Þurrt loft frá Grænlandi svífur yfir landið

Í dag (sunnudag) fór mjög þurrt loft ofan af Grænlandi yfir landið. Málið er þó ef til vill ekki alveg svo einfalt - hugsanlega var þurrkurinn líka tengdur bröttum hæðarhrygg sem fór hjá í háloftunum. En við látum það liggja á milli hluta. En lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um rakastig í 925 hPa-fletinum kl. 18 í dag, en flötur sá er oft í um 600 metra hæð yfir sjó - snertir því fjalllendi Íslands.

w-blogg060212

Áður en við förum í rakann verðum við að afgreiða í stuttu máli það sem er mest áberandi á myndinni - lituðu svæðin. Þau sýna dulvarmaskipti við yfirborð jarðar (aðallega sjávar reyndar). Þar sýna rauði og bleiki liturinn svæði þar sem raki (og þar með dulvarmi) berst úr sjó til lofts en sá græni sýnir hið gagnstæða. loft skilar dulvarma til yfirborðs (ekki er ólíklegt að þar sé í þessu tilviki þoka eða súld). 

Tölurnar eru í wöttum á fermetra, býsna stórar eins og vill verða á þessum árstíma - en geta þó orðið mun hærri. Á þessu korti má sjá smásvæði með meira en 200 W á fermetra. Trúlegt er að einhvern tíma fyrir vorið fáum við að sjá talsvert hærri tölur. En á kortinu má einnig sjá örvar sem sýna vindstefnu.

Þar eru einnig svartar, heildregnar línur. Þær ystu afmarka svæði þar sem rakastig er innan við 60%, síðan eru dregnar jafnrakalínur fyrir hver 10% þar neðan við. Svo ótrúlegt sem það er sjáum við línur allt niður í 10%. Á kortið hafa verið settir fjórir gulir blettir sem benda eiga á rakalágmörk (þau eru fleiri). Athugið að undan norðausturlandi er allstórt svæði þar sem rakastigið er yfir 60% umkringt af lægri jafnrakalínum.

En rakastig breytist mjög með hæð frá jörðu og er gjarnan hærra neðst þar sem loftið er i snertingu við raka jörð (eða haf) heldur en aðeins ofar. Þess er því varla að vænta að rakastig á veðurstöðvunum fari jafnlangt niður og hér er sýnt.

En þó var það þannig í dag (sunnudag) að rakastig datt niður um tíma á allflestum veðurstöðvum landsins. Mismikið, en austanlands (þar sem niðurstreymi hjálpar til) fór að víða vel niður fyrir 30%. Sem dæmi um það getum við litið á rakastigið í dag á Fáskrúðsfirði (línurit af vef Veðurstofunnar).

w-blogg060212b

Þar var lægsta rakastig dagsins rétt rúm 20%. Rakaspá reiknimiðstöðvarinnar reyndist furðugóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2382
  • Frá upphafi: 2434824

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2113
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband