Mesti vindhraði í október

Nú skal litið á mesta vindhraða sem mælst hefur í októbermánuði. Með tilkomu sjálfvirku stöðvanna fjölgaði mjög athugunum á vindi. Margar stöðvanna hafa nú athugað í 12 til 15 ár. Við lítum fyrst á topp 10 lista yfir mesta 10-mínútna meðalvindhraða sjálfvirku stöðvanna. Allar tölur eru í metrum á sekúndu. Taka skal fram að hér er einungis listi yfir mesta vindhraða á hverri stöð um sig. Víst er að háfjallastöðvarnar eiga fleiri gildi hærri heldur en 36.6 m/s. En listi þar sem Skálafell og Gagnheiði eru í flestum sætum er ekki eins skemmtilegur.

byrjarsíðastmetármetdagurmetnafn
199620101996652,1Skálafell
1994201019952548,8Þverfjall
1994201020091045,6Gagnheiði
200420102009944,6Stórhöfði sjálfvirk stöð
1997201020082441,3Rauðinúpur
1999201020021138,2Vatnsskarð eystra
199320102009937,4Jökulheimar
1993201020061437,4Sandbúðir
200220102009937,1Botnsheiði
2004201020041936,6Bláfeldur sjálfvirk stöð

Skálafell er hér sem oftar á toppnum, í þetta sinn með 52,1 m/s þann 6. október 1996. Þá fór ört dýpkandi lægð yfir landið og foktjón varð víða. Hið illræmda veður sem olli snjóflóðinu mikla á Flateyri 1995 skipar annað sæti á listanum. Mælingin er frá Þverfjalli vestra. Næstu tölur þar fyrir neðan eru einnig frá stöðvum sem þekktar eru fyrir mikinn vindhraða, Gagnheiði, Stórhöfði, Rauðinúpur og Vatnsskarð eystra.

Bláfeldur í Staðarsveit er fyrsti fulltrúi sveita landsins. Veðrið 17. til 19. október 2004 er sérlega minnisstætt fyrir bruna á Knerri í Breiðuvík á Snæfellsnesi þegar nokkur hundruð lömb brunnu inni. Eldur og ofsaveður er skelfileg blanda. Hús hérlendis hafa oft brunnið við slíkar aðstæður.

Annað illvígt norðanveður gerði 5. til 7. október 2004. Gervihnattamynd sem sýnir sandfok af Suðurlandi þann 5. prýðir forsíðu tímaritsins Náttúrufræðingsins, 72. árgangs, 3-4 hefti 2004. Í blaðinu er fjallað um veðrið í tveimur stuttum en fróðlegum greinum.

Þeir sem þekkja til veðurstöðva taka eftir því að aðeins ein stöð Vegagerðarinnar á fulltrúa á listanum, Vatnsskarð eystra, á veginum milli Héraðs og Borgarfjarðar eystra. Minna má á að á flestum stöðvum Vegagerðarinnar er vindmælir í 6 en ekki 10 metra hæð frá jörðu.

En lítum næst á hviðurnar. Vegagerðarstöðvarnar mæla 1 til 2 sekúndna hviður, en aðrar stöðvar eru taldar miða við 3 sek.

byrjarsíðastmetármetdagurmetnafn
1994201019952573,7Þverfjall
199620101996762,6Skálafell
1999201020041961,9Hraunsmúli
199420101996759,6Gagnheiði
1999201020002758,4Lómagnúpur
200120102009958,1Skrauthólar
1995201019952456,9Siglufjörður
200520102009956,3Tindfjöll
1999201020002754,2Vatnsskarð eystra
199820101999153,6Papey

Þar er Flateyrarveðrið í fyrsta sæti með mælingu á Þverfjalli, ótrúleg tala ekki satt. Og Hraunsmúli í Staðarsveit nær 3. sætinu - í sama veðri og mælingin frá Bláfeldi í fyrri listanum. Gagnheiðartölurnar eru úr sitt hvoru veðrinu, sömuleiðis þær á Vatnsskarði eystra. Veðrið sem á metin á Skrauthólum á Kjalarnesi og í Tindfjöllum var minnisstætt fyrir heyrúllufok á Kjalarnesi auk skaða á húsum. Það er eitthvað við vind sem ekur stórum heyrúllum til langar leiðir. Kannski hafa þær þurft að lyftast til að hreyfing gæti farið af stað - ekki veit ég.

Talan frá Siglufirði er einnig úr Flateyrarveðrinu, en þá var vindur austlægari - en það er einhver ákveðin gerð af austnorðaustanátt sem er skæð á Siglufirði. Ég er ekki nægilega kunnugur þar til að vita hvort hviðurnar myndast þegar hornið á hlíðinni inn af Siglunesi rífur iðulakið eða hvort þær koma að ofan vegna rofs þess á fjallabrúnum innar í firðinum. [Rífur eða rýfur - rökstyðja má hvorn ritháttinn sem menn vilja heldur.]

En 10-mínútna listinn að ofan inniheldur ekki Íslandsmet októbervindhraða. Það er 55,6 m/s og var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 23. október 1963 í ógurlegu veðri sem þá gerði. Vindhraðamælirinn sem þá var notaður er allt annarrar tegundar heldur en síðar urðu algengastir og óvissa meiri í mælingunni, sérstaklega ef vindhraði var mikill.

Miklir skaðar urðu í þessu veðri og læt ég fylgja hér lista yfir það sem ég fann um tjónið í dagblöðum og veðurskýrslum. Listinn er í belgogbiðustíl. 

Öll útihús fuku á Höfðabrekku í Mýrdal og 6 gripir drápust, íbúðarhúsið eitt stóð af sér veðrið. Miðjan úr þaki íbúðarhúss fauk í Kerlingardal og á Litlu-Heiði eyðilagðist fjárhúsum tjón varð á fleiri bæjum í Mýrdal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Hraunsbæ í Álftaveri og eyðilagði bifreið. Í Skaftártungu fuku fjárhús og hlaða á Borgarfelli, fjárhús í Svínadal, í Snæbýli fauk hlaða og járn af nýju íbúðarhúsi á Ljótarstöðum. Tvö útihús og hlaða fuku á Loftsölum í Mýrdal. Grjótflug skemmdi bíl í Mýrdal.

Veðrið varð óvenju hart í Vestmannaeyjum þar fauk þak af fiskvinnsluhúsi, einnig bílar og bátar, tveir menn meiddust. Í Mykjunesi í Holtum fauk gamalt fjós, hálft þak fór af hlöðu á Syðri-Rauðalæk og nýlega fjárhúshlöðu tók upp í Ási. Á Hamrahóli slasaðist kona af glerbrotum. Talsvert foktjón varð bæði á Hellu og Hvolsvelli er járn fauk og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Á Ármótum fauk gömul hlaða upp á fjósið. Bílskúr tók í heilu lagi á Stokkseyri og hvarf hann í sortann. Þakplötur fuku í Reykjavík. Salthús fauk í Hafnarfirði

Tveir menn meiddust á Akureyri þegar þeir urðu fyrir braki, þar fuku járnplötur og fleira af allmörgum húsum og bátar slitnuðu upp. Tvö fjós hrundu á Barká í Hörgárdal. Þriðjungur þaks á nýrri heyhlöðu á Draflastöðum í Sölvadal fauk og heyhlaða skemmdist á Eyvindarstöðum. Járnplötur fuku á Sauðárkróki. Allmikið tjón varð á Akureyri, en einkum voru það þakplötur og mótauppsláttur sem fauk. Steyptur hlöðuveggur sprakk á Heiðarbraut í Þingeyjarsýslu, þak fauk af vélageymslu á Ingjaldsstöðum, raflínustaur brotnaði og víða fuku járnplötur og fleira lauslegt. Þak tók af hlöðu í Vogum í Mývatnssveit og af fjárhúsi í Syðri-Neslöndum, fjárhús skaddaðist á Arnarvatni, nýbyggð fjárhús á Hofsstöðum eyðilögðust, töluverðar skemmdir urðu á fjárhúsþaki á Skútustöðum  minna tjón varð á fleiri bæjum þar um slóðir. Bátur brotnaði á Grenivík. Síma- og rafmagnslínur slitnuðu í Höfðahverfi og minniháttar foktjón varð þar á bæjum.

Járnplötur fuku á allmörgum bæjum í Kelduhverfi og Öxarfirði. Járnplötur fuku af nokkrum húsum á Raufarhöfn, þar á meðal alveg af einu íbúðarhúsi. Þak fauk af skemmu og veggir gliðnuðu á Þórshöfn, þar brotnuðu skreiðarhjallar og fleiri skemmur sködduðust. Þak fauk af nýju íbúðarhúsi á Flögu í Þistilfirði og hlöður í Hvammi og á Gunnarsstöðum sködduðust. Verkfærageymsluhús fuku á Óslandi og Tunguseli. Þrjú hundruð járnplötur fuku af síldarbræðslunni á Vopnafirði.

Járn tók af barnaskólahúsi á Eiðum og járn fauk á Seyðisfirði. Járnplötur tók af allmörgum húsum á Stöðvarfirði og þrír bátar eyðilögðust í höfninni. Breskur togari strandaði í Ísafjarðardjúpi. Fólk lenti í hrakningum á Barðaströnd. Síma- og rafmagnsbilanir urðu víða.

Nóg um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 72
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1993
  • Frá upphafi: 2412657

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 1744
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband