Á hlýindahlið lægðarinnar djúpu

Nú er spáð illviðri víða um land samfara því að mjög djúp lægð kemur upp að landinu úr suðri. Þrátt fyrir að aðeins sé tæpur sólarhringur í það að lægðarinnar fari að gæta eru tölvuspár ekki enn sammála um braut lægðarinnar né það hversu djúp hún verður þegar best (verst) lætur.

Evrópureiknimiðstöðin nefnir töluna 942 hPa en dönsk og bandarísk líkön segja miðjuþrýstinginn fara niður fyrir 940 hPa. Það má minna á að loftþrýstingur virðist ekki hafa farið svo neðarlega á veðurstöð hér á landi síðan í miklu norðaustanillviðri dagana 15. til 16. janúar 1999. Ámóta djúpar lægðir hafa þó verið á ferð nærri landinu - en þrýstingur á landi hefur ekki náð niður í 940 hPa.

Mikið tjón varð í janúarveðrinu 1999, mest í sunnan- og austanlands. Norðanlands gerði hins vegar fræga og illskeytta snjóflóðahrinu.

Að þessu sinni er veðri spáð einna verstu á Vestfjörðum og þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) er snjóflóðaóvissuástand í gildi á nokkrum stöðum þar um slóðir. E.t.v. verður hætta á ferðum víðar. Stórstreymt er að morgni laugardags og gerir þá trúlega mikið brim viða nyrðra og fari þrýstingur jafn neðarlega og spáð er verður sjávarstaða einnig há víða um land.

Lægðin er líka merkileg fyrir það að gríðarhlýtt er í lægðarmiðju og austan hennar. Þykktin yfir Austfjörðum á að fara upp í 5420 metra á aðfaranótt laugardags og upp fyrir 5280 yfir Vestfjörðum. Undir venjulegum kringumstæðum ætti þetta að tryggja hláku á láglendi um land allt - en munum að þegar þykktarbratti er mjög mikill stingur kalda loftið sér langt undir það hlýja fyrir ofan. Því er snjókomu spáð á Vestfjörðum og á Norðurlandi líka. Eystra nær hlýja loftið lengra niður, alla vega niður fyrir 1000 metra hæð þar sem 3 stiga hita er spáð í 850 hPa. En við skulum til gamans og fræðslu einnig líta á skemmtilega mættishitaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl 6 að morgni laugardags.

w-blogg281212

Litafletirnir sýna mættishitann, heildregnar línur sjávarmálsþrýsting og strikalínur hita í 850 hPa. Þrýstikortið sýnir lægð sem er teygð og toguð, margar lægðarmiðjur að berjast um forystusætið - þar er vandinn og reiknimiðstöðvar gera veg þeirra mjög misjafnan. Það er raunar með hálfum huga að ritstjórinn sýnir þetta kort - en það er of freistandi til að láta það sleppa í gegn ósýnt. Þeim sem eru lítið fyrir beiskt bragð er eindregið ráðlagt að sleppa næstu málsgrein.  

Við sjáum þarna töluna 16,3 stig rétt úti af norðanverðum Austfjörðum, ansi há tala í snjóflóðabyl. Þetta er sá hiti sem loftið fengi væri það dregið niður í 1000 hPa. En - gáum nú að - það eru engin 1000 hPa þarna undir - og munar meira að segja miklu. Á kortinu er sjávarmálsþrýstingurinn nærri 950 hPa, 1000 hPa flöturinn er strangt tekið um 400 metra neðan sjávarmáls, svipað og yfirborð Dauðahafsins í Miðausturlöndum. Til að finna mættishita miðað við eðlilegt sjávarmál þurfum við því að draga 4 stig frá stigunum 16 og fá út töluna 12. Það væri hitinn við sjávarmál ef loft í 850 hPa næðist niður. Þetta er auðvitað býsna gott í janúar.

Í spá úr sömu syrpu fyrir föstudagskvöld mátti sjá meir 20 stiga mættishita yfir Skotlandi og ekki nema -15 stiga frost í 500 hPa. Dægurhitamet á þessum tíma árs á Stóra-Bretlandi eru á bilinu 16 til 17 stig, en desemberhitamet Bretlandseyja er 18,3 stig (nema að það hafi verið slegið nýlega). Varla falla met þó að þessu sinni - alla vega er ekki svo að sjá í spám bresku veðurstofunnar. Við verðum að taka mark á þeim.

Svo er að fylgjast með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 864
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband