Veðurlítið

Nú eru engin stór þrýstikerfi í námunda við landið. Víðáttumikil en frekar grunn lægð er yfir Bretlandseyjum og hæðarómynd einhvers staðar við norðausturströnd Grænlands. Þetta er þó hið eðlilega ástand. Kalda loftið yfir norðurslóðum hefur ekkert aðhald og flæðir suður um. Þar hitnar það um síðir. Leit loftsins að jafnvægi (sem aldrei finnst) veldur þó því að seint verður alveg veðurlaust.

Það gæti meira að segja verið enn minna veður heldur en var í dag, sumardaginn fyrsta. Alltaf er hægt að mala um veðrið - jafnvel þótt það sé lítið.

w-blogg20412a

Þetta er greiningarkort fengið af vef Veðurstofunnar og sýnir veður á landinu kl. 21 að kvöldi fimmtudagsins 19. apríl. Þeir sem vilja geta náð talsverðri stækkun á kortið með því að smella sér inn á það í tvígang. Þá má jafnvel sjá athuganirnar en þær eru ritaðar á kortið eftir reglum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Þríhyrningar sýna sjálfvirkar stöðvar, vindur er í hefðbundnum vindörvum. Hiti er talan efst til vinstri í hring um hverja stöð, en þrýstingur (þar sem hann er mældur efst til hægri). Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er hiti 3 stig og sjávarmálsþrýstingur er ritaður sem 093 en það táknar 1009,3 hPa.

Jafnþrýstilínur eru heilar og svartar og dregnar með 1 hPa bili. Tölvan sem dregur kortið jafnar það aðeins út þannig að mælingar og dráttur falla ekki alls staðar saman. Þrýstingur er lægri sunnanlands heldur en norðan og því ríkir austlæg átt á landinu.

Fáeinum tölum í lituðum hringjum hefur verið bætt á kortið. Við skulum nú fyrir fróðleiks sakir renna okkur í gegnum þær:

1. Hér eru þrýstilínurnar hvað þéttastar á kortinu og vindur trúlega mestur. Þrýstivindur virðist vera um 12 m/s eða 25 hnútar. Hvernig vitum við það? Jú, við teljum línufjölda sem eitt breiddarstig spannar. Þrýstivindurinn í hnútum er þá línufjöldinn sinnum tíu. Hér eru um 2,5 hPa þrýstimunur á breiddarstig og þrýstivindur því um 25 hnútar, deilum í það með tveimur til að fá útkomuna í metrum á sekúndu. Takið eftir því að kortið er ekki endilega rétt dregið.

Þrýstivindur blæs samsíða þrýstilínum en núningur við jörð eða haf veldur því að raunverulegur vindur niður í 10 metra hæð er minni, þriðjungi minni en þrýstivindurinn yfir sjó, en oftast mun minni yfir landi. Núningurinn veldur því líka að áttin snýst þannig að raunvindurinn blæs undir horni á þrýstilínurnar, oftast að minnsta kosti 30 gráðum - stundum alveg þvert á þær.

2. Þrýstilínurnar eru mjög gisnar og ef kortið næði lengra austur myndum við sjá að það er landið sem stendur á móti framrás lofts úr norðaustri, það er stífla. Hún er þó ekki algjör því norðaustanáttarinnar gætir líka á þeim stöðum þar sem talan 3 er sett (þrír staðir).

4. Norðanverðir Vestfirðir valda einnig stíflu og þar með vex norðaustanátt á Grænlandssundi umfram það sem væri ef landið væri Vestfjarðalaust. Í þessu tilviki er áttin svo austlæg að vel má vera að við sjáum alls ekki vindaukann á sundinu - hann gæti verið fyrir utan kortið - eða beint norður af Vestfjörðum.

5. Vestfjarðastíflan veldur því að vindur á Ströndum er beint úr norðri allt inn á Hrútafjörð og sennilega yfir Holtavörðuheiði.

6. Innsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði eru alveg í skjóli fyrir norðaustanáttinni, Tröllaskagi myndar eina stífluna í viðbót. Áttin er þarna suðlæg eða suðaustlæg - sennilega hægur fallvindur frá landi.

7. Mýrdalsjökull veldur líka stífluáhrifum og getur búið til austanstreng undan Mýrdal, Eyjafjöllum og vestur fyrir Vestmannaeyjar. Ekki er að sjá að svo sé í þessu tilviki - kannski lengra frá landi.

8. Hluti Suðvesturlands er í skjóli og vindátt breytileg. Þegar kemur fram á nóttina ræðst vindátt á svæðinu af afrennsli kólnandi lofts yfir landinu. Kannski að norðaustanáttin nái þá alveg til sjávar við Eyrarbakka.

Það er fróðlegt að sjá hvernig reiknimiðstöðin nær þessu í spá fyrir sama tíma. Hún spáir m.a. vind í 100 metra hæð, þar gætir núnings nokkru minna en alveg niður við jörð.

w-blogg20412b

Örvarnar sýna vindátt (og stærð þerra vindhraða) en hraðinn er einnig sýndur með litum. Fjólublái litirnir byrja við 16 m/s. Við sjáum vel strenginn undan Suðausturlandi - kjarni hans er þó talsvert utan við Íslandskortið að ofan. Stíflan við Norðausturland kemur einnig vel fram, vindhraði í norðaustanáttinni byrjar að minnka talsvert frá landi. Vindstrengur er á Grænlandssundi, sé rýnt í myndina má sjá að hann er reyndar tvískiptur, sá hluti sem fer hjá Vestfjörðum er austlægari en sá sem er utar og ræðst meir af stíflu við Grænland. Það er hægviðri inn til landsins í Húnavatnssýslum og Skagafirði og áttin meira að segja suðaustlæg. Sömuleiðis er einhver óregla í vindátt suðvestanlands.

Fleiri smáatriði má sjá yfir landinu og við það - t.d vindstreng yfir Breiðafirði og hraðahámörk yfir hálendinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 886
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband