Óvenjulágur loftþrýstingur

Nú í kvöld (þriðjudaginn 6. mars) fór óvenjudjúp lægð yfir Austurland og þrýstingur á Dalatanga fór niður í 947,3 hPa og í 948,8 hPa á Raufarhöfn. Það hefur aðeins fjórum sinnum gerst áður (svo vitað sé) að loftþrýstingur á íslenskri veðurstöð hafi farið niður fyrir 950 hPa í mars. Svo virðist sem lágþrýstingurinn nú lendi í fjórða sæti.

Lágþrýstimet marsmánaðar er reyndar talsvert neðar eða 934,6 hPa og mældist í Reykjavík 4. mars 1913. Hugsanlegt er að loftvogin hafi verið aðeins of lágt stillt, en metdagurinn er efalaus, fleiri stöðvar mældu þrýsting um og undir 940 hPa þennan dag. Næstlægstur varð þrýstingurinn á Keflavíkurflugvelli 22. mars 1994, 942,0 hPa og í þriðja sæti er Höfn í Hornafirði 19. mars 1978 með 946,5 hPa. Það er hins vegar 9. mars 1882 í Stykkishólmi sem gefur fjórða sætið eftir til Dalatangalágmarksins nú.

Fastir lesendur hungurdiska vita að til þess að loftþrýstingur verði mjög lágur þarf mikil þykkt að ganga undir lág veðrahvörf. Þegar líður á veturinn og fer að vora minnka líkur á því að lág veðrahvörf berist út yfir Atlantshaf og þótt þykktin fari smám saman að aukast minnka líkur á samslætti sem gagnast í 950 hPa.

Þetta var þó verulega góð tilraun í dag - mjög öflugur kuldapollur (lág veðrahvörf) á Grænlandshafi og öflug sveigja á heimskautaröstinni útvegaði góða þykkt. Tölvuspár gera reyndar ráð fyrir því að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður í um 940 til 944 hPa í nótt milli Íslands og Jan Mayen. Þetta gæti hæglega verið nýtt marsmet allra tíma á þeim slóðum.

En lítum á hitamynd úr gervihnetti (af vef Veðurstofunnar).

w-blogg070312

Lægðin djúpa er ekki langt norður af Dalatanga, en kuldapollurinn hringar sig á Grænlandhafi. Það sem er sérlega skemmtilegt á þessari mynd er risastórt éljasvæðið sem nær langleiðina frá Labrador og um Atlantshafið þvert til Skotlands. Þarna er vindur mjög hvass á stóru svæði og æsir upp gríðarlegan öldugang og illan sjó. Við sjáum að skýjabreiðan er nærri samfelld vestast, skýin ná þar ekki mjög hátt upp - en verður gisnari - og skýin meiri um sig og hærri eftir því sem austar dregur.

Enga sveipi er að sjá sunnan við meginmiðju kuldapollsins, svæðið allt samfelld kvikuhræra. Allra vestast má ef vel er að gáð sjá skýin raðast í örmjóar en feiknalangar línur sem síðan hverfa þegar blöndunin verður betri eftir því sem austar dregur. Spurning er hvenær og hvort við förum að sjá sveipi  í éljaloftinu. Kuldapollurinn sjálfur veikist heldur en gengur í hringi og miðjunni fylgja greinilega einhverjir bakkar - hvort meira hvessir vestanlands er álitamál. Sumar spár gera ráð fyrir dimmum éljum suðvestanlands en að Vestfirðir sleppi betur.

Þessi mikla stroka af ísköldu lofti úr vestri drekkur í sig varma úr sjónum sem undir er. Evrópureiknimiðstöðin segir að skynvarmaflæðið hér suðvestur af landinu sé 100 til 200 W á fermetra og dulvarmaflæði enn meira. Þeir sem hafa gaman af því að margfalda og fá út stórar tölur geta leikið sér að því að reikna hversu mörg GW koma við sögu. 

Það er svo annað mál hvernig þessi orka nýtist. Skynvarmaflæðið veldur alltént því að hiti fer hér í hafáttinni ekki langt niður fyrir frostmark - dulvarmaflæðið er í formi vatnsgufu sem um síðir þéttist sem úrkoma - trúlega lendir eitthvað af henni í hverflum íslenskra virkjana í sumar eða þá ekki fyrr en eftir hundrað ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 71
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2838
  • Frá upphafi: 2427390

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2541
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband