Austanhafs og vestan - ólíkt hefst veðrið að

Við lítum til gamans á spá bandarísku veðurstofunnar um hitavik næstu sjö daga í Evrópu og í Kanada. Þar blasir ólík mynd við. Tengillinn sem hér fylgir bendir á upphafssíðu þar sem hægt er að velja á milli ámóta korta fyrir aðskiljanlega heimshluta. Þau endurnýjast tvisvar á dag. Vikasamanburðurinn miðar við gögn Climatic Research Unit í Bretlandi fyrir mánuði í heild - en ekki viðkomandi sjö daga tímabil. Meðaltalsgögnin hafa verið reiknuð í ferninga - eins og sjá má á kortunum. Fyrst er það Evrópa.

w-blogg310112a

Kuldi ríkir um alla álfuna og er hitinn allt að 8 til 10 stigum undir meðallagi. Nyrst í Skandinavíu er svæði þar sem hita er spáð yfir meðallagi og svo er einnig á Íslandi. Hitt kortið gildir fyrir sama tíma í Kanada og Alaska.

w-blogg310112b

Hér kveður við annan tón og hiti er ámóta yfir meðallagi á stóru svæði og hann var undir því í Evrópu. Enn er þó kalt í Alaska og á svæðum við Kyrrahafsströndina. Eins er gert ráð fyrir því að hiti verði undir meðallagi á Suður-Grænlandi.

En þetta er allt miðað við meðallag. Í raun og veru er hlýrra í Vestur-Evrópu heldur en í Norður-Kanada hvað sem litirnir segja. En þetta er ástand sem taka má eftir.

Þegar hlutirnir eru á óvenjulegu róli lítur ritstjórinn oft á heimasíður veðurstofa í viðkomandi landi. Þó verður að játa að tungumálakunnátta hans er með þeim hætti að varasamt má telja þegar hún blandast saman við alræmt en skapandi misminni. Finna má lista um vefsíður veðurstofa um heim allan á vef Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (alltaf jafngaman að skrifa nafn hennar). Sömuleiðis má sjá veðurviðvaranir næsta sólarhrings í Evrópu á meteoalarm.eu. Þar má nú sjá viðvaranir um kulda, snjó og hálku um mestalla álfuna.

Sé vefsíðum nágrannalandanna flett má m.a. sjá umfjöllun um merkilegt veðurmet í Nýja-Álasundi á Svalbarða á vef norsku veðurstofunnar (met.no). Þar mældist sólarhringsúrkoma að morgni 30. janúar 98 mm. Mun þetta það mesta sem sést hefur í nokkrum mánuði þar á bæ frá upphafi mælinga. Þetta er sama hlýja loftið og kom við hér á landi núna um helgina (28. og 29. janúar).

Hjá sænsku veðurstofunni (smhi.se) er bent á að loftþrýstingur í Haparanda nyrst í Svíþjóð hafi á sunnudag (29.1.) mælst 1057,0 hPa, það hæsta í 40 ár í Svíþjóð en þrýstingur á sama stað fór í 1059,9 hPa 30. janúar 1972. Einnig segir þar að hæsti loftþrýstingur sem mælst hafi í Svíþjóð sé 1063,7 hPa. Það var 23. janúar 1907 á Gotlandi og í Kalmar.

Sænska veðurstofan býst ekki við góðu næstu daga. Svíar eiga við sérstakt vandamál að eiga í þessari stöðu - þegar ískalt loft blæs frá Rússlandi yfir ófrosið Eystrasaltið. Þá gufar mikið upp úr sjónum og fellur síðan í miklum éljum við Svíþjóðarstrendur. Í spá þeirra í dag var orðið „snökanon“ notað. Fletti maður upp á því kemur fram að átt er við samfelldar éljagarðalengjur sem liggja samhliða vindáttinni yfir Eystrasaltið og er sem þær haldi uppi samfelldri snjóskothríð á ákveðin svæði við Svíþjóðarstrendur - rétt eins og um fallbyssuskothríð væri að ræða. Íslenskt heiti vantar.

Hjá dönsku veðurstofunni er fyrirsögnin: „Sibirisk bekendtskab sender Danmark i dybfryseren“ - kunningi frá Síberíu sendir Danmörku beint oní frystikistuna - eða hvað?

Hjá finnsku veðurstofunni stendur: „Pakkanen voi aiheuttaa riskiryhmille terveysongelmia“ - ekki gott að giska sig í gegnum þetta, en óhætt mun að upplýsa að þetta á ekki við um allt landið - eða hvað?

Vestur í Kanada steðja önnur vandamál að í „hlýindunum“. Aðvörun er gefin út fyrir nokkur spásvæði í Manitoba: „Freezing rain is expected today and this evening“ - frostrigningar er að vænta ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mætti kalla snökanon snjólestir á íslensku?

Þorbjörn (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 03:24

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það lýsir skýjalestunum alla vega vel.

Trausti Jónsson, 1.2.2012 kl. 00:49

3 identicon

Samkvæmt google translate þýðir „Pakkanen voi aiheuttaa riskiryhmille terveysongelmia“
"Frost getur valdið heilsufarsvandamálum í að minnsta áhættuhópum".

Guðrún Nína (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband