Af langvinnum dauða fellibylsins Irene

Fellibylurinn Irene - eða öllu heldur leifar hans, hefur í dag verið að taka stökkið inn að heimskautaröstinni. Hætt er við falli þegar stokkið er með snúningi inn á hringekju. En lifir samt af.

Við skulum líta á hitamynd úr NOAA-gervihnetti. Hún var gripin af Kanadísku veðurstofunni í dag kl. 15:45.

w-blogg300811

Rauði hringurinn er nærri miðju lægðarinnar sem er á leið til norðausturs eða austnorðausturs. Lægðarmiðjan er yfir innri hluta Lárentsflóa, við sjáum Nýfundnaland til hægri og Hudsonflóa til vinstri á myndinni.

Öll háský lægðarinnar eru norðvestan við strikalínuna sem sett er á myndina. Þetta má kalla sameiginlegt einkenni fellibyljalægða sem eru að ummyndast í bylgju- eða riðalægðir. Mjög áberandi hvítur haus annað hvort norðvestan eða norðan miðjunnar, en svo er eins og skýin renni út í óljósa móðu þegar haldið er til suðausturs eða suðurs. Engin kuldaskil eru sjáanleg. Meðan ég stundaði skiladrátt á árum áður var venja að draga eins konar hitaskil í mjúkum boga norðvestan við hitabeltislægðir í ummyndun - byrjuðu ekki í lægðarmiðjunni sjálfri eins og annars er vaninn. Kuldaskil voru síðan dregin í framhaldi af hitaskilunum vestur og suðvestur af miðjunni.

Á morgun verður ummynduninni lokið og allþroskuð lægð birtist austur af Labrador. Hún kemur um síðir til Íslands en nær varla í kalda loftið sem nauðsynlegt er til að veruleg dýpkun geti átt sér stað. Sumar spár segja frá nokkrum strekkingi á fimmtudag (1. sept.) - og síðan dauðastríði fram á helgi, en við bíðum með frekari fréttir af því.

Nú er ljóst að Irene hefur valdið miklu tjóni í Bandaríkjunum og mestu flóðum í Vermont-fylki í 100 ár eða meir. Tryggingabært tjón er nú þegar metið á um 7 milljarða dollara (hátt í 1000 milljarða króna) og setur fellibylinn í flokk 15 til 25 mestu skaðaveðra vestra. Varla munu öll kurl komin til grafar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 133
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1098
  • Frá upphafi: 2420982

Annað

  • Innlit í dag: 120
  • Innlit sl. viku: 969
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband