Hlýindi í hámarki á laugardag

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 8. febrúar) er hlýtt víðast hvar á landinu og hvergi meira en tveggja stiga frost. Sunnanáttin hefur ekki enn hreinsað alveg út úr Siglufirði og Ólafsfirði - en það ætti að gerast á hverri stundu. Hiti vestanlands var víða á bilinu sjö til níu stig.

Kortið sýnir þykktina á miðnætti (að kvöldi föstudags) eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar hana.

w-blogg100213a

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og er því meiri eftir því sem hlýrra er, svörtu heildregnu línurnar sýna hana. Talnagildin eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og má sjá 542 dam jafnþykktarlínuna yfir vestanverðu landinu. Meðalþykkt í febrúarmánuði hér við land er um 18 dam lægri. Gróflega má segja að hiti hækki um 1 stig við hverja tvo dekametra þannig að hitinn um 9 stigum yfir meðallagi árstímans. Það er mikið.

Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er í dag í 1200 til 1400 metra hæð. Mörkin milli gulu og blágráu svæðanna liggja við núll stig. Hér er því hláka upp í meir en þúsund metra hæð.

En hlýja svæðið stefnir beint til norðurs og á korti sem gildir um hádegi á sunnudag eru hlýindin farin að gisna.

w-blogg100213b

Hér sækir kaldara loft að bæði úr austri og vestri. Eins og oftast er kaldara vestan við land heldur en austan þess. Kaldast er vestan við Grænland, þar sést aðeins í 494 dam jafnþykktarlínuna í jaðri kuldapollsins Stóra-Bola (kortið skýrist talsvert við stækkun). Í þessu tilviki stíflar Grænland framsókn hans algjörlega. Kalda loftið vestan við Ísland er komið vestan úr Kanada fyrir sunnan Hvarf.

Furðukalt er austan við Hjaltlandseyjar - þar sést í jaðar 512 dam línunnar. Kalt loft til beggja átta leitast við að fleygast undir hlýja loftið yfir Íslandi og ekki gott að segja hvor aðsóknin hefur betur - flókið skilakerfi hlýtur að verða til úr því (?).

Fyrir utan fiðringinn sem fylgir spurningunni um það hversu hátt hitinn fer á veðurstöðvum í hlýindagusunni (varla met - en samt mætti búa til veðmál um það) er ákveðin spenna samfara ástandinu á sunnudagskvöld. Lendir einhver hluti Suðvesturlands vestan við skilin? Snjóar þá? Verður krapaelgur? Fá skíðasvæðin spillihlákuna endurgreidda?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 270
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 2987
  • Frá upphafi: 2427317

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 2683
  • Gestir í dag: 226
  • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband