Átakalítil umskipti

Eftir nær stöðuga suðvestanátt og frekar háan loftþrýsting á nú að skipta yfir í norðaustlægar áttir í nokkra daga. Þegar á heildina er litið munu veðurkerfi halda áfram að koma til okkar úr vestri eða norðvestri en háloftavindar verða mun hægari en verið hefur - ef trúa má evrópureiknimiðstöðinni. Við lítum á spá hennar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar síðdegis á páskadag 8. apríl.

w-blogg080412a

Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Við sjáum líka fáeina bleika iðuflekki - en sinnum þeim lítið. Vindur er mikill þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar t.d. suður af Grænlandi. Yfir okkur eru jafnhæðarlínur fáar og vindur því lítill í miðju veðrahvolfinu.

Svörtu örvarnar sýna hreyfingu háloftalægðarinnar, síðdegis á laugardag var hún suðvestan Grænlands, á sunnudag á Grænlandshafi og á mánudag er henni spáð suðaustur til Skotlands. Hún hefur ýtt hæðinni miklu sem var suðvestur af landinu til austurs og flatt hana út - allt án átaka sem talandi er um.

Lægðarmiðjan er ekki sérlega köld það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem sjá má sem örlítinn hring í miðju lægðarinnar. Þykktin yfir landinu er um 5300 metrar en meðalþykkt í apríl er um 5270 metrar. Ástandið er því ekki mjög fjarri meðallagi árstímans.

En fyrir norðan land er veiklulegur hæðarhryggur og mjög langt bil er á milli jafnhæðarlína. Hins vegar eru jafnþykktarlínurnar miklu þéttari. Þykktarmunur á milli Vestfjarða og Scoresbysunds er um 130 metrar, það eru um 16 hPa. Vegna þess að háloftavindur er nær enginn kemur þykktarbrattinn fram að fullu sem þrýstimunur (og þar með vindur) niður undir jörð. Því er norðaustanstrengur á Grænlandsundi, 15 til 20 m/s. Líklegt er að eitthvað af honum sleppi suður á landið sjálft þegar háloftalægðin fer hjá.

Við sjáum 5160 metra jafnþykktarlínuna í laumast við Grænlandsströnd, nái hún hingað sleppum við ekki við frost - en sólin er farin að hjálpa til.

Við Baffinsland má sjá lítið x sett í miðjan iðuhnút. Þessi litli hnútur á að snúa upp á jafnþykktarlínur vestan við land á þriðjudag. Spár greinir þó á um atriði málsins - enda hnúturinn litill og á eftir að fara yfir Grænland. Þetta verður í öllu falli lítil lægð - en spurning hvort snjóar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Vegna þess að háloftavindur er nær enginn kemur þykktarbrattinn fram að fullu sem þrýstimunur (og þar með vindur) niður undir jörð. Því er norðaustanstrengur á Grænlandsundi, 15 til 20 m/s. Líklegt er að eitthvað af honum sleppi suður á landið sjálft þegar háloftalægðin fer hjá. "

Stundum hefur gert leiðinda þurrakulda á vorin. Eilfífur austanblástur og eiginlega ekkert vor.  Hvaða aðstæður skaða slíkt veður, eitthvað þessu líkt?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 11:18

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, það er rétt Bjarni. staða sem þessi er ein þeirra sem ýtir undir norðaustanþræsinginn á vorin.

Trausti Jónsson, 9.4.2012 kl. 01:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 128
  • Sl. sólarhring: 389
  • Sl. viku: 3620
  • Frá upphafi: 2430667

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 2971
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband