Skammdegismyrkrið sækir að

Pistill dagsins er hluti pistlaraðar um mesta mældan sólskinsstundafjölda í Reykjavík og á Akureyri. Sams konar pistlar hafa birst á hungurdiskum um sólskin í september og október. Myndin sýnir hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur á hverjum degi í nóvember í Reykjavík og á Akureyri. Árin sem notuð eru til viðmiðunar eru 88 í Reykjavík, frá 1923 til 2010, en 60 á Akureyri. Þar byrjar röðin sem miðað er við 1951. Sólskinsstundamælingar hófust á Akureyri 1925 en fáein ár á stangli vantar inn í röðina. Auk þess eru daglegar mælingar ekki aðgengilegar á stafrænu formi nema frá 1951.

Nú verður að hafa í huga að engin fjöll eru í almanakssólargangi og því síður húsbyggingar eða aðrir tilviljanakenndir skuggavaldar. Auk þess verða lesendur að vita að ýmislegt miður skemmtilegt getur plagað hefðbundnar sólskinsstundamælingar og úrvinnslu þeirra. Hungurdiskar gefa ekki út heilbrigðisvottorð á þessar mælingar - en við vonum þó að lítið sé um villur.

Þegar mælingar hafa verið gerðar um áratuga skeið eru allmiklar líkur á að einhver nærri því heiðskír dagur sé inni í mælingaröðinni. En lítum á myndina.

w-blogg211111a

Lárétti ásinn sýnir daga nóvembermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi um sjö stundir í Reykjavík en um 5 stundir á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.

Sólskinsstundum fækkar síðan jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Munur á stjarnfræðilegum sólargangi í Reykjavík og á Akureyri vex þegar líður á mánuðinn, en munum að fjöll skyggja mun meira á fyrir norðan heldur en syðra.

Sé leitnin reiknuð á rauðu Reykjavíkurlínuna kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi minnkar um 3 klukkustundir yfir mánuðinn allan eða 6 mínútur á dag. Þetta er svipað og í október. Á Akureyri lækkar hámarkið um rúmlega fjórar og hálfa klukkustund, eða átta og hálfa mínútu á dag. Sá tími sem sól skin lengst á Akureyri í lok mánaðarins er kominn niður í eina klukkustund. Í framhaldinu fer að muna um hvar mælingarnar eru staðsettar í bænum. Hvar á Akureyri er sólarlausi tími ársins stystur? Hvar er hann lengstur?

Og við spyrjum svipaðrar spurningar og við gerðum í október: Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga nóvembermánaðar? Í Reykjavík væru þær 173, en 100 á Akureyri. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 79,2 í nóvember í Reykjavík. Það var í þeim kalda en bjarta nóvember 1996. Við sjáum að sólin hefur þá skinið rúmlega 45% þess tíma sem hún var á lofti. Meðaltalið er mun lægra, 38,6 stundir. Einhvern tíma í framtíðinni bíða sólríkari nóvembermánuðir - þar gæti 100 stunda mánuður hæglega leynst.

Fæstar hafa sólskinsstundir í nóvember í Reykjavík orðið 4,6 - harla lítið það. Þetta gerðist í nóvember 1956 - hlýjum sunnanáttamánuði. Þá mældust 12,3 sólskinsstundir á Akureyri.

Fæstar mældust sólskinsstundirnar á Akureyri í nóvember 1997, 3,2. Nóvember 1937 er sá sólríkasti þar á bæ. Þá mældust 30,9 stundir. Meðalsólskinsstundafjöldi á Akureyri í nóvember er 14,3,

Mjög sjaldan er heiðskírt í nóvember, þó má frá 1949 finna tvo alveg heiðskíra daga í þeim mánuði í Reykjavík. Það var þann 13. 1949 og þann 16. 1965. Nóvember 1965 var merkilegur háþrýstimánuður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta. Eins og Trausti kemur inn á, þá getur munað talsverðu hér norðan heiða hvar maður er staddur í viðkomandi héraði hvað sólargangur er langur. Hér á Sauðárkróki minnir mig að sólin sjáist ekki frá 12. des. til 29. des., en hér handan fjarðar, á Hofsósi, hverfur hún aldrei. Þarna er auðvitað ekki gert ráð fyrir skýjafari. Skagafjörður er reyndar talsvert víðari en Eyjafjörður og fjöll lægri til landsins, en þar kemur líka til sá mismunur, að Skagafjarðarhérað liggur í NNV-SSA stefnu, en Eyjafjarðardalurinn sem slíkur heldur vestan við suður.  

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 21.11.2011 kl. 05:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka fróðleikinn um Sauðárkrók Þorkell. Hér má benda á skemmtilega ritgerð Bjarna E. Guðleifssonar sem hann kallar Forsælu og birtir í þriðja hefti Náttúruskoðarans (2007). Áhugamenn um náttúrufræði ættu að gefa ritaröð Bjarna gaum - þar leynist margur fróðleikurinn.

Trausti Jónsson, 22.11.2011 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 1339
  • Frá upphafi: 2455665

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1199
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband