Átján lægðir á 29 dögum (jafnvel fleiri)

Nú er febrúar lokið - hann var hlýr um land allt. Mikil úrkoma var um landið sunnanvert og órólegt veðurlag. Að minnsta kosti átján lægðir eða lægðardrög fóru framhjá landinu á 29 dögum mánaðarins - um það bil tvær lægðir á hverjum þremur dögum.

Þetta er örugglega óvenjumikið - en talsvert verk er að leita uppi ámóta mánuði - eða að finna einfalda leið til að negla þá. Nokkrir mánuðir eru þó grunaðir - en ekkert er látið upp um það að sinni hverjir þeir eru.

En hvernig var talið að þessu sinni? Aðferðin er auðvitað ekki skotheld og þar að auki gamaldags. Notast var við línuritið hér að neðan.

Þrýstingur

Það sýnir lægsta loftþrýsting hverrar klukkustundar á sjálfvirku stöðvunum á landinu allan mánuðinn. Síðan voru lágmörkin í línuritinu fundin og tala sett við hvert þeirra. Talin voru 18 lágmörk. Sé rýnt í ritið má finna enn fleiri lágmörk - kannski voru lægðirnar 21. Ámóta línurit voru líka gerð fyrir hæsta þrýsting hverrar klukkustundar, meðalþrýsting og einnig var gert línurit sem sýndi lágmarksþrýsting á mönnuðu stöðvunum á þriggja stunda fresti. Talning lágmarka hvers þessara atriða gaf tölu á bilinu 18 til 21.

Það vekur athygli að lægsti þrýstingur mánaðarins var ekkert sérstaklega lágur, 969,1 hPa, - en heiðarlegt samt. Flestar lægðirnar voru ekki sérlega kröftugar, einna mest var sú númer fimm. Af línuritinu má ráða að þær hafa flestar verið smáar um sig.

Lítið var um útbreidd illviðri í mánuðinum - oft hvessti verulega í einstökum landshlutum en ekki um land allt. Það var helst lægð númer 5 sem skar sig úr hvað þetta varðar.

Við skulum einnig líta á mynd sem sýnir bæði meðalvindhraða hverrar klukkustundar og mun á hæsta og lægsta þrýstingi klukkustundarinnar.

w-blogg010312

Blái ferillinn sýnir mismun hæsta og lægsta þrýstingsins og sá rauði meðalvindhraða. Veðrið þann 7. sker sig úr. Þá varð þrýstimunurinn mestur, nærri 26 hPa og meðalvindhraði á landinu (hálendið með) var 16 m/s - sem er ansi mikið.

Við sjáum að hámörk og lágmörk ferlanna fylgjast vel að. Hér má telja hámörk til að leita að lægðakerfum, útkoman er svipuð og á fyrri mynd - ef sá sem telur er ekki allt of smámunasamur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En að lifa þennan mánuð í Reykjavík, svona hlýjam og snjólétt,  eftir snjóatíðina gerir hann að alveg sómamánuð  þrátt fyrir þessar lægðir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.3.2012 kl. 07:34

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Einkunnalega séð var hann alveg í meðallagi hjá mér. Hlýindin höluðu inn mörg stig en rigningar drógu einkunnina niður. Svo hefur veðurdagbókin ekki áður upplifað eins mikla tíðni suðvestanátta og núna í febrúar. Norðanáttin var hinsvegar í núlli.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.3.2012 kl. 22:51

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tíðin hér austur á fjörðum var köld og hryssingsleg í tvo mánuði, fram að þorra. Snjór og hálka flesta daga, en þorrinn allur eins og hann lagði sig var alveg með ágætum og góan líka fyrir utan fyrstu dagana. Guð blessi gróðuhúsaáhrifin

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.3.2012 kl. 00:15

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Alltaf er gaman að heyra frá mönnum sem hafa tilfinningu fyrir tíðarfarinu - þeir ná að segja sannleikann á skiljanlegan hátt.

Trausti Jónsson, 2.3.2012 kl. 01:24

5 Smámynd: Sigurður Antonsson

Suðvestanáttir ríkjandi hér við Faxaflóa. Óvenju snarpar undanfarna daga. Þar er ég sammála Emil. Við Reykjanesið og á Miðnesheiði er oft helmingi meiri vindhraði en í Heiðmörk og við Reykjavík. Keflavíkurflugvöllur er óvenjulegur að þessu leyti og vitanlega hafa veðurfræðingar ekki verið spurðir álits þá er hann var byggður. Haraldur veðurfræðingur, sem oft er á skjánum hefur gert rannsókn á þessu fyrirbæri. Gaman væri að sjá skýrslu hans á netinu og vita meir um vindafar hér við flóann.

Held að flestir geri sér ekki grein fyrir því hve mikið trjágróður gæti dregið úr vindhraða. Inn í skóginum við Vífilstaðahlíð er auk þess alltaf hlýrra en utan hans.

Sigurður Antonsson, 2.3.2012 kl. 20:24

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Sigurður A. Nú eru loksins farin að sjást gerðarleg tré í görðum í Keflavík - vonandi vaxa þau enn á næstu áratugum. Hugsanlegt er að ritgerð Haraldar liggi einhvers staðar á netinu - ég finn hana ekki í fljótu bragði.

Trausti Jónsson, 3.3.2012 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 694
  • Sl. viku: 3764
  • Frá upphafi: 2428595

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 3361
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband