Enn er sumar á öllu norðurhveli

Sumarið er mjög stutt yfir Norðuríshafi og við strendur þess. Nýr vetur fæðist yfirleitt þar eða þá með vaxandi næturfrostum nyrst á meginlöndunum. Næturfrosta er auðvitað þegar farið að gæta á heiðskírum nóttum - meira að segja á stöku stað hérlendis. Sömuleiðis fer þætti sólgeislunar í bráðnun íss á norðurslóðum að ljúka. Lágmarksútbreiðslu íssins er yfirleitt náð einhvern tíma í september - stundum snemma en stundum seint í mánuðinum. Við fáum ábyggilega að heyra frá lágmarkinu í ár. Það er bara á síðustu árum sem hafíslágmarkið kemst í fréttir - áður var öllum (eða nærri öllum) nákvæmlega sama. Hvað skyldi hafa breytt þessu? Heldur þessi áhugi áfram á næstu árum?

Í dag var hvergi mikið frost yfir Norðuríshafinu. Hlýtt er enn að deginum á kanadísku heimskautaeyjunum hiti langt yfir meðallagi við strendur Síberíu (þótt þar sé farið að gæta næturfrosta). Þykktin (mælir hita milli 1000 hPa og 500 hPa þrýstiflatanna) var hvergi undir 5260 metrum. En lægri tölur birtast væntanlega innan viku eða svo. Einmitt núna (á laugardagskvöldi 13. ágúst) er því spáð að það gerist milli Alaska og norðurskautsins - en sú spá er ekki endilega rétt.

Það er hálfnöturlegt að við séum nærri því inni við lægstu stöðu 500 hPa á norðurhveli. Að vísu njótum við enn sólar- og sjávaryls og nálægðar við hlýrri slóðir heldur en Norður-Grænland. Kortið sem við horfum á í dag sýnir hæð 500 hPa-flatarins. Auðvelt er að rugla saman hæð þess flatar og þykktinni áðurnefndu - ég veit það. Mismunur talnagilda hæðar og þykktar segir okkur hver loftþrýstingur við sjávarmál er.

En spákortið er frá evrópureiknimiðstöðinni (af opnum vef hennar) og gildir á hádegi mánudaginn 15. ágúst.

w-blogg130811

Fastir lesendur kannast við táknmál kortsins, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nú geta lesendur sleppt næstu málsgrein (hana er ekki hægt að lesa nema mjög hægt) enda stendur ekkert þar sem þeir þurfa að vita.  

Ég hef að vísu ekki reiknað tölurnar út en ég held að á heildina litið hafi línurnar á kortinu ekki verið jafngisnar í sumar. Lægsti hringurinn er 5340 metrar inni í kuldapollinum við Norður-Grænland og ef grannt er skoðað má sjá mjög þröngan 5340 metra hring undir L-inu yfir Íslandi. Þykktin yfir Norður-Grænlandi er þó niðri í 5260 metrum en hér á landi er hún um 5440 metrar. Þessi 180 metra munur jafngildir um 9 stigum í meðalhita neðri hluta veðrahvolfs. Þrýstingur undir 5340 metra línunni er lægri hér á landi sem þessu nemur, en 180 metrar eru um 22 hPa.

Mikil hlýindi streyma á mánudag norður Skandinavíu austanverða, myndu hér á landi nægja til þess að forða okkur frá hitabylgjulausu sumri. Engin slík hlýindi er að sjá á okkar slóðum - en sumarhitabylgjur af nærri fullum styrk geta komið á Íslandi allt fram til 10. september - líkurnar fara hins vegar hraðminnkandi með hverjum deginum. Sérstaklega vegna þess að kalda loftið (ekkert voðalega kalt þó) á að vera yfir okkur svo lengi sem lengstu spár ná. Spár eru hins vegar oft vitlausar - munum það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú veltir fyrir þér af hverju hafíslagmarkið vekur meiri athygli á síðustu árum miðað við það sem var áður. Þar hlýtur að vega þyngst þetta merkilega sumar 2007 þegar ísinn hörfaði meir en áður þekktist og dramatískir spádómar um algert afhroð ísbreiðunnar í framhaldinu. Þróun heimskautaíssins blandast einnig mikið í loftslagspólitíkina þar sem sitt sýnist hverjum.

Svo er líka orðið svo auðvelt að fylgjast með öllu því sem er að gerast með aðstoð netsins og upp spretta allskonar sjálfskipaðir sérfræðingar (eins og ég sjálfur) sem fylgjast með framvindunni af miklu kappi en mismikilli forsjá.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.8.2011 kl. 13:47

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er væntanlega rétt hjá þér Emil að aðgengi upplýsinga hefur aukið áhugann mikið. Ég man vel eftir því að fyrir 15 til 20 árum fréttist ekkert af árlegu lágmarki nema mörgum mánuðum eða jafnvel lengri tíma eftir að það átti sér stað. Maður sér varla fyrir sér nýja frétt birtast í febrúar 2012 undir fyrirsögninni. „Hafísinn í algjöru lágmarki haustið 2007“.

Trausti Jónsson, 15.8.2011 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 97
  • Sl. sólarhring: 241
  • Sl. viku: 1062
  • Frá upphafi: 2420946

Annað

  • Innlit í dag: 89
  • Innlit sl. viku: 938
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband