Kort til að leggja í minnið

Hér verður ekki lagt í nein samanburðarfræði á illviðrum - í bili að minnsta kosti. Full ástæða er þó til þess. En við látum duga að bera fram þrjú kort á fati sem áhugasamir mættu gjarnan leggja á minnið - eða frekar í minnið (látin fljóta í minninu frekar en íþyngja því).

Það fyrsta er vindgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því á hádegi í dag, laugardaginn 30. desember 2012. Hér er miðað við 100 metra hæð yfir sjávarmáli.

w-blogg301212a

Lituðu fletirnir sýna vindhraða (10-mín meðaltal) en örvarnar vindstefnu auk styrksins. Litakvarðann má sjá með því að stækka kortið. Dekksti rauði liturinn sýnir fárviðrisstyrk (>32 m/s) og leggst hann upp að Vestfjörðum. Landslagið tekur við þessum vindi og mótar hann, núningur dregur úr vindhraða en annars staðar styrkist hann eða veikist eftir atvikum. Þessi rauði litur sést alloft á kortum eins og þessu - sérstaklega á smáum svæðum í námunda við fjöll. Öllu sjaldséðari er hann úti á hafi - en þó á hann trúlega eftir að sjást aftur síðar í vetur - jafnvel fljótlega.

Það sem er sérstaklega óvenjulegt á þessu korti eru stóru brúnu flekkirnir þar sem vindur er meiri en 36 m/s. Þeir sjást sjaldan yfir jafnstóru svæði og hér er. En við bíðum eftir næsta tilviki og munum þetta þangað til.

Hin kortin tvö eru einkum ætluð til uppeldis veðurnördasveitarinnar. Aðrir sjá ekki margt á þeim. Annað kortið ætti að vera orðið kunningi fastra lesenda hungurdiska - það sýnir skynvarmaflæði eins og reiknimiðstöðin segir það hafa verið kl. 15 í dag (laugardag). Varmaflæði úr sjó í loft er talið með jákvæðu formerki. Stærð þess ræðst af hitamun lofts og sjávar og vindhraða.

w-blogg301212b

Litafletir sýna skynvarmaflæðið - stækkið kortið til að sjá kvarðann. Á rauðum svæðum er flæðið frá sjó til lofts, en gult og grænt sýnir þau svæði þar sem loftið hitar hafið (eða land). Svörtu línurnar sýna mismun sjávarhita og hita í 600 metra hæð.

Dekksti rauði liturinn sýnir svæði þar sem skynvarmaflæðið er meira en 500 Wött á fermetra og þar sem vindhraðinn er mestur (sjá fyrsta kortið) stendur talan 1013 Wött á fermetra - slagar upp í gamlan hraðsuðuketil. Reikniglöðum er látið eftir að reikna kílówattstundirnar.

En þetta er ekki allt, því fyrir utan skynvarmaflæðið er líka umtalsvert dulvarmaflæði úr sjó í loft. Það sjáum við á næsta korti.

w-blogg301212c

Dulvarmi mælist ekki á hitamæli heldur segir kortið til um það hversu miklum varma yfirborðið er að tapa við uppgufun. Vatnsgufan geymir þennan varma sem síðan losnar aftur þegar hún þéttist og myndar úrkomu. Dekksta rauða svæðið með meira en 500 Wöttum á fermetra er ívið minna á þessu korti en því fyrra - og hæsta talan er 622 Wött á fermetra.

Samtals eru 500 til 1400 Wött af varma að streyma úr hafi í loft á mjög stóru svæði, eins gott að sólin hitaði sjóinn vel upp í sumar. Það var í fréttum síðast fyrir nokkrum dögum að stórir varmaflæðiatburðir af þessu tagi geti haft áhrif á stöðugleika sjávar og þar með hitt og þetta sem getur valdið æsingi í skrímslaheimi loftslagsumræðunnar. Menn geta flett þeim fréttum upp sjálfir.

Nú verður ritstjórinn að játa að hann þekkir ekki smáatriði reiknilíkansins, t.d. hvernig uppgufun í særoki er talin. Hópar veðurfræðinga temja sér þá iðju að fljúga rétt ofan sjávarmáls í ofsaveðrum til mælinga á einmitt því atriði. Hér má vísa í gamla frétt á mbl.is í því sambandi og trúlegt að tölur dagsins hafi notið góðs af leiðangrinum sem þar er getið.   

Víðast hvar á kortinu er dulvarma- heldur meira en skynvarmatap sjávar.

Nú - öll uppgufunin skilar sér um síðir sem úrkoma - hvar það verður er ekki gott að segja. En úrkoman mikla sem féll á höfuðborgarsvæðinu í gær - föstudag - er afleiðing dulvarmanáms loftsins. Þessir stóru kuldapollar á norðurslóðum búa þannig óbeint til mikla úrkomu - enda fylgja þeim oftast illviðri og vandræði önnur þegar þeir lenda yfir hlýjum sjó.

Skynvarminn hitar loftið að neðan, spillir stöðugleika þess og býr til skilyrði til dulvarmalosunar sem færir fjöll og byggðir á kaf í snjó og svo framvegis.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Má ekki segja að hér hafi verið um einskonar fellibyl að ræða?   Að vísu án hinnar klassísku miðju en knúinn áfram af sömu meginorsökum. Þ.e. miklum varmamun sjávar og lofts svo og snúningi jarðar.  Að hér á norðurslóð hafi komið upp þær aðstæður sem venjulegast gilda mun nær miðbaug? Svo sem ekki óþekkt en viðbúið að tíðnin aukist við hækkandi meðalhita eða hvað?

Er annars nokkuð sem segir að þetta skyndiáhlaup kuldabola úr norðri hefði ekki getað orðið að myndarlegri fellibyljarlegri heimskautalægð svona ef aðstæður hefðu verið aðeins aðrar? Eða kom þessi stóra (kulda-) bóla til okkar einmitt af því að aðstæður voru aðrar?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 10:39

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

...''skrímslaheimi loftslagsumræðurnnar''. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2012 kl. 12:59

3 identicon

... góður!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 18:01

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Bjarni. Margskonar munur er á fellibyljum og því veðri sem gekk hér yfir um helgina, mestur þó sá að dulvarmalosun er algjör forsenda fellibyljanna - en illviðri venjulegra lægða eiga sér mun margbreyttara fóður. Hringrás fellibylja er sammiðja upp í gegnum veðrahvolfið en mikill halli er langoftast á hringrásinni í venjulegum lægðum. Skyndiáhlaup kuldabola búa oft til svokallaðar heimskautalægðir - en aðeins hluti þeirra sýnir einhver skyldleikamerki við fellibyljahringrás. Þær eru alltaf miklu minni um sig heldur en lægðin sem gekk hér yfir um helgina. En það er rétt hjá þér að tilviljanir ráða oft hvers eðlis veðurkerfi verða hverju sinni.

Trausti Jónsson, 31.12.2012 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 961
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 3351
  • Frá upphafi: 2426383

Annað

  • Innlit í dag: 856
  • Innlit sl. viku: 3012
  • Gestir í dag: 836
  • IP-tölur í dag: 770

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband