísku heimskautaeyjunum en hin yfir strönd Síberíu. Köld svæði með lítilli þykkt og lágum veðrahvörfum eru kölluð kuldapollar. Til auðkennis hafa hungurdiskar gefið þessum tveimur meginpollum nöfn - Kanadapollinn höfum við kallað Stóra-Bola - en hinn er Síberíu-Blesi. Eini tilgangur nafnanna er að auðvelda umtal og forðast rugling. Fleiri kuldapollar - veigaminni og skammlífari eru oftast á sveimi á kortinu. Hér er t.d. einn yfir Miðjarðarhafi og veldur þar leiðindaveðri allt suður til Afríkustranda - mikið ef ekki snjóar þar í fjöll.

Kuldapollarnir stóru eru frekar rólegir á kortinu. Það sjáum við af því að þykktarfletir og jafnhæðarlínur liggja nokkuð samsíða kringum þá og bratti þessara sviða er þar svipaður. Litakvarðinn sem notaður er (batnar mjög við stækkun) gerir ráð fyrir fjórum fjólubláum litatónum. Hér eru aðeins þrír notaðir - sá fjórði sést ekki nema stundum - þar er þykktin minni en 4740 metrar.

Umhverfis Ísland er vindur frekar hægur og bratti þykktarsviðsins ekki mikill. Fyrirstaðan sem verndað hefur okkur undanfarna daga hefur hörfað til austurs - en spár gefa góða von um að hún muni enn á ný endurnýja sig ekki fjarri Íslandi eins og gerst hefur hvað eftir annað í vetur. Þessi fyrirstaða hefur lengst af verið af veikari gerðinni - en það er að sumu leyti bara betra. Öflugar fyrirstöður stugga frekar við kuldapollunum og geta ýtt þeim úr bólum sínum.

Þótt Evrópumenn hafi sumir kvartað um kulda í vetur hefur sá kuldi verið af vægara taginu - í norðan- og norðaustanátt austan við veika fyrirstöðuna. Síberíu-Blesi hefur nær ekkert látið á sér kræla vestan Úralfjalla. Í vetur hafa öflugar fyrirstöður stundum birst í nágrenni Íslands í viku til tíu daga spám - en hingað til hefur ekkert orðið úr þeim. Við þurfum auðvitað stóra fyrirstöðu til að slá einhver hitamet - en það er áhættuleikur - við gætum alveg eins lent á austurhliðinni í klóm kuldans.

En lítum nú á töflu - hér kemur að nördafóðrinu.

mánmhæðmánmism    mþykkt  mánmism      h1000 mánmism  þrýstingur
jan524,3-1,1523,4-0,90,9-0,21001,1
feb526,42,1523,80,42,61,71003,3
mar527,81,4524,00,23,71,11004,7
apr537,19,3528,94,98,24,51010,3
maí546,79,6535,56,611,33,11014,1
jún552,76,0543,07,59,7-1,61012,2
júl555,93,2547,54,58,4-1,31010,5
ágú553,7-2,2546,2-1,37,5-0,91009,4
sep545,9-7,8540,5-5,75,4-2,11006,8
okt537,3-8,6533,9-6,63,4-2,01004,2
nóv530,9-6,6528,0-5,92,9-0,51003,7
des525,4-5,5524,3-3,71,1-1,81001,4

Taflan er ekki flókin en krefst samt nokkurrar yfirlegu - á varla heima í bloggmiðli. Hún sýnir árstíðasveiflu meðalhæðar 500 og 1000 hPa-flatanna og þykktarinnar yfir Íslandi miðju á tímabilinu 1951 til 2012.

Fyrsti dálkurinn sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í dekametrum. Við sjáum að í febrúar er hún 526 dam. Á kortinu að ofan er hún 529 dam, þremur dekametrum ofan meðallags. Næsti dálkur sýnir breytingu meðalhæðarinnar frá einum mánuði til þess næsta. Hæðin er í lágmarki í janúar en er hæst í júlí. Hún hækkar lítillega frá janúar og fram í mars en þá kemur stórt stökk yfir í aprílmeðaltalið og annað ámóta yfir í maí. Minna þrep er síðan milli maí og júní. Meðalhæðin fellur lítilega milli júlí og ágúst, en verulega milli ágúst og september. Mikið fall er allt haustið.

Þriðji dálkurinn sýnir meðalþykktina. Hún er svipuð allan veturinn frá desember og fram í mars. Þykktin tekur líka vorstökk - en miklu minna heldur en hæðin. Þetta stafar trúlega af tvennu. Annars vegar dregur fyrr úr sunnanátt vetrarins heldur en vestanáttinni. Þá aukast líkur á norðanátt meðan á snúningnum stendur. Nokkru síðar dregur snögglega úr vestanáttinni og þá er köldu lofti sturtað frá heimskautaslóðum til suðurs. Þetta hægir á vorhlýnuninni sem kemur fram í því að þykktin (sem er mælikvarði á hita) tregðast við að hækka. Haustið er síðan önnur saga.

Fimmti dálkurinn sýnir hæð 1000 hPa-flatarins (mismunur hæðar og þykktar). Hann er hæstur þegar misgengið er mest í maí. Þá er meðalloftþrýstingur hæstur á Íslandi - aftasti dálkur sýnir þann þrýsting sem 1000 hPa-hæðin gefur til kynna. Misgengið á haustin kemur fram í því að þrýstingur fellur lítið milli október og nóvember - en meira á milli nóvember og desember - við látum vangaveltur um ástæður þess liggja á milli hluta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 266
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 2983
  • Frá upphafi: 2427313

Annað

  • Innlit í dag: 242
  • Innlit sl. viku: 2679
  • Gestir í dag: 222
  • IP-tölur í dag: 219

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband