Norðurhvel í júníbyrjun

Nú skiptir um veðurlag frá því sem verið hefur undanfarna viku til tíu daga. Sé að marka tölvuspár gengur snarpur kuldapollur yfir landið úr norðaustri og ræður veðri í tvo daga eða svo (þriðjudag og miðvikudag) en síðan tekur við það sem við getum e.t.v. kallað venjulegt sumarveður, eitthvað misskipt á milli landshluta.

Á norðurhvelskortinu sem gildir um hádegi á þriðjudag sést að kuldapollurinn fer einn og sér - jú hann hrakti hæðina góðu allt vestur yfir Kanada en vonandi koma ekki fleiri sendingar úr norðri í bili. Myndin skýrist talsvert við stækkun.

w-blogg040612

Jafnhæðarlínur (500 hPa) eru svartar og heildregnar, litafletir sýna þykktina. Við höfum að undanförnu verið vel inni í gulu litunum (sumarlitir) en á kortinu eru við allt í einu langt inni í grænu og meira að segja er blár blettur yfir landinu sjálfu. Þar er þykktin minni en 5280 metrar. Hæðin sem í dag (sunnudag) var yfir Grænlandi er hér hrokkin vestur til Labrador og deyr þar trúlega.

Við sjáum að jafnhæðarlínur eru nokkuð þéttar kringum kuldapollinn en þegar hann er farinn hjá (til suðurs) tekur við flatneskja í hæðarsviðinu sem er algeng hér á land á þessum árstíma.

En það verður auðvitað ekki alveg veðurlaust - en tilviljanir sem erfitt er að fjalla um marga daga fram í tímann ráða. Vonandi hjálpar sólin til með hitann.

Annars er nú lítið orðið eftir af vetrinum á norðurslóðum. Bláir blettir sjást þar á stangli og alltaf er rétt að fylgjast með þeim þótt þeir fari aðallega í hringi yfir Norðuríshafinu. Lægðir berast ótt og títt inn yfir meginland Evrópu og halda sumrinu þar í skefjum. Býsna háreistar hlýjar bylgjur ganga austur um Bandaríkin, kannski fréttist eitthvað af hitum þar á bæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er staddur í Winnipeg í Kanada og kom hingað í rútu frá Minneapolis í gær, yfir slétturnar miklu, rúmlega 700 km. leið. Það er óhætt að segja að þar sé búsældarlegt um að litast.

Veðrið er og verður yndislegt þessa vikuna, um og yfir 25 stiga hiti og heiðríkja að mestu. Sömu sögu var ekki að segja um síðustu viku en þá var  rigning með köflum og 5-10 stiga hiti. Winnipeg er landfræðileg miðja N-Ameríku og sólríkasta borg Kanada.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.6.2012 kl. 12:40

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hitinn hér í dag er nú 30 stig

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.6.2012 kl. 00:09

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Mér sýnist nú vera einhver læðgagangur vestan við þig sem dregur hlýja loftið úr suðri. Kanadíska veðurstofan spáir á síðunni: http://www.weatheroffice.gc.ca/forecast/canada/index_e.html?id=MB smella þarf á stað á kortinu til að fá upp spána.

Trausti Jónsson, 5.6.2012 kl. 00:57

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta Trausti. Mögnuð spá

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.6.2012 kl. 03:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 93
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 2014
  • Frá upphafi: 2412678

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 1764
  • Gestir í dag: 84
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband