Stunga sunnan Grænlands

Lægðirnar halda víst áfram að ryðjast til okkar úr suðvestri eins og verið hefur í margar vikur. Þær velta þá hver um aðra þvera og komast varla að í látunum. Svo virðist sem þær verstu haldi uppteknum hætti og fari hjá fyrir sunnan og austan land - en ekki er það þó víst. Við lítum nú í tilbreytingarskyni á spákort sem sýnir ástandið við veðrahvörfin síðdegis á mánudag (5. mars).

Litir og tölur á kortinu sýna mættishita í veðrahvörfunum. Við skulum ekkert vera að hafa áhyggjur af því hugtaki - það er ekki það sem skiptir máli - heldur það að allgott (þó ekki alveg eingilt) samband er á milli hans ágætis, mættishitans, og hæðar veðrahvarfanna. Við látum því sem að þetta sé veðrahvarfahæðarkort.

w-blogg050312

Gulu og brúnu litirnir sýna há veðrahvörf en þeir bláu fylgja lágum. Því dökkblárri sem liturinn er því neðar liggja veðrahvörfin. Þar sem bláir litir og gulir liggja þétt saman má líklega finna aðsetur heimskautarastarinnar. Til að auðvelda úrlestur myndarinnar hafa nokkrar örvar verið settar inn á hana. Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en kortið nær frá Ameríku í vestri (til vinstri) og inn á Evrópu til hægri.

Stóra, rauða, örin sem liggur til norðausturs skammt austan Nýfundnalandi markar nokkurn veginn stöðu heimskautarastarinnar og skotvinds hennar. Við sjáum að gulu litirnir sunnan og austan við hana liggja í bogadregnum borðum fyrst meðfram röstinni, en síðan til suðausturs og suðurs. Lengst til vinstri er dálítil lægðasveigja á borðunum en síðan fara þeir í eindregna hæðarbeygju. Okkur sýnist sem ræmurnar rúlli áfram til austurs eins og belti á jarðýtu - og það gera þær.

Skammt norðan við er minni röst, hvítmerkt á myndinni. Hún liggur í jaðri kuldapollsins mikla sem er búinn að ráða ríkjum vestan Grænlands um nokkurt skeið. Hann er að ná stungu af lágum veðrahvörfum inn á Grænlandshaf. Áberandi lægðarbeygja er á bláu borðunum í suðurjaðri kuldapollsins og ekki síst i stungunni. Austasti krókur stungunnar tilheyrir lægð á Grænlandshafi sem á að valda sunnanillviðri hér á landi á mánudagskvöld.

Suður af Grænlandi er talsverð gerjun i gangi. Þar mætir hæðarbeygja heimskautarastarinnar lægðarbeygju kuldapollsins. Hæðarbeygjan hefur betur - en ný og öflug lægð fylgir í kjölfarið. Þessi nýja lægð nær sér þó ekki á strik fyrr en á eftir hæðarbeygjunni. Lægðarbeygjan aftan hryggjar mætir lægðarbeygju stungunnar. Það virðist þýða að nýja lægðin fer ekki vestan Íslands heldur sunnan- og austanvið. Spár eru reyndar ekki sammála um hvernig eða hvenær dýpkunin verður mest - hvort landið sleppur alveg (eins og svo oft að undanförnu) eða hvort hluti þess verður fyrir.

Hér má ekki heldur láta hjá líða að benda á hæðabeygjuna miklu yfir Grænlandi - þar sem þrjár rauðar örvar eiga að tákna að þar er loft að breiða úr sér við veðrahvörfin - eins konar skjöldur (eða sveppur) sem ruðst hefur yfir lág veðrahvörf kuldapollsins og hálfdrepið lægðarbeygju hans.

Jæja - hvernig fer svo með lægðirnar? Fyrst er það mánudagslægðin - hún virðist nokkuð gefin með sína sunnanátt - en sú á þriðjudagskvöld er mun óvissari. Nær útsynningurinn sér upp á Vesturlandi eftir að hún er farin hjá?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 72
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 2839
  • Frá upphafi: 2427391

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 2542
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband