Skúrir

Á morgun (þriðjudag) verður allmikill skúrabakki við suðurströndina - ef marka má tölvuspár. Ekki taka hungurdiskar sérstaka afstöðu til spádóma, en lítum samt á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir 5. júní kl. 15.

w-blogg050612

Það er margt sýnt á kortinu. Þrýstilínur (í hPa) eru svartar og heildregnar, 1016 hPa línan hringar síg um Reykjavík. Við sjáum einnig hefðbundnar vindörvar þær eiga að sýna vind í 10 m hæð. Á Faxaflóa er spáð norðaustan 15 hnútum (um 7 m/s). Strikaða fjólubláa línan sýnir -5 stiga jafnhitalínu í 850 hPa en sá flötur er nú í 1500 metra hæð frá jörðu. Það þýðir að frost er á háum fjöllum.

Lituðu fletirnir sýna úrkomumagn. Dekksti græni liturinn yfir suðurströndinni sýnir að spáð er 3 til 5 mm úrkomu á þremur klukkustundum (milli kl. 12 og 15). Það úrkomumagn bleytir vel í, samsvarar því að helt sé úr þremur til fimm mjólkurfernum á fermetra. Spurning er hversu trúverðug spáin er í smáatriðum. Ólíklegt er að bakkinn verði nákvæmlega svona.

En litlu merkin inni á úrkomusvæðunum hafa líka merkingu. Mest er af litlum þríhyrningum en þeir tákna að úrkoman sé af klakkakyni (skúrir eða dembur). Þar sem er litur og engir þríhyrningar er um jafnara uppstreymi að ræða (breiðu- eða stórkvarðaúrkomu). Litlu krossarnir tákna snjókomu - eitthvað er af þeim á fjalllendi norðaustanlands á kortinu, en hafa verður í huga að landslag í líkaninu er ekki sérlega nákvæmt. Til dæmis er Vatnajökull bæði stærri og lægri í líkaninu heldur en í raunveruleikanum. En úrkoman er sjálfsagt velþegin hver sem hún verður.

Hér að neðan er erfiðari texti - sem flestir lesendur geta sleppt alveg sér að skaðlausu.

Allra eftirtektarsömustu veðurnörd hafa sjálfsagt tekið eftir því hversu hlýtt hefur verið (að deginum) á Suðvestur- og Vesturlandi allra síðustu daga undir tiltölulega lágri þykkt. Í dag (mánudag) var hámarkshiti á landinu t.d. 21,6 stig (á Þingvöllum) en þykktin yfir Keflavík á hádegi ekki nema um 5470 metrar. Ekki vantar mikið á að loft í neðstu lögum nái að brjóta sér leið upp um allt veðrahvolf. Sennilega er þurrkurinn meginástæða þess að það gerðist ekki. Hefði loft verið „eðlilega“ rakt hefði uppstreymið myndað ský, sem að minnsta kosti hefðu dregið fyrir sól þannig að ekki hefði orðið jafnheitt - eða þá losað það mikinn dulvarma að risastórir skúraklakkar hefðu myndast. En það vitum við auðvitað ekki.

En núna á miðnætti er þykktin yfir Keflavík komin niður í 5430 metra og á morgun á hún að hafa hrapað niður í 5320 metra. Spennandi verður að sjá hversu hátt sól og þurrkur geta keyrt hitann suðvestanlands upp undir þeirri þykkt - án þess að skýjaflókar eða skúrir myndist. Bestu líkön nefna 12 stig sem hámarkshita þriðjudagsins á landinu. Þau gætu vanmetið niðurstreymið suðvestanlands þannig að árangurinn yrði aðeins betri.

En aðstreymi kaldara lofts er meginástæða skúrabakkans á kortinu að ofan. Miðja kuldapollsins á að fara hratt hjá og þykktin fer fljótlega aftur upp fyrir 5400 metra - og kannski meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband