Þurrkar

Árið 2010 var þurrt um mestallt land. Sömuleiðis ríktu hlýindi lengst af og loftþrýstingur var mjög hár. Þótt veðrið komi sífellt á óvart var árið úti á mörkum þeirrar líkindadreifingar sem hér ríkir. Ekki er létt að útskýra hvað nákvæmlega er átt við með þessu orðalagi. Langan veg þarf að fara til að skýra það. Vafamál er hvort sú vegferð er farandi í bloggpistlum - en við sjáum til með það.

Þurrkurinn var mestur að tiltölu um vestanvert Norðurland og sums staðar á Vestur- og Suðvesturlandi. Ég hef enn ekki komið því í verk að líta nánar á þessa þurrka nema í Reykjavík. Undanfarin ár hafa haft þá tilhneigingu að snemmsumur hafa verið þurr á vesturhelmingi landsins, en síðan hefur skrúfast frá rigningunni þegar liðið er á sumarið, á tímabilinu frá 20. júlí til ágústloka - og þá sem um munar. Í fyrra var september nokkuð úrkomusamur - en ekki svo að það skipti máli í þurrkaröðinni. Febrúar til maí í ár (2011) skiluðu góðri úrkomu vestanlands - eins og aftur hefði skipt um gír. En nú ber enn svo við að þurrt hefur verið framan af sumri - og til vaxandi vandræða norðanlands.

Á sumarþingi Veðurfræðifélagsins nú í júní flutti ég stutta tölu um þurrkana eins og þeir hafa birst í Reykjavík og nágrenni. Þar kom þetta m.a. fram:

Í Reykjavík mældist ársúrkoman 2010 aðeins 592,3 mm. Ársúrkoma hefur aðeins einu sinni mælst minni en þetta. Það var 1951 þegar hún mældist 560,3 mm. Tvisvar hefur ársúrkoman orðið nærri því jafnlítil og nú. Það var 1891 þegar hún mældist 595,0 mm og 1960 þegar hún mældist
596,6 mm. Næsta ár þar fyrir ofan er 1965 með 610,1 mm.

Í Reykjavík eru samfelldar úrkomumælingar frá 1920 og frá 1884 til 1907, en árin þar á milli vantar. Á því tímabili voru öll árin 1915, 1916 og 1917 mjög þurr um landið vestanvert og trúlegt að að minnsta kosti eitt þeirra hafi verið þurrara í Reykjavík en 2010. Úrkoma í Reykjavík var undir meðallagi í öllum mánuðum nema janúar og september og ársúrkoman aðeins 74% meðalúrkomu.

Nú lítum við á mynd:

w-blogg180711

Lárétti ásinn sýnir árin frá 1921 og fram til maíloka 2011. Lóðrétti ásinn sýnir hlutfall af meðalúrkomu 18 mánaða tímabila 1971-2000.  Búið er að jafna burt árstíðasveiflu úrkomunnar og er teiknuð rauð lína sem nær yfir öll 18-mánaða tímabil frá 1921 til okkar tíma. Við sjáum að það lágmarks sem nýgengið er yfir fór niður í 71% af meðalúrkomu. Svo lág gildi hafa ekki sést nema örfáum sinnum áður - reyndar á 15 til 18 ára fresti eða svo.

Nú er spurning hvernig fer í ár. Kemur úrkomugusa síðla sumars? Við sjáum að úrkomulágmörkin hafa ekki staðið lengi í senn hingað til, úrkoma hefur fljótlega náð hlutfallinu 0,9 aftur. Það er helst upp úr 1960 sem sjá má langt tímabil sem hangir í 0,8 eða svo.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1053
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3443
  • Frá upphafi: 2426475

Annað

  • Innlit í dag: 940
  • Innlit sl. viku: 3096
  • Gestir í dag: 912
  • IP-tölur í dag: 845

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband