Gírskipting framundan? Litið á norðurhvelið

Að undanförnu hefur landið verið undir náðarvæng háþrýstisvæðis yfir Norðursjó og nágrenni. Það hefur fært okkur mikil hlýindi - oftast meira að segja undir hæðarsveigðum háloftavindum. Sunnanáttin hefur því fært okkur loft sem legið hefur ofan á Golfstraumnum og Bretlandseyjum.

Nú er sótt að hæðinni og hún virðist ætla að hörfa til austurs - alla vega í bili. Við lendum þá strax inn í lægðarsveigðri sunnanátt en hún er af vestrænum uppruna - loftið komið frá svæðum sunnan Grænlands. Vel má vera að hingað komi síðar í vikunni loft sem komið er frá köldu Kanada, en það verður þá hitað upp að neðan og orðið óstöðugt þegar hingað er komið. Ef hæðin hörfar enn gæti gengið í alvarlega norðanátt í kjölfarið - og þá með vetrarveðri. En það er allt saman í óljósri framtíð.

En við lítum á kort frá evrópsku reiknimiðstöðinni. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins eins og henni er spað á mánudaginn 21. nóvember.

w-blogg201111

Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en vegna hinna er rétt að koma hér með fastan kynningartexta: Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, syðri mjóa rauða línan sýnir hæðina 5820 metra en sú nyrðri merkir 5100 metra. Sú fyrrnefnda er að nokkru komin suður úr kortinu, en 5100 metra línan faðmar nú allt heimskautasvæðið vestanvert og nær nærri því til Íslands.

Sterkasti kuldapollur norðurhvelsins er yfir Norður-Alaska. Mér sýnist innsti blái hringurinn vera 4920 metra jafnhæðarlínan. Þykktin þar er öllu ískyggilegri, 4800 metrar. Þarna horfumst við í augu við vetur konung.  

Heil lest af lægðabylgjum er nú á leið til austurs yfir Norður-Ameríku og sú fyrsta komin hingað til lands. Ekki er ótrúlegt að allar þessar bylgjur fari hjá Íslandi næstu viku eða svo. Þetta eru stuttar bylgjur á viðeigandi hraðferð.

Hvernig lægðirnar verða sem þær bera með sér þegar hingað (eða yfir Bretlandseyjar) kemur er ekki gott að segja á þessu stigi málsins. Til að vaxa mikið þurfa þær aðgang að hlýju lofti að sunnan eða hæfilega stórum kuldapollum úr norðvestri.

Kuldapollurinn (háloftalægðin) sem er yfir Davíðssundi á myndinni er rétt að ná sér á strik og óvíst að hann láti nota sig sem bylgjulægðafóður (þótt hann sé nægilega djúpur til þess). Sumar langtímaspár flytja hann austur fyrir Grænland undir vikulok. Ef svo fer gæti norðanskot með frosti komið í kjölfarið.

Líklegra lægðafóður er við bylgjuna suðlægu, þá sem merkt er B á myndinni. Austan hennar er hæg sunnanátt sem lægðir á hraðri austurleið gætu gripið með sér og étið. [Við yfirlestur kom í ljós að B-ið hefur fallið af myndinni - það á að vera þar sem 5820 metra jafnhæðarlínan tekur á sig sveigju yfir Atlantshafinu miðju].

Hlýindin eru sem sagt í hættu - hiti fer líklega niður undir meðallag. Það er nálægt +1°C á þessum tíma árs (1,1°C í Reykjavík). Þá gæti hvítnað. En frost að ráði bíður annað hvort nokkurra bjartra daga - eða alvöru norðanáttar. Veðurnördin fylgjast með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg301124b
  • w-blogg301124b
  • w-blogg301124a
  • hveradalir-skidaskeyti-bls1
  • hveradalir umferd visir 1930-01-07

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 53
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 1143
  • Frá upphafi: 2416322

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 969
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband