Bylgjuskipti

Algengast er að stóru bylgjurnar í vestanvindabeltinu hreyfist ákveðið til austurs. Undanfarna daga höfum við verið í bylgjudal, svo breiðum að heimskautaröstin hefur haldið sig langt sunnan við land og gripið þar allar marktækar lægðir og flutt austur til meginlands Evrópu. Nú sækir ný bylgja fram úr vestri og ýtir þeirri gömlu til austurs, úr sögunni hjá okkur. Hæðarhryggur fer á undan nýju bylgjunni eins og sést á myndinni hér að neðan.

w-blogg171211

Þetta er spá um hæð 300 hPa-flatarins yfir Norður-Atlantshafi og gildir laugardaginn 17. desember kl. 18. Jafnhæðarlínur (svartar) sýna hæð flatarins í dekametrum. Lægst er staðan við kuldapollinn mikla sem er í sínu uppáhaldsbæli við Baffinsland, um 8116 metrar. Hæst er hún rúmir 9,5 km við Asóreyjar. Heimskautaröstin ólmast þarna á milli. Hún er með tætingslegra móti á kortinu en nær sér fljótlega á strik aftur. Litakvarðinn sýnir vindhraða í röstinni.

Hæðarhryggurinn er merktur með rauðum strikalínum. Lengst til vinstri (f - fyrir föstudag) má sjá stöðu hans á föstudag kl. 18. Miðlínan sýnir stöðu hans á kortinu (laugardag) og línan lengst til hægri sýnir hvar honum er spáð á sunndag kl 18. Þá verðum við komin í suðvestanáttina vestan við hrygginn.

Tölvuspár hafa undanfarna viku verið nokkuð sammála um að hryggurinn fari yfir landið á laugardag og virðist það vera að rætast. Afskaplegt ósamkomulag hefur hins vegar verið um veðurlagið sem fylgir á eftir honum. Þar vilja að minnsta kosti fimm styttri bylgjur ryðjast fram hver á fætur annarri. Langt fram eftir liðinni viku var búist við því að bylgja númer tvö yrði að afgerandi lægð sem spáð var til norðausturs fyrir vestan land - en síðan kom sú skoðun fram að númer þrjú myndi trufla hana svo að hún straujaðist fyrir sunnan landið og kæmi lítt við sögu. 

Hver spá á fætur annarri segir nú misjafnar sögur og engin leið að gera hér grein fyrir því öllu. Meirihluti spánna er þegar þetta er skrifað efins um að nokkuð marktækt komi út úr þessum bylgjugangi - nema að enn sem fyrr skuli sótt með illviðrum að Vestur-Evrópu. Rætist það heldur kuldinn hér einfaldlega áfram - með smáhléi við fyrstu smábylgju á sunnudag. Jólaveðrið er því enn óráðið.

Kuldapollurinn stóri bíður átekta um sinn en vísast er rétt að gefa honum auga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband