Vanmetin hætta?

Þrumuveður eru algeng í íslenskum kvikmyndum, svo algeng að ritstjóri hungurdiska fer stöðugt hjá sér við að horfa á ósköpin. Væri raunveruleg tíðni veðranna eitthvað í átt við það sem er í myndunum, ja - illt væri í efni. En þetta er nú aukaatriði, reyndar er hætta af þrumuveðrum heldur vanmetin hér á landi og ábyggilega til baga. Kannski að kvikmyndirnar séu bara heppileg áminning því eldingar hafa valdið manntjóni og skepnudauða hér á landi auk þess sem allmargir sveitabæir hafa brunnið til kaldra kola af þeirra völdum í áranna rás. Á síðari árum er tjón á raflínum, rafbúnaði og fjarskiptatækjum ómælt. Tjóntölur eru þó sjaldnast birtar - en tjónnæmi er miklu meira í tölvuumhverfi nútímans heldur en áður var. Ekki er vitað til þess að langtímabreytingar hafi orðið á tíðni þrumuveðra hérlendis - en þó gæti það vel verið.

Þrumuveður eru langalgengust yfir háveturinn en einnig er annar tíðnitoppur í fáeinar vikur að sumarlagi. Margar mismunandi tegundir þrumuveðra koma við sögu. Sú saga er allt of löng til að hún verði sögð undir nótt á föstudagskvöldi. Lesendur eiga það bara inni. En ágætt er samt að nefna þrjú tjóntilvik í októbermánuði - til áminningar. Þau eru auðvitað mun fleiri - sérstaklega tjón á rafkerfum.

Þann 25. október 1995 (já, Flateyrarveðrið rétt einu sinni) eyðilagðist fjarskiptastöð á Húsavíkurfjalli af völdum eldingar.

Þann 26. október 1969 gekk mikið þrumuveður yfir landið vestanvert, þess gætti mest í Borgarfirði. Eldingum sló niður í símalínur, símtæki splundruðust og símastaurar brotnuðu. Íbúðarhúsið í Brúsholti í Flókadal skemmdist mikið í bruna eftir að eldingu sló niður í það.

Að morgni 10. október 1890 sló eldingu niður í fjárhús á Bjólu í Rangárvallasýslu, þakið sviptist af húsinu, sem talið var 60 kinda og annar gaflinn hrundi. Skepna var engin inni.

Kannski er hægt að troða þessum atvikum inn í kvikmynd? En kvikmyndaleikstjórar hafa það sér til afsökunar í þessu máli að mjög erfitt er að kvikmynda vond veður á trúverðugan hátt. Venjuleg rigning sést bara ekki - þá þarf að setja leikara undir tilbúið sturtubað til að eitthvað sjáist, vindur er ekki heldur auðveldur - hann sést svo illa. Hávaði og glampar í þrumuveðri komast hins vegar vel til skila.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Vond veður eru greinilegt vandamál í íslenskum kvikmyndum eins t.d. sturtubunuregn í bjartviðri eða þegar skiptist á heiðríkja og dumbungur í sömu senu. En það er nú svona að vera sífellt að pæla í veðrinu. En ekki er það nú skárra að vera upptekinn af staðháttum og þurfa að ergja sig á að flakkað sé á milli landshluta út og suður eftir því hvað lúkkar best hverju sinni.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.10.2011 kl. 23:51

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En hvernig ætli bíóþrumuveður sé búið til?

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.10.2011 kl. 00:52

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég hef lengi verið með augun á bíóveðri, allt frá því að ég fór að taka eftir einkennilegu skýjafari í viltavestursmyndum á 7. áratugnum. Árstíðasveiflur eru einnig með ólíkindum í sumum myndum, jafnvel þeim rándýru. En áformuð ritgerð um þessi mál er ein af mörgum sem aldrei verða, frekar en sú um veðurfarsbreytingar í íslenskum eldhúsrómönum. Ekki veit ég hvernig þrumugerðarmenn athafna sig í kvikmyndum nú á dögum, en var ekki vaninn að nota gömlu leikhúsaðferðina, magnesíumduft og blikkplötu?

Trausti Jónsson, 16.10.2011 kl. 01:45

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þrumuveður er búið til þannig að fyrir ljósbjarmann er notaður (HMI)kastari með rimlum eða svokölluðum hlöðudyrum framaná. Þessar dyr eru svo opnaðar og lokað með skrikkjum til að fá flassið. Regnið er gert með rörum sem standa 6-8m lóðrett upp í loftið utan ramma. Við opið á rörinu er svo plata sem splundrar og dreifir vatnsbununni.  Rigning sést ekki nema að lýst sé í hana og dropastærðin þarf að vera talsvert meiri en gengur og gerist til að hún "teikni" sig.  Oftast er þetta bara þunn slæða á milli þess sem myndað er og myndavélarinnar.  Þrumur eru settar inn síðar í hljósetningunni og er hægt að fá þær í allavega tóntegundum á diski.  Eldingar eru einnig gerðar í eftirvinnslu. Ég held ég fari rétt með að í gamla daga hafi menn bara rispað filmuna til að fá þennan effekt.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2011 kl. 11:14

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Jón Steinar, ég þakka fróðleik um nútímaþrumuveður í kvikmyndum.

Trausti Jónsson, 18.10.2011 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125a
  • w-blogg130125f

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 469
  • Sl. sólarhring: 530
  • Sl. viku: 2372
  • Frá upphafi: 2432911

Annað

  • Innlit í dag: 414
  • Innlit sl. viku: 2002
  • Gestir í dag: 383
  • IP-tölur í dag: 368

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband