Á loftvogarvaktinni

Í kvöld (mánudaginn 5. mars) er úrkomusvæði á leið yfir landið. Ofan í það má teikna skil. Þessu fylgir nokkurt hvassviðri - sérstaklega til fjalla. Eins og vera ber féll loftvog á undan kerfinu og nú þegar veður er farið að ganga niður vestast á landinu hefur dregið úr fallinu. En gert er ráð fyrir því að hér suðvestanlands falli þrýstingur um að minnsta kosti 20 hPa til viðbótar næsta sólarhring.

Nútíma tölvuspár sjá til þess a þetta fall kemur ekkert á óvart. Við vitum að ört dýpkandi lægð nálgast suðvestan úr hafi. Fyrir nokkrum áratugum er jafnlíklegt að menn hafi þurft að taka á móti fallinu meira eða minna grunlitlir um ástæðuna - og það er harla óþægilegt. Fyrir 30 árum voru komnar tölvuspár sem stundum dugðu í sólarhringsspár, fyrir 40 árum höfðu menn (stundum) vondar gervihnattamyndir, sömuleiðis mjög gisnar skipa- og háloftaathuganir. Fyrir 50 árum voru heldur engar gervihnattamyndir og fyrir 60 árum bárust veðurskeyti aðallega með loftskeytum - sem stundum náðust ekki vegna sólgosa eða annarra truflana - og fyrir 70 árum var stríð - fyrir þann tíma voru veðurkort yfir hafinu meira eða minna auð.

Þá var mikilvægt að fylgjast vel með loftvog og skýjafari. Til voru menn sem kunnu á hvort tveggja en vissu samt ekki hvernig vindur breytist með hæð í köldu og hlýju aðstreymi og ekki hvers vegna loftþrýstingur er breytilegur. En nú sitjum við og horfum á hundruð veðurkorta á hverjum degi - og höfum fyrir löngu glatað allri nægjusemi.

En lítum á 500 hPa hæðar og þykktarspá sem gildir kl. 18 á morgun, þriðjudaginn 6. mars.

w-blogg060312

Í pistli í gær var fjallað um stungu af köldu lofti inn á Grænlandshaf. Hún heldur áfram til morguns og er ítrekuð á myndinni með blárri ör sem liggur skammt undan Grænlandsströndum og þaðan austur á Grænlandshaf. Þarna má sjá að vindurinn (samsíða svörtum jafnhæðarlínum) liggur nærri þvert á jafnþykktarlínurnar (rauðar strikaðar) og ber kalt loft úr vestri til austurs. Kuldapollur (háloftalægð) hefur grafið sig niður við Grænlandsstrendur.

Af misgengi jafnhæðar- og jafnþykktarlína í kringum miðju pollsins má sjá að hann hefur ekki náð jafnvægi við umhverfi sitt. Við sjáum ofurþéttar jafnþykktarlínur yfir Grænlandi - þær eru ekki allar raunverulegar - (væru inni í jöklinum) en sýna engu að síður hvernig kaldasta loftið kemst ekki yfir. Einhverjar slettur komast yfir sunnan háloftalægðarmiðjunnar, en aðalstraumur kalda loftsins verður að fara suður fyrir.

Öflug lægðarbylgja er skammt sunnan Íslands. Þar er ört dýpkandi lægð á leið til norðausturs. Hún er hér kölluð innleggslægð. Ástæða nafnsins er sú að háloftahringrásin kringum hana er miklu minni um sig heldur en hringrásin i kringum kuldapollinn stóra. Litla bylgjan hreyfist í kringum stóru lægðina. Við þökkum pent fyrir að hún og hann skuli ekki hafa náð betur saman en raun ber vitni.

Loftvogarfallið næsta sólarhring er þó merki um að óðasamruni hafi ekki verið svo langt undan. Falli loftvog mikið vestan og norðvestan við dýpkandi lægðir er það merki um samruna lægðarbylgju og háloftalægðar.

Það er 5160 metra jafnþykktarlinan sem er að flækjast í kringum miðju háloftalægðarinnar en hæð 500 hPa-flatarins við lægðarmiðjuna er 4790 metrar (sannarlega mjög lágt). Hæð 1000 hPa flatarins er því um það bil -370 metrar - sem jafngildir því að þrýstingur við sjávarmál sé um 954 hPa í lægðarmiðju.

Það er 5340 metra jafnþykktarlínan sem liggur í gegnum miðju innleggslægðarinnar. Hefði sú þykkt hefði náð inn í miðju háloftalægðarinnar hefði þrýstingur við sjó farið niður undir 930 hPa. Svona litlu getur munað. Tölvuspár nútímans eiga að höndla þetta - en fyrir nokkrum áratugum hefði enginn verið viss - vonandi erum við það.

En þótt meginhluti landsins eigi að sleppa við hvassviðri það sem fylgir innleggslægðinni er samt talið líklegt að suðaustan- og austanvert landið finni fyrir norðvestanáttinni að baki lægðarinnar. Menn ættu því að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. Svipuð atburðarás hefur nú átt sér stað hvað eftir annað í vetur.

Ef þessi spá gengur eftir verður vindur hægur vestanlands mestallan þriðjudaginn á milli hvassviðra lægðanna beggja. En það gæti hins vegar snjóað. Sumar spár gera síðan ráð fyrir því að kalda gusan sunnan Grænlands og hvassviðrið sem henni fylgir nái til Suðvesturlands á aðfaranótt miðvikudags. Við látum umfjöllun um það bíða - eða þá að við sleppum henni alveg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 71
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2838
  • Frá upphafi: 2427390

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2541
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband