Smáél að kvöldi 8. maí

Smáél gerði á höfuðborgarsvæðinu í kvöld (8. maí). Svo virtist helst á gervihnattamyndum að rakt loft hafi komið úr norðri - en vel má vera að það hafi í raun komið úr austri - meðfram suðurströndinni. Vindur var mjög hægur í þeirri hæð sem skýin sem mynduðu úrkomuna voru. Þrátt fyrir aumingjadóminn í éljunum voru þau síðdegisfyrirbrigði - rétt eins og síðdegisskúrir á sumrin.

Þótt kalt sé í veðri sér sólin samt um að reka stóra dægursveiflu í Reykjavík. En við skulum - í lærdómsskyni líta á línurit sem sýnir hita og raka í Reykjavík undanfarna fjóra daga.

w-blogg090512

Hér má sjá hita (blár ferill - vinstri lóðréttur kvarði), daggarmark (rauður ferill) og rakastig (grænn ferill - hægri lóðrétti kvarðinn) á sömu mynd á 10-mínútna fresti dagana 5. til 8. maí (fram til kl. 22 síðastnefnda daginn). Svörtu lóðréttu strikin sýna miðnætti (kl. 24) milli daganna.

Þarna eru tvær frostnætur, sú fyrri aðfaranótt 6. og sú síðari aðfaranótt 8. Hitinn sveiflast frá um það bil -2 stigum og upp í +7, samtals níu stig. Rakastigið (grænt) sveiflast einnig mikið. Það fer niður fyrir 30 prósent þegar það er lægst að deginum, en upp í 60 til 70 prósent frostnæturnar tvær. Miðnóttina fór það hins vegar upp í 90 prósent.

Sveiflur í rakastigi segja lítið til um sveiflur í rakamagni. Ef við hitum upp loft án þess að bæta við raka fellur rakastigið, ef við kælum það hækkar rakastigið. Við sjáum þetta sérlega vel þessa daga - þegar blái ferillinn leitar upp - leitar sá græni niður - og öfugt.

Daggarmarkið segir hins vegar til um það hversu mikið af vatnsgufu er í loftinu. Það hækkar ekki nema að raka sé bætt í það - eða þá að rakara loft komi í stað þurrara, t.d. með hafgolu. Heildarspönn daggarmarksins (munur á hæsta og lægsta gildi) er mjög stór þessa dagana, um 12 stig. En sveiflurnar fylgja sólinni ekki jafn vel og rakastigið gerir.

Fyrsta morguninn á myndinni (5.maí) hrapar daggarmarkið niður úr núll stigum og niður í -12. Tvennt getur skýrt þetta. Annað hvort hefur nýtt loft af landi hreinsað út það sem var yfir bænum um nóttina eða þá að hitahvörf hafa rofnað og þurrt loft ofan þeirra blandast niður í það raka. Ekki er gott að segja hvort er. En mjög skarpt lágmark er í daggarmarkinu klukkan 10 mínútur yfir 10 um morguninn.

Eftir að daggarmarkið hækkar eftir niðursveifluna snöggu breytist það lítið þar til síðdegis daginn eftir. Við reynum ekkert að skýra þær litlu sveiflur sem eru á þeim tíma. En takið sérstaklega eftir því að aðfaranótt þess 6. er mikið hámark í rakastiginu - eingöngu vegna kólnunar.

Undir kvöld þann 6. (sunnudagskvöld) fer daggarmarkið að hækka. Þá koma ský til sögunnar og raki fer að þéttast og dropar (eða snjóflyksur) detta niður úr skýjunum og í átt til jarðar. Þar gufa droparnir aftur upp og bæta í rakamagnið. Rakastigið getur nú stigið enn hærra heldur en fyrri nóttina og fer hér upp í 90 prósent þegar hæst er. Mun hærra heldur en við sama hita nóttina áður.

Sjöundi og áttundi maí eru að nokkru endurtekning á þeim fimmta og sjötta. Daggarmarkið fellur fyrst talsvert (við blöndun?) en breytist nánast ekkert eftir það fyrr en élið kom nú í kvöld (þriðjudag 8. maí). Þá hækkaði daggarmarkið snögglega þegar snjóflyksurnar gufuðu upp.

Hér höfum við ekkert fjallað um dægursveiflu vindhraðans - en hún er mjög áberandi þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Ég veit að hungudiskar spá ekki, en er mikið að marka langtímaspá www.wetterzentrale.de? Vonandi rætist hún EKKI!

Kv.

Jóhann

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 9.5.2012 kl. 09:30

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú uggir mig og hefi þar um dreymt þunga drauma að sumarið verði svá kalt og hreggjasamt að engir verði  síðdegisskúrir heldur einlæg síðdegisél um allar sveitir og stráin héluð morgun hvern og gjöri alhvíta jörð 33 sinnum í betri sveitum frá Jónsmessu til rétta en á útkjálkum leysi eigi snjó af túnum fyrr en á Mikjálsmessu eftir fardagahretið mikla sem leggst að með fjúki og fannkomu og frostgrimmd sem að vetri væri.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.5.2012 kl. 12:40

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Fleiri en ein langtímaspá birtist á wetterzentrale.de, t.d. bæði frá bandaríksku veðurstofunni (gfs) og evrópureiknimiðstöðinni (ecmwf) - Þeim ber stundum ekki saman þótt báðar séu mjög góðar og oftast treystandi. Báðar miðstöðvar spá nú hreti um helgina og hafa gert það undanfarna daga.

Trausti Jónsson, 10.5.2012 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband