Af fáeinum afbrigðilegum ágústmánuðum

Við athugum til gamans hver er hlýjasti ágústmánuðurinn, sá kaldasti, þurrasti, votasti.

Á landsvísu getum við kreist hitasamanburð aftur á 19. öld en sá úrkomusamanburður sem hér liggur fyrir nær ekki nema aftur til 1924 - unnið er að gerð lengri raðar. Við höfum allgóðar upplýsingar um loftþrýsting aftur til 1823 - nærri því tvö hundruð ár. 

Hlýjasti ágúst á landsvísu var 2003. Jafnir í öðru til þriðja sæti voru 2004 og 1880, 1939 kemur ekki langt á eftir. Það var einhver ólíkindablær yfir ágúst 1880 þar til hlýju mánuðirnir 2003 og 2004 birtust. Eldri ágústmánuðum er haldið utan keppni, en frá þeim tíma eru 1828, 1829 og 1835 taldir líklegir keppinautar 1880 sem hlýjustu ágústmánuðir á 19. öld.

Ágúst 2003 telst sá hlýjasti bæði á Suðvestur- og Norðausturlandi.  

Botnsætið á landsvísu hlýtur ágúst 1903 og 1882 er nærri því eins neðarlega en síðarnefndi mánuðurinn er sá langkaldasti norðaustanlands. Kaldasti ágúst á Suðurlandi telst vera 1912. Tíð þar var samt talin hagstæð.

Úrkomusamasti ágústmánuður á landinu (frá og með 1924) telst vera 1969. Skást var tíðin norðaustanlands. Minnast kannski einhverjir votrar aðfaranætur sunnudags á Húsafellsmótinu fræga þetta ár? Að sögn voru þar um tuttugu þúsund manns þegar flest var - en það stytti upp í tíma. Sami mánuður telst sá úrkomusamasti á Suðurlandi, en á Vesturlandi er það 1976 sem er í efsta sætinu. Þá var ég í veiðieftirliti í Borgarfirði - veiðimenn vilja gjarnan hafa vatn í ánum - en þetta var eiginlega um of. En á höfuðdaginn stytti síðan eftirminnilega upp og skipti um tíðarfar. 

Úrkomusamasti ágúst sem frést hefur af nyrðra er 1958. Mér fannst þá kalt á kroppi er ég kom til Akureyrar síðla mánaðar.

Þurrasti ágúst á landinu er aftur á móti 1960. Ekkert rigndi í Reykjavík frá 4. ágúst til 4. september. Þetta var blíðumánuður. Ágúst 1960 telst einnig sá þurrasti á Suðurlandi. Vestanlands telst ágúst 1943 aftur á móti þurrastur. Þetta var óþverramánuður með miklum kuldum og úrkomu norðanlands. Meðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum var aðeins 3,6 stig og rétt rúm 5 stig á Raufarhöfn. Við teljum ágúst 1948 vera þann þurrasta á Norðurlandi.

Mesta heildarúrkoma í ágúst kom í mæla í Kvískerjum 1988, 597,3 mm.

Hæstur varð loftþrýstingurinn að meðaltali í ágúst 1885. Þá segir að þurrkar og blíðviðri hafi verið víðast hvar á landinu en ekki var hitinn hár. Lægstur var ágústþrýstingurinn 1842.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 766
  • Sl. viku: 3522
  • Frá upphafi: 2430569

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 2897
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband