Af sólskini í apríl

Hér er fjallað um hámarkssólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri í aprílmánuði. Sól hækkar nú mjög á lofti og daginn lengir. Upplýsingar eru við höndina um sólskinsstundir í Reykjavík alla daga allt aftur til 1923 og á Akureyri flesta daga aftur til 1949, en þó vantar upplýsingar þar í apríl 1950, 1951 og 1989. Mælingar hafa verið gerðar lengur á báðum stöðum en daglegar tölur hafa ekki verið settar inn í tölvutæka töflu.

Þótt reiknaður sólargangur (og þar með birtutími) sé lengri á Akureyri heldur en í Reykjavík í apríl sýna mælingar samt lægri tölur á fyrrnefnda staðnum. Þetta stafar af nálægð fjalla fyrir norðan. Fjöll stytta líka sólargang í Reykjavík. Þeir sólskinsmælar sem hafa verið notaðir mæla ekki mikið lengri sólskinsstundafjölda en 18 til 19 klukkustundir - því þeir skyggja á sjálfa sig komist sólin í nægilega norðlæga stöðu. Margt miður skemmtilegt getur spillt sólskinsmælingum - en við þykjumst ekki taka eftir því. Höfum þó í huga að mæliaðstæður hafa breyst á stöðunum báðum - stöðvar hafa verið fluttar um set og skráning hefur ekki verið nákvæmlega eins allan tímann.

w-blogg250412

Lárétti ásinn sýnir daga aprílmánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um 12 til 13 klukkustundir í Reykjavík en um 11 til 12 á Akureyri. Við verðum að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er. Smáóregla frá degi til dags bendir þó til þess að gera megi aðeins betur þá daga sem lágt liggja.

Sólskinsstundum fjölgar jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Sé bein lína dregin í gegnum Reykjavíkurferilinn kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi vex um rúmar 6 mínútur á dag, en um tæpar 8 mínútur á dag á Akureyri.

En heiðskírir dagar eru fáir á Íslandi - meira að segja í apríl. Séu skýjahuluathuganir í Reykjavík teknar bókstaflega hefur enginn alveg heiðskír dagur komið þar í apríl að minnsta kosti frá 1949. En þá er miðað við allan sólarhringinn - ekki bara þann tíma sem sól er á lofti. Nokkrir dagar voru nærri því heiðskírir - 21. og 22. apríl 1964, 2. apríl 1999 og 19. apríl 2000. Fimm dagar voru heiðskírir á Akureyri á sama tíma (þar skyggja fjöll ekki aðeins á sól heldur einnig á ský niður undir sjóndeildarhring).

Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga aprílmánaðar? Í Reykjavík væru þær að minnsta kosti 422 en 385 á Akureyri. Við fáum vonandi aldrei að upplifa það - þá væri heimsendir líklega í nánd. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 242,3 í apríl í Reykjavík. Það var árið 2000. Sól skein þá í um það bil 57% af þeim tíma sem hún var á lofti. Meðaltal aprílmánaðar er mun lægra, 140 stundir. Í apríl 2000 gerði einn lengsta samfellda sólskinskafla sem vitað er um í Reykjavík þegar sólin skein í meir en 10 klst 12 daga í röð dagana 14. - 25.

Sólskinskaflinn mikli byrjaði með sérkennilegu norðanskoti þann 14. apríl. Þá skemmdust m.a. 130 bílar af grjótfoki á Selfossi - eigendur þeirra hljóta að muna vel eftir því.

Á Akureyri var apríl 2000 einnig metsólskinsmánuður, þá mældust þar 196,3 sólskinsstundir, meðaltalið er 129,7.

Í algjöru framhjáhlaupi má geta þess að óvenju djúp lægð miðað við árstíma er nú suðvestur af Bretlandseyjum. Þrýstingur er undir 970 hPa í lægðarmiðju. Hungurdiskum hefur ekki tekist að finna nákvæmlega hvert apríllágmarkið er á þessum slóðum. Trúlega er eitthvað niður í aprílmet fyrir England eða Frakkland - en alla vega er þetta nokkuð óvenjulegt. Sömuleiðis er 500 hPa-hæðinni spáð niður fyrir 5160 metra í lægðamiðjunni - og það er ekki venjulegt í apríl á Ermarsundi.

Hér á landi fer þrýstingur niður fyrir 970 hPa í fjórða til fimmta hverjum aprílmánuði að meðaltali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 442
  • Sl. sólarhring: 508
  • Sl. viku: 1868
  • Frá upphafi: 2465563

Annað

  • Innlit í dag: 409
  • Innlit sl. viku: 1684
  • Gestir í dag: 391
  • IP-tölur í dag: 385

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband