Óvenjuleg úrkomugusa

Í dag (föstudaginn 28. desember) var kyrrstætt úrkomusvæði yfir landinu suðvestanverðu. Þar fleygaðist hóflega kalt loft undir heldur hlýrra loft austan við. Ekki löngu fyrir hádegi fór að haugrigna á höfuðborgarsvæðinu og mældist úrkoma við Veðurstofuna á bilinu 2 til 4 mm í tíu klukkustundir. Þegar haft er í huga að sólarhringsúrkoma mælist ekki oft meiri en 30 mm í Reykjavík og sárasjaldan yfir 40 mm ætti að sjást hversu óvenjulegt þetta er. Austar á svæðinu var úrkoma enn meiri.

Þegar mikið rignir í hægum vindi, hiti er ekki nema 2 til 3 stig og rakastig ekki 100% lækkar hitinn smám saman vegna þess að mikil varmaorka fer í að bræða snjó - en næstum því öll úrkoma hér á landi byrjar ævi sína í föstu formi. Rigningin breytist því fyrst í slyddu og síðan fer að snjóa. Snjórinn er blautur og úr verður afskaplega leiðinlegur krapi.

Þegar ritstjórinn yfirgaf Veðurstofuna um kl. 18 var þar kominn þónokkur snjór og þykkt lag af þungum krapa lá á bílastæði og bílum. Ekki létt í lélegum skófatnaði. Leiðin lá síðan austur í bæ og upp að Korpúlfsstöðum. Þar var þá mun minni snjór en krapaelgur. Mælingar sýna þó að þar var úrkoma enn meiri heldur en á Veðurstofunni. Trúlega hefur vindur í lofti með hjálp Úlfarsfells og annarra nálægra fella náð að blanda slyddulagið betur þannig að frostmarkið hefur þar upphaflega verið ofar. En það eru auðvitað bara fljótheitavangaveltur.

Nú gekk á með slyddu og snjó allt þar til komið var upp á Kjalarnes, skammt norður af Grundarhverfi hafði nær ekkert snjóað og úrkoma var miklu minni. Slydduslitringur var þó inn með Akrafjalli að sunnan, en áður en kom að Grundartanga var orðið vel frostlaust og úrkoman sem var miklu minni heldur en syðra var eingöngu rigning.

Hitasamanburður sýnir að 3 til 5 stiga hiti var alls staðar austan úrkomusvæðisins og undir miðnætti mátti reyndar heita frostlaust á láglendi um land allt - einna kaldast var á Reykjanesskaganum.

Allur textinn hér að ofan hlýtur að verka sem hálfgerð öfugmæli miðað við það að á sama tíma er spáð einu versta snjóflóðaveðri um árabil um landið vestan- og norðanvert. Svo er þó auðvitað ekki. Snjókoman á Suðvesturlandi er nánast tilviljunarkennt aukaatriði í miklu víðtækari stöðu.

Til að skýra það nánar lítum við á kort sem sýnir gerð evrópureiknimiðstöðvarinnar af hita og vindi í 925 hPa-fletinum yfir landinu og nágrenni þess núna á miðnætti (föstudagskvölds).

w-blogg291212a

Heildregnu línurnar sýna hæð 925 hPa-flatarins. Hann liggur mjög neðarlega í dag, það er 280 metra jafnhæðarlínan sem liggur rétt austan við Reykjavík á kortinu. Litafletirnir sýna hitann í fletinum. Frostlaust er yfir landinu öllu í flatarhæð nema allra nyrst á Vestfjörðum og við Reykjanes. Bláa örin bendir á daufblágræna bletti við Suðvesturland. Þar er bráðnandi úrkoma að kæla loftið.

Austan við land er gríðarstórt svæði með mjög hlýju lofti og var fjallað um það í pistli hungurdiska í gær. Hiti fór í 10 stig í Skaftafelli í dag - vafasamt er að hann fari hærra úr þessu því hlýjasta loftið fer til norðausturs austur af landinu.

Milli Vestfjarða og Grænlands er hins vegar jökulkaldur norðaustanstrengur, fárviðri er á stóru svæði í flatarhæðinni. Fjólublái liturinn byrjar við -16 stiga frost. Hlýja loftið hefur hingað til þrengt að - en nú fer dæmið að snúast við. Kalda loftið með sínum 20 til 35 m/s fer að falla til suðurs yfir landið vestanvert. Þegar úr aðhaldinu dregur dreifist úr kuldanum og þar með dregur úr vindi. En við látum Veðurstofuna og aðra um spárnar. Fylgist með þeim.

Viðbót kl. 15:30 laugardaginn 29. desember.

Eftir að pistillinn var skrifaður hélt úrkoma áfram í Reykjavík og kl. 9 í morgun kom í ljós við mælingu að úrkoman hafði alls orðið 70,4 mm á einum sólarhring. Þetta er miklu meira en mest hefur mælst þar áður og rétt að bíða í nokkra daga með endanlega staðfestingu á metinu. Talan 70,4 er tæplega 9 prósent meðalársúrkomu í Reykjavík. Almennt er sjaldgæft að sólarhringsúrkoma á veðurstöð fari yfir 6 prósent meðalársúrkomunnar á staðnum. Fleira má sjá um úrkomu síðasta sólarhrings á bloggsíðu nimbusar og einnig er fjallað um eldra met í Reykjavík í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar, gamla Reykjavíkurmetið fær þar umfjöllun þegar nokkuð er liðið á pistilinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"mældist úrkoma við Veðurstofuna á bilinu 2 til 4 mm í tíu klukkustundir"? Hvað er átt við med þessu, rigndi 20-40 millimetra á 10 klukkutímum?

torfi stefánsson (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 10:37

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, það rigndi um 36 mm á 9 klukkustundum í mannaða mælinn frá kl. 9 til 18.

Trausti Jónsson, 29.12.2012 kl. 15:35

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Gott að fá það staðfest. Ég fylgdist með sjálfvirka úrkomumælinum í gær sem stefndi í 20 mm dagsúrkomu þar til hann fékk skyndilega 16 mm viðbót á milli kl. 17-18. Sjálfsagt einhver leiðrétting þar á ferð.

Mesta dagsúrkoma í Reykjavík sem ég man eftir er 26 mm þann 31. mars 1989 sem fór einmitt úr rigningu í slyddu og síðar í mikla snjókomu sem hélt áfram fram eftir kvöldi og nóttina á eftir.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.12.2012 kl. 16:37

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Emil. Þessi 16 mm skyndilega viðbót hefur sennilega stafað af snjóköggli sem dottið hefur niður í mælinn - en hann á að teljast með. Annars eru tveir sjálfvirkir úrkomumælar mismunandi gerðar við Veðurstofuna og voru þeir furðusammála í heildina - mældu þó nokkuð minni úrkomu heldur en hefðbundni mælirinn. Það þarf að fara aðeins í saumana á þessu máli - en veður eins og var í gær þar sem skiptist á rigning, krapi, snjór og rigning ofan í snjó er úrkomumælingum mjög erfitt.

Trausti Jónsson, 30.12.2012 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 55
  • Sl. sólarhring: 1124
  • Sl. viku: 2726
  • Frá upphafi: 2426583

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2430
  • Gestir í dag: 53
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband